Grein birt í Morgunblaðinu 10. janúar 2008
Skömmu fyrir jól var samþykkt frumvarp til laga um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Lögin voru samþykkt af þingmönnum allra flokka nema Vinstri grænna. Mikill óróleiki virðist hafa skapast innan VG vegna þessar breytinga á þingsköpum ef marka má málflutning þeirra. Í Silfri Egils í lok ársins hafði varaþingmaðurinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir stór orð um vinnubrögð við þessar breytingar. Hún skrifaði auk þess grein í Fréttablaðið þar sem hún segir að ,,síðasta verk þingsins hafi verið að rjúfa þá hefð að sátt sé um þingsköp“. Þetta eru fullyrðingar sem ekki fá staðist eins og þeir vita sem hafa fylgst með gangi málsins. Vegna málflutnings og viðbragða þingmanna VG sé ég ástæðu til þess að gera nokkrar grein fyrir aðdraganda þessa máls og hvernig staðið var að undirbúningi þessara mikilvægu breytinga á þingskaparlögum .
Frumkvæði Ólafs G Einarssonar
Á kjörtímabilinu 1995-1999, er Ólafur G. Einarsson var forseti Alþingis, hófst skipuleg vinna við endurskoðun þingskapa. Á þeim tíma var ég einn af varaforsetum Alþingis og þekki því vel til. Þetta starf bar þann árangur að eftir áramótin 1998–1999 var lagt fram frumvarp um gagngerar breytingar á þingsköpum Alþingis. Að því stóð öll forsætisnefnd þingsins, Ólafur G. Einarsson, forseti, og varaforsetarnir Ragnar Arnalds, Guðni Ágústsson, Guðmundur Árni Stefánsson og undirritaður. Að þessu vék Svavar Gestsson í kveðjuræðu sinni á þinginu vorið 1999 en hann var formaður þingflokks og vann að málinu.
Frumvarpið var stöðvað
Frumvarpið frá 1999 náði ekki fram að ganga. Miklar hræringar voru þennan vetur í stjórnmálum, þingflokkar klofnuðu , en nýr þingflokkur óháðra, undir forustu Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar, lagðist algerlega gegn frumvarpinu og þeim breytingum sem það fól í sér.
Ég og margir fleiri bundum vonir við það að takast mætti að ná sáttum um breytingar á þingsköpum Alþingis þegar nýtt þing kom saman eftir kosningar 1999. Af því varð hins vegar ekki. Forveri minni í embætti, Sólveig Pétursdóttir, lagði sig mjög fram á síðari hluta seinasta kjörtímabils að ná samkomulagi um breytingar á þingsköpum, en ekki náðist samstaða þingflokkanna um önnur atriði en þau sem kalla mætti „tæknilegar breytingar“ og þau voru raunar að mestu tekin upp úr frumvarpinu frá 1999.
Nýtt þing vildi breytingar
Þannig stóðu þessi mál er ég var kjörinn til embættis forseta Alþingis í lok maí sl. vor. Er ég tók við kjöri sagði ég m.a. í ávarpi mínu þegar ég vék að slakri útkomu Alþingis í könnunum sem gerðar hafa verið á afstöðu þjóðarinnar til þingsins:
„Eigi að síður tel ég að umræðuhættir á Alþingi eigi hér nokkra sök en það er sá þáttur þingstarfanna sem er sýnilegastur okkur. Ég hvet til þess að við öll tökum saman höndum og bætum hér um. Það á að vera hlutverk okkar að setja þann svip á löggjafarsamkomuna að hún njóti virðingar með þjóðinni og hafi trúverðugleika.“
Ég varð þess var eftir þingsetningarávarp mitt að mikill vilji var meðal nýrra þingmanna að gerðar yrðu breytingar bæði á þingsköpum og einnig á starfsaðstöðu þingmanna. Og það var mitt mat að mjög mikilvægt væri að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi en, starfsaðstaða stjórnarandstöðunnar var ekki boðleg á elsta löggjafarþingi veraldar.
Breytingar undirbúnar
Eftir að hafa farið yfir stöðu mála og rætt við alla formenn stjórnmálaflokkanna sl. sumar þar á meðal Steingrím J Sigfússon hóf ég undirbúning að breytingum á lögum um þingsköp Alþingis og einnig breytingar á starfsaðstöðu þingmanna. Forsætisnefndin tók tillögunum mjög vel . Grundvöllur breytinganna hvað varðaði ræðutíma var frumvarpið frá 1999 .
Eftir vandaðan undirbúning kynnti ég tillögurnar í heild sinni fyrir formönnum þingflokkanna, en það var sá hópur sem mótaði endanlegar útfærslu málsins alls. Vikum saman fóru fram umræður sl. haust um frumvarpið þar sem leitað var samkomulags um málið. Við lok þeirrar miklu vinnu reyndust fulltrúar VG ekki tilbúnir að fallast á þau sjónarmið sem ég hafði náð samkomulagi um við aðra og höfnuðu því miður samstarfi um málið nema þeirra sjónarmið um ótakmarkaðan ræðu tíma næði fram að ganga. Auk þess vildu þeir slíta sundur breytingar á þingsköpum og bætta starfsaðstöðu þingmanna. Ég get vel viðurkennt að ég setti fulltrúum VG stólinn fyrir dyrnar þegar ég áttaði mig á því að enginn vilji var á þeim bæ til þess að ljúka málinu. Ég gat ekki hugsað mér að láta þingmenn VG stöðva málið og eyðileggja aftur þá samstöðu sem hafði myndast um málið. Því fór sem fór og frumvarpið var lagt fram og afgreitt sem lög frá Alþingi..
Viðbrögð við breytingum á starfsháttum þingsins hafa öll verið á einn veg hjá öðrum en þingmönnum VG. Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð ekki síst frá reyndum þingmönnum og áhugamönnum um stjórnmál sem fylgjast daglega með umræðum á Alþingi. Ég tel að það staðfesti að ákvörðun mín var rétt að nýta þann byr sem málið hafði í þinginu.