Föstudaginn 19. mars 2004 birtist meðfylgjandi grein eftir samgönguráðherra í Morgunblaðinu.

Undirbúningur að lagningu Sundabrautar er hafinn og ný hafnalög skapa möguleika á því að sameina hafnirnar öllum til hagsbóta.

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi R-listans í Reykjavík skrifar s.l. laugardag í Fréttablaðið einn af sínum föstu pistlum. Að þessu sinni skrifar hann um sameiningu hafnanna við Faxaflóa, lagningu Sundabrautar og samgönguráðherra. Hann lætur að því liggja að samgönguráðherra dröslist nauðugur með í þann leiðangur að sameina hafnirnar og ganga til liðs við sveitarfélögin, og þá aðallega Reykjavík, við að flýta lagningu Sundabrautar. Og hann klykkir út með því að krefjast aðgerða í stað (lof)orða. Allur er þessi pistill Dags hinn undarlegasti. Er augljóst að ,,óháði“ R-lista borgarfulltrúinn er í hinum mestu vandræðum að brjótast út úr þeirri afstöðu sem R-listinn tók, að byggja höfn í Geldinganesi. Hann er minnugur þess að R-listinn hafnaði öllum tillögum um breytt skipulag. R-listinn ætlaði að byggja höfn í Geldinganesi. Þá höfn ætluðu þau að byggja við hliðina á iðnaðarhöfninni á Grundartanga og með fiskihöfnina á Akranesi í augsýn skammt undan! Og hann finnur væntanlega til þess að athafnir eru ekki sterka hliðin hjá stjórnendum borgarinnar um þessar mundir. Þar verða aðrir að draga vagninn. Samgönguráðherra við byggingu umferðarmannvirkja innan borgarmarkanna og nú sveitarfélögin á Akranesi og í Borgarfirði vegna framkvæmda við sameiningu hafnanna. En batnandi mönnum er besta að lifa. Ég hef lengi, bæði í ræðu og í riti, hvatt til þess að draga úr starfsemi flutningahafnanna í miðborginni og færa þau umsvif upp á Grundartanga og Akranes annars vegar og á Suðurnesjahafnirnar hinsvegar. Með því væri létt á umferðarþunganum inn og út úr borginni frá Sundahöfninni. Með nýju hafnalögunum skapast möguleikar til þess að sameina hafnir og auka hagkvæmni í rekstri þeirra. Sameining getur gerst með stofnun hlutafélaga, sameignarfélaga eða með stofnun hafnasamlaga eins og var raunar hægt samkvæmt eldri lögum. Sundabrautin er Degi ofarlega í huga. Hann lætur að því liggja að nú vanti athafnir í stað orða svo Sundabrautin komist af stað. Hverjar eru staðreyndir þessa máls? Samgönguáætlun, sem samgönguráðherra lét vinna og var afgreidd á Alþingi vorið 2003, gerir ráð fyrir framkvæmdum við Sundabrautina. Allar götur síðan sú tillaga samgönguráðherra var samþykkt hefur verið unnið að skipulagi Sundabrautar og umhverfi hennar á vegum Vegagerðarinnar í samstarfi við borgaryfirvöld. Vegna skipulagshugmynda borgarinnar hefur verið lagt í mikla vinnu við að skoða fjóra eða fimm kosti við að leggja veg frá Sæbraut að Geldinganesi yfir Klettsvíkina. Og nú eru þær tillögur í fullkomlega eðlilegu fari vegna umhverfismats. Fjármögnun þessa risastóra verkefnis er næst á dagskrá við endurskoðun Samgönguáætlunar. Dagur telur það vera sérstakt fagnaðarefni að samgönguráðherra skuli hafa slegist með í för eins og hann segir. Hann virðist ekki átta sig á því að samgönguráðherrann ruddi brautina fyrir þá sem nú hafa lagt upp. Undirbúningur að lagningu Sundabrautar er hafinn og ný hafnalög skapa möguleika á því að sameina hafnirnar öllum til hagsbóta. Sveitarfélögin tíu, sem standa að hafnafélaginu nýja, eiga heiður skilið fyrir framsýni. Það hefur ekki staðið á samgönguráðherra að vinna með þeim og það mun ekki standa á samgönguyfirvöldum að vinna að næstu skrefum í þeirri framfarasókn sem fylgir þeim samgöngubótum sem að er stefnt.