Egill Helgason skrifar fasta pistla á vefnum undir heitinu Silfur Egils á Strik.is.
Á þessari síðu skartar hann grein sem hann nefnir „Vitlaus samgönguáætlun
Þessi grein er einhver sú furðulegasta sem ég hef lesið. Þar er Egill að skrifa um hluti sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Hann skrifar um að á Alþingi sé verið að afgreiða samgönguáætlun sem samgönguráðherra hafi kynnt með pompi og prakt. Og hann heldur því síðan fram að í þessari samgönguáætlun sé mjög gengið gegn hagsmunum höfuðborgarinnar. Þessi skrif eru ótrúleg frá manni sem heldur úti mikilli fjölmiðla umfjöllun, bæði í sjónvarpi og á heimasíðu sinni, sem er víðlesin. Ef öll skrif og umfjöllun Egils er byggð á jafn ótraustum grunni og þessi umfjöllun, um „samgönguáætlun“ sem ekki er til, veldur það miklum vonbrigðum. Egill virðist hafa étið upp hrátt ruglið úr Erni Sigurðssyni talsmanni Betri byggðar sem hefur skrifað hverja greinina á fætur annari um samgönguáætlun sem ekki er til. En hver er raunveruleikinn sem ruglar þessa ágætu menn.

Lög um samgönguáætlun
Síðustu vikur hefur verið til umfjöllunar á Alþingi frumvarp til laga um samgönguáætlun. Með því frumvarpi er verið að gera breytingar á lögum sem felur það í sér að í stað þess að Alþingi afgreiði Vegaáætlun, Flugmálaáætlun og Hafnaáætlun, verði afgreidd ein Samgönguáætlun sem felur í sér alla þætti samgöngumála. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu í samgöngumálum sem er ætlað að bæta áætlanagerð, nýta betur fjarmuni og taka á fleiri þáttum en áður hefur verið gert í áætlanagerð á sviði samgöngumála. Það ríkir sátt um frumvarpið í þinginu. Þegar frumvarpið, sem nú er til síðustu umræðu í þinginu, hefur hlotið afgreiðslu verður tekið til við að vinna samgönguáætlun og hún lögð fyrir þingið næsta haust til afgreiðslu. Þá fyrst getur Egill Helgason og aðrir áhugamenn um samgöngumál hafið umfjöllun um þá samgönguáætlun sem þeir ætla mér að bera ábyrgð á. Skrif um áætlun, sem ekki er til, er ótrúleg og hláleg en sýnir furðuleg vinnubrögð sem ganga öll út á það að koma höggi á ráðherra og helgar þar tilgangurinn meðalið.

Undirbúningur frumvarpsins
Undirbúningur frumvarpsins um samgönguáætlun hefur átt sér nokkurn aðdraganda. Sérstakur stýrihópur var skipaður til þess að vinna frumvarpið og skilaði hann áfangaskýrslu um forsendur samgönguáætlunar, sem var lögð til grundvallar við undirbúning frumvarpsins, og er liður í því að undirbúa samgönguáætlunina. Í skýrslu stýrihópsins er fjallað um ýmsa þætti sem koma til umfjöllunar þegar samgönguáætlunin verður unnin og var skýrslan lögð fram og kynnt í desember á síðast ári, jafnframt því að gerð var grein fyrir frumvarpinu. Það er þessi skýrsla stýrihópsins sem Egill Helgason hefur tekið sem endanlega samgönguáætlun án þess að hafa lesið hana að því að virðist vera.
Ég vænti þess að Egill Helgason átti sig á þessu og skrifi nýja grein á heimasíðunni og fjalli um staðreyndir málsins.
Í gær, 25. mars, var fjallað um gerð samgönguáætlunar á sérstöku málþingi sem samgönguráðuneytið efndi til. Þar var farið yfir ýmsa þætti samgöngumála okkar Íslendinga og leitast við að kalla eftir gagnrýni og rækilegri umfjöllun. Með málþinginu var hafið mikilvægt samráð við fjölmarga sem eiga mikið undir traustu samgönguneti í landinu. Þar flutti Jack Short framkvæmdastjóri Samtaka evrópskra samgönguráðherra fyrirlestur ásamt mörgum öðrum. Það hefði verið fróðlegt fyrir Egil Helgason að vera þar og heyra máefnalega umfjöllun.