Í tilefni af Unglingalandsmóti UMFÍ, sem haldið verður í Stykkishólmi um verslunarmannahelgina, birti Morgunblaðið eftirfarandi grein:
Eins og þekkt er heldur Ungmennafélag Íslands úti þróttmiklu og mikilvægu starfi fyrir ungmenni um land allt. Einn þáttur í þessu starfi eru íþróttamót fyrir unglinga þar sem keppt er í fjölmörgum greinum.
Um verslunarmannahelgina verður Unglingalandsmót UMFÍ haldið í Stykkishólmi. Framkvæmd mótsins er að þessu sinni í höndum Héraðssambands Snæfellinga og Hnappdæla (HSH). Á vegum þess hefur verið unnið mjög mikilvægt starf í þágu ungmenna á Snæfellsnesi í áratugi og hafa fjölmargir einstaklingar unnið sjálfboðastarf á vettvangi ungmennafélaganna til að efla heilbrigt æskulýðs- og íþróttastarf. Unglingalandsmót UMFÍ hafa notið vaxandi vinsælda sem fjölskylduhátíð. Þar keppa ungmenni í íþróttum meðan foreldrar og systkini fylgjast með og njóta samverunnar í skemmtilegu umhverfi, þar sem jafnframt er haldið uppi fjölbreyttri dagskrá fyrir fjölskyldufólk.
Í Stykkishólmi er glæsileg aðstaða bæði til íþróttaiðkunar og afþreyingar. UMFÍ hefur lagt metnað í framkvæmd þessara móta og ekki fer á milli mála að verslunarmannahelgin er kjörin til þess að efna til Unglingalandsmóts UMFÍ. Ferðamálaráð hefur að undanförnu lagt mikið kapp á að auka ferðalög íslendinga innanlands og er þess að vænta að árangur verði af þeirri öflugu kynningu. Íslensk ferðaþjónusta er að eflast mjög um land allt sem ein stærsta atvinnugrein okkar. Sem ráðherra ferðamála fagna ég því að UMFÍ skuli efna til fjölskyldumóts á borð við Unglingalandsmót UMFÍ og ganga þannig til samstarfs við ferðaþjónustuna í landinu, sem hefur verið að byggja upp aðstöðu, til þess að veita þjónustu þeim fjölmörgu sem vilja ferðast um landið, njóta fegurðar þess og margvíslegrar afþreyingar sem byggð hefur verið upp vítt um landið.
Það er von mín að Unglingalandsmót UMFÍ megi takast vel í Stykkishólmi og verða ungmennafélögunum hvatning til þess að halda áfram að byggja upp fjölskylduhátíðir þar sem íþróttir og útivist eru hafðar í hávegum.

Sturla Böðvarsson