Flugfélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi frétt vegna endurbyggingar flugbrautar á Þingeyri.
„Í tilefni af umræðum um Samgönguáætlun samgönguráðherra fyrir árin 2005-2008, þar sem gert er ráð fyrir endurbyggingu flugbrautar á Þingeyri ásamt öryggissvæðum þannig að hún nýtist sem þverbraut fyrir flugvöllinn á Ísafirði, þykir Flugfélagi Íslands rétt að eftirfarandi komi fram.
Á síðastliðnu ári fóru um 44.000 farþegar á vegum Flugfélags Íslands til og frá Ísafirði, var það aukning uppá tæplega 11% frá fyrra ári. Undanfarin 3 ár hefur verið stöðugur vöxtur í farþegaflutningum til Ísafjarðar með Flugfélagi Íslands. Eins og þeir sem til þekkja vita er flugbraut á Ísafirði mjög viðkvæm gagnvart veðri, því hefur verið brugðið á það ráð að nota Þingeyrarflugvöll sem þverbraut þegar þannig viðrar að ekki er hægt að lenda á Ísafjarðarflugvelli. Vandinn sem hefur hinsvegar skapast við notkun Þingeyrarflugvallar er að ekki hefur verið hægt að fullnýta flutningsgetu Fokker 50 flugvéla Flugfélags Íslands sem hefur leitt til þess að farþegar hafa verið skildir eftir.
Á undanförnum 3 árum hafa um 84 ferðir verið felldar niður vegna veðurs og á sama tímabili hafa 63 ferðir verið farnar á Þingeyrarflugvöll á vegum Flugfélags Íslands. Ljóst er að þó erfitt sé að gera nákvæma greiningu á því hversu oft Þingeyrarflugvöllur hefði nýst miðað við þær breytingar sem hér eru lagðar til, er hér um mikilvæga samgöngubót að ræða sem mun bæta þjónustu við vaxandi umferð flugfarþega á þessari leið. Einnig eru þær athuganir sem nú fara fram á vegum Flugmálastjórnar sem miða að því að skoða möguleika á næturflugi á Þingeyrarflugvöll mjög áhugaverðar og gefa tilefni til að hægt sé að bæta enn frekar þjónustu við þetta svæði.
Flugfélag Íslands fagnar því ákvörðun samgönguráðherra og sýnir hún framsýni og skilning á þeim þörfum sem farþegar gera til flugs og þeirri þjónustu sem það veitir. Flugsamgöngur á Íslandi er einu almenningssamgöngurnar sem eru vaxandi og er því mikilvægt að tryggja að flugrekendur geti með góðu móti sinnt þeirri vaxandi þörf sem er á innanlandsflugi.“