Samningur um Markaðsráð ferðaþjónustunnar rennur úr gildi um næstkomandi áramót, og í kjölfarið verður það lagt niður í núverandi mynd.
Þess í stað verða gerðar ákveðnar skipulagsbreytingar á starfsemi Ferðamálaráðs, þar sem lögð verður áhersla á að landkynningar og markaðsmál verði styrkt með stofnun nýs markaðssviðs. Öll markaðsmál, bæði innlend sem erlend munu heyra undir sviðið, þ.á.m. kynningarskrifstofur Ferðamálaráðs í New York, Frankfurt og fyrirhuguð skrifstofa í Kaupmannahöfn. Hin sviðin eru upplýsinga- og þróunarsvið, sem staðsett er á Akureyri, og rekstrar- og stjórnsýslusvið. Með þessum skipulagsbreytingum verða verkefni ráðsins gerð skilvirkari og línur skýrari á milli mismunandi málaflokka stofnunarinnar.