Flugöryggisstofnun Evrópu

Undanfarin ár hefur verið unnið að því á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) að byggja upp sérfræðistofnanir á hinum ýmsu málasviðum. Líkt og sérstakar stofnanir samgönguráðuneytisins, t.d. Flugmálastjórn Íslands og Siglingastofnun Íslands, hafa nú verið settar á stofn bæði Siglingaöryggisstofnun Evrópu (European Maritime Safety Agency, EMSA) og Flugöryggisstofnun Evrópu (European Aviation Safety Agency, EASA).

En hvernig er aðkoma okkar Íslendinga að þessum stofnunum? Í þessari annarri grein minni um EES og samgöngumál ætla ég að fjalla um Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA, og samstarf okkar við hana. EASA, sem staðsett er í Köln í Þýskalandi, tók formlega til starfa 28. september 2003. Það var síðan á grundvelli EES samningsins, sem Ísland varð formlega aðili að stofnuninni þann 9. desember s.l., þegar tekin var upp í EES samninginn reglugerð er lýtur að stofnun EASA og skilgreinir þau verkefni sem stofnuninni eru falin. EASA er m.a. að hluta til ætlað að taka við hlutverki Flugöryggissamtaka flugmálastjórna Evrópu (JAA), sem Ísland er fullgildur aðili að. Um þessar mundir er flugmálastjóri, Þorgeir Pálsson, meðal forystumanna í stjórn.

Meginhlutverk stofnunarinnar (EASA) er að vinna að auknu flugöryggi í Evrópu og tryggja samræmdar öryggiskröfur í flugi á Evrópusvæðinu. Stofnuninni ber að stuðla að frjálsri og opinni samkeppni, skilvirku vottunarferli og alþjóðlegri samræmingu. Að auki tekur stofnunin yfir ýmis verkefni sem hafa verið í höndum JAA. Stofnuninni hefur einnig verið falið að sjá um hluta af þeim verkefnum flugmálastjórna innan EES svæðisins sem lúta að útgáfu og viðurkenningum á tegundarskírteinum flugvéla og íhluta þeirra. Í þessu felst að stofnunin sér um hönnunar- og umhverfisvottun á nýjum tegundum flugvéla og flugvélahluta í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla um öryggi slíks búnaðar eða staðfestir vottun ríkja utan EES.

Aðild að EASA mikilvæg fyrir sífellt vaxandi atvinnugrein

Flugið og flugtengd starfsemi er atvinnugrein sem vex hröðum skrefum og skiptir íslenskt efnahagslíf og íslenskan almenning verulegu máli. Fyrir okkur Íslendinga eru talsverðir hagsmunir bundnir þátttöku Íslands í EASA, jafnt fyrir flugrekendur og flugmálayfirvöld. Það skiptir okkur miklu máli að búa þessari atvinnugrein sem best starfsskilyrði og eitt af mikilvægustu atriðunum er að regluverk flugsins hér á landi sé í samræmi við okkar helstu viðskiptaþjóðir. Aðild Íslands að EASA auðveldar viðurkenningu á þeim viðhaldstöðvum sem starfræktar eru hér á landi. Slíkt mun spara flugiðnaðinum hér á landi talsvert fé. Þá skiptir ekki síður máli að með markvissri þátttöku okkar í stofnun eins og EASA treystum við enn frekar það góða orðspor sem fer af íslenskum flugfyrirtækjum í útrás þeirra á alþjóðavettvangi. Það er ekki síst þannig sem stjórnvöld geta stutt við bakið og ýtt undir vöxt og viðgang þessarar mikilvægu atvinnugreinar sem flugið er. Hluti af því sem samgönguráðuneytið hefur gert til þess að styrkja stöðu okkar á þessum vettvangi er að byggja upp þekkingu innan ráðuneytisins til að takast á við þessi vaxandi verkefni og auðvelda fulltrúa ráðuneytisins í Brussel að standa vaktina með því ágæta fólki sem vinnur þar og tryggir hagsmuni okkar.

_________________
Höfundur er samgönguráðherra