Vart þarf að rifja upp síðasta aðalfund Landssíma Íslands hf., þar sem fyrirtækinu var kosin ný stjórn eftir miklar sviptingar innan þess og mikla og óvægna fjölmiðlaumfjöllun um málefni þess. Viðbrögðin gagnvart hinni nýju stjórn voru öll á einn veg. Almennt var talað um að vel hefði tekist til með val á stjórnarmönnum og formanni stjórnar. Með kjöri stjórnarinnar var af minni hálfu leitast við að færa skipan stjórnar frá því fari sem áður hafði tíðkast, þ.e. að þar sætu fulltrúar sem væru beint eða óbeint skipaðir vegna tengsla sinna við stjórnmálaflokkana. Taldi ég þá breyttu skipan mikilvæga vegna þeirra sviptinga sem orðið höfðu kringum Símann, stjórn hans og forstjóra.
Það hefur viljað bera við hér á landi, að gera lítið úr hlutverki stjórna í hlutafélögum. Sú afstaða kom berlega í ljós þegar fjallað var um stjórnarlaun í Símanum sem þóttu vera ákvörðuð há. Ég er einn þeirra fjölmörgu einstaklinga sem hafa látið hafa sig í að sitja í stjórnum, ráðum og nefndum nánast í sjálfboðavinnu. Þegar Símanum var kosin ný stjórn var ákveðið að viðurkenna mikilvægt og tímafrekt starf stjórnarmanna, sem taka starf sitt alvarlega, með því að hækka stjórnarlaunin. Ég er þess fullviss að sú ákvörðun var rétt og verður viðurkennd sem tímamóta ákvörðun. Og í raun og veru ákvörðun um að gera auknar kröfur til þeirra sem taka að sér stjórnarsetu í hlutafélaögum. Þegar litið er til hlutafélagalaga fer ekki á milli mála að ábyrgð og skyldur stjórna hlutafélaga er mikil. Fyrir slík ábyrgðarstörf er eðlilegt að greiða hæfilega þóknun og gera viðkomandi grein fyrir stöðu sinni og skyldum.
Þegar fyrir lá í vetur að ekki yrði gengið til samninga um sölu á hlut í Símanum til kjölfestufjárfestis var hægt á söluferlinu. Var tekið til við að vinna að ýmsum breytingum sem eðlilegt var að gera á starfsemi og innviðum Símans. Að því starfi hefur stjórn og starfsfólkið unnið síðustu mánuði. Allt miðar það að því að efla Símann og auka verðgildi hans. Ráðning nýs forstjóra er hluti af þeim breytingum sem nauðsynlegt var að gera. Vil ég sérstaklega lýsa ánægju minni með hve vel hefur tekist til við að finna fyrirtækinu nýjan forstjóra, og þá ákvörðun stjórnar Símans að ráða Brynjólf Bjarnason.
Aðstæður á hlutabréfamarkaði voru ekki hagfelldar þegar sala á hlutabréfum í Símanum hófst. Ég vona að þegar hlutabréfamarkaðurinn hefur styrkst og hinn alþjóðlegi fjarskiptamarkaður aftur komist á lygnan sjó eftir hinar miklu hremmingar undanfarinna missera, þá muni stjórn og forstjóra Símans hafa tekist að gera þær breytingar á rekstri Símans sem gera hann að enn betra og verðmætara fyrirtæki. Íslenskur fjarskiptamarkaður þarf á því að halda að vel takist til, bæði með breytingar hjá Símanum og sölu á hlut ríkisins til trúverðugra aðila. Forystumenn íslenskra fjarskiptafyrirtækja verða að vera tilbúnir að halda því merki á lofti sem Síminn hefur gert í heila öld og fært okkur í fremstu röð meðal þeirra þjóða sem nýta mest fjarskiptin og upplýsingatæknina. Við Íslendingar eigum mikið undir því að geta nýtt okkur fjarskiptin og upplýsingatæknina í þágu atvinnulífsins, menningar og mennta í landinu. Sem samgönguráðherra hef ég lagt áherslu á að fjarskiptin á Íslandi séu ódýr, örygg og öllum aðgengileg, og þá allt í senn, hvort heldur sem um er að ræða hinn almenna hefðbundan talsíma, farsímann eða gagnaflutningsþjónustu. Með gildandi fjarskiptalögum eiga símafyrirtækin, með Landsímann í broddi fylkingar, að hafa góða möguleika á því að íslenskur fjarskiptamarkaður verði í fremstu röð á öllum sviðum.