Líkt og komið hefur fram hér fyrr á vefnum var samgönguráðherra nýverið í Noregi, þar sem hann var m.a. viðstaddur vígslu brimvarnargarðs í Sirevåg í Noregi sem var formlega tekinn í notkun 6. nóvember s.l. Af Íslands hálfu tóku þátt í opnuninni samgönguráðherra, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, fulltrúar Siglingastofnunar, Jarðfræðistofnunnar Stapa og verktakafyrirtækisins Ístaks. Nú kann einhver að spyrja hví samgönguráðherra Íslands sé við athöfn sem þessa þegar tekið er í notkun hafnarmannvirki í Noregi. Ástæðan er einföld en ánægjuleg, en eftirfarandi frásögn er byggð, með góðfúslegu leyfi höfundar, Sigurðar Sigurðsson hjá Siglingastofnun, á frásögn um athöfnina í Sirevågen sem birtist í næsta fréttablaði Siglingastofnunar, Til sjávar, sem er rétt ókomið út.
Í sumar lauk byggingu brimvarnargarðs í Sirevåg á Jæren eða Jaðri í Suður-Noregi, en Íslendingar komu töluvert að þessu verki. Garðurinn er svokallaður bermugarður, en Siglingastofnun Íslands hefur skapað sér sérstöðu í hönnun slíkra garða. Þá vann Siglingastofnun öldufarsreikninga sem notaðir voru til ákvörðunar á hönnunarálagi, garðurinn var hannaður af stofnuninni og einnig kom stofnunin að gerð úboðsgagna í samvinnu við norsku verkfræðistofnuna Norconsult. Jarðfræðistofan Stapi sá um grjótnámsathuganir, sem fólust í kjarnaborunum og námuspá. Verkið var boðið út að undangengnu forvali þar sem sex verktakafyrirtæki fengu að bjóða í verkið, þar af tvö íslensk. E.Pihl & Søn/Ístak áttu lægsta boð um 64 milljónir norskra króna eða um 740 milljónir íslenskra króna.

Verðlaunuð framkvæmd
Hafnarframkvæmdirnar í Sirevåg hafa fengið töluverða athygli í Noregi. Bygging garðsins er fyrsta stóra útboðsverk sem Kystværket stendur fyrir. Þá hefur Kystværket veitt Sirevåghöfn verðlaun “Havneprisen 2001” fyrir bestu hafnarframkvæmd síðustu 10 ára. Við veitingu verðlaunanna var tekið tillit til kostnaðar við framkvæmdirnar og þeirra nota sem þær skila, til hagræðingar við landnotkun, fagurfræði, hvernig höfnin fellur að umhverfi sínu, tæknilegra lausna og að tímaáætlanir hafi staðist.

Nýtt verkefni í Noregi.
Í framhaldi af þessu verkefni tekur Siglingastofnun og Jarðfræðistofan Stapi nú þátt´í hönnun brimvarna fyrir móttökustöð fyrir jarðgas frá Snøhvit (Mjallhvít) svæðinu sem Statoil hyggst byggja við Hammerfest í Norður-Noregi. Það verk er unnið í samvinnu við verkfræðistofuna Multiconsult og SINTEF í Noregi og verkfræðistofuna Linde í Þýskalandi.