Laugardaginn 3. nóvember var lagt neðra lag klæðingar á nýbyggingarkaflann á Hringvegi, Smyrlabjörg – Tröllaskörð, í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu. Þar með er komið bundið slitlag á alla leiðina á milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði. Þessara tímamóta var minnst s.l. föstudag með þeim hætti að settur var upp koparskjöldur á stein sem komið hefur verið fyrir á áningarstað við Hestgerði sem er skammt frá nýja vegarkaflanum. Samgönguráðherra Sturla Böðvarsson afhjúpaði skjöldinn við athöfn og í tilefni dagsins reisti Vegagerðin fánaborgir við veginn í öllum sýslum á þessari leið.
Það telst mikil vegabót þegar lagt er bundið slitlag á áfanga sem áður hefur verið ekinn á misgóðu malarslitlagi. Ferðfólk lítur öðrum augum á leiðina og kílómetrarnir virðast styttast. Atvinnu- og skólasvæði stækka og íbúum finnst sjálfsagt að sækja lengra í menningu og afþreyingu.

Í upphafi slitlagatímabilsins svonefnda í vegagerð á níunda áratugnum voru áfangarnir stuttir og langt á milli þeirra. Síðan fóru kaflarnir að þéttast og loks var svo komið að stórir samfelldir hlutar Hringvegarins voru lagðir bundnu slitlagi. Í september 1994 var lagt bundið slitlag á Bólstaðarhlíðarbrekku í Húnavatnssýslu og þar með náði malbikið alla leið á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Vegagerðin hélt upp á þennan áfanga með því að festa koparskjöld á stein við Sesselíubúð á Öxnadalsheiði og afhjúpaði Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra skjöldinn þann 23. september það ár. Slitlagatímabilið náði hámarki árið 1987 þegar lagðir voru 305 km af nýrri klæðingu. Síðan hefur verið lagt á 100 til 200 km á ári og eru nú hátt í 4.000 km af þjóðvegum með bundnu slitlagi.

Bílfær leið milli Reykjavíkur um Norðurland austur til Hafnar í Hornafirði opnaðist á sjötta áratugnum. Síðustu farartálmarnir voru á sunnanverðum Austfjörðum en víða þurfti að aka yfir ár eða sæta lagi í fjöru. Berufjarðará var brúuð 1957 og má segja að leiðin hafi verið þokkalega fær eftir það. Leiðin með suðurströndinni opnaðist árið 1974 þegar lokið var við brúagerð á Skeiðarársandi. Í tvo áratugi hefur svo verið að bætast við bundna slitlagið á þessari leið og nú er því lokið.

Þessi síðasti áfangi er um 4 km langur og fylgir að mestu leyti gamla veginum sem var styrktur og endurbættur. Settir voru tveir 2,4 m víðir stálhólkar í Uppsalaá. Vegurinn er byggður í vegflokki C2, 6,5 m breiður með 6,3 m breiðu klæðingarslitlagi. Helstu magntölur verksins eru: fyllingar 33.000 m3, burðarlög 30.000 m3 og 30.000 m2 í klæðingu. Verkið var boðið út í júlí sl. Áætlaður heildarkostnaður er rúmar 60 m.kr. Verktaki er Þ.S. Verktakar á Egilsstöðum. Eftir er að leggja seinna lag klæðingar og lokafrágangur sem á að vera að fullu lokið 15. júní 2002. Umferð er áætluð um 200 bílar á sólarhring að meðaltali. Hönnun vegarins og eftirlit var í höndum starfsmanna Vegagerðarinnar.