Að undanförnu hafa samgönguráðuneytinu borist ályktanir vegna þingsályktunartillögu um vegagerð um Stórasand.  Ályktanir eru nær allar á þann veg að áformum um þessa vegalagningu er mótmælt.

Vegna umfjöllunar um málið tel ég nauðsynlegt að gera nokkra grein fyrir þeirri stefnu sem mörkuð var í samgönguáætlun og varðar hálendisvegi.

Grunnnet vegakerfis

Samgöngukerfinu er ætlað að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir alla fólks-og vöruflutninga. Í víðasta skilningi eru því öll mannvirki, sem nota má til þessara flutninga, hluti af samgöngukerfinu. Þegar unnið er að samgönguáætlun er mikilvægt að draga sérstaklega fram þau mannvirki sem mestu skipta fyrir heildina og mynda eðlilegt samfellt samgöngukerfi um land allt. Þetta meginkerfi samgangna er nefnt grunnnet í gildandi samgönguáætlun:

– Með grunnnetinu er burðarkerfi samgangna skilgreint. Það er þýðingarmesti hluti samgöngukerfisins sem tengir saman byggðarlög landsins og myndar eina heild.


  • – Umferðin er mest á grunnnetinu og því mikilvægt að það njóti forgangs við uppbyggingu m.a. vegna slysahættu sem fylgir aukinni umferð.

  • – Líta ber á grunnnetið sem landskerfi er gagnast landsmönnum öllum. Uppbygging þess er í þágu landsins alls fremur en einstakra byggðarlaga.

Miðað er við að allir byggðakjarnar með u.þ.b. 100 íbúa eða fleiri tengist gunnnetinu. Einnig er grunnnetið látið ná til þeirra staða sem gert er ráð fyrir að verði mikilvægastir fyrir fiskveiðar, ferðamennsku, og flutninga að og frá landinu. Grunnnetið er samfellt, liggur um þéttbýlisstaði þegar svo háttar til og helstu samgönguæðar á stærstu þéttbýlissvæðunum teljast til netsins. Þetta er mikilvæg skilgreining sem kemur fram í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2003 til 2014. Þessi skilgreining dregur hins vegar ekki úr nauðsyn þess að byggja upp aðra hluta vegakerfisins.

Hálendisvegir

Vegir eru flokkaðir í stofnvegi, tengivegi, safnvegi og landsvegi. Hálendisvegir eru undir vegflokknum Landsvegir. Í samgönguáætlun, sem samþykkt var á Alþingi 13.mars 2003, er fjallað sérstaklega um þá landsvegi sem falla undir grunnnetið. Þeir eru Sprengisandsleið, Kjalvegur, Fjallabaksleið nyrðri og Kaldadalsvegur. Ekki er í samgönguáætlun gert ráð fyrir að brotnir verði nýir fjallvegir eða nýir hálendisvegir, sem taki við af stofnvegakerfinu sem er í grunnnetinu og er ekki enn fulluppbyggt, samanber þjóðvegurinn milli Reykjavíkur og Akureyrar. Við undirbúning samgönguáætlunar var fjallað rækilega um alla helstu kosti við endurbætur og uppbyggingu vegakerfisins. Ekki var talið koma til álita að gera ráð fyrir fleiri hálendisvegum á meðan hringvegurinn og aðrir hlutar vegakerfisins væru ekki fullbyggðir. Ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun og ekki sé, að svo komnu máli, tilefni til þess að leggja á ráðin um hálendisveg í samræmi við tilgreinda tillögu um veg sem ætti að liggja úr Norðurárdal í Skagafirði um Stórasand til Borgarfjarðar.

Ný samgönguáætlun í vinnslu

Við endurskoðun gildandi samgönguáætlunar verður þessi stefna tekin til skoðunar. Þar verður lagt mat á það hvort komið sé að þeim möguleika að fjölga hálendisvegum og/eða byggja hálendisvegi með sérstakri gjaldtöku eins og lagt er til í tillögunni. Það er á verksviði samgönguráðherra að vinna að undirbúningi þess að gildandi samgönguáætlun verði endurskoðuð. Það verk er hafið og er þess að vænta að okkur Íslendingum megi auðnast að hraða sem mest má verða uppbyggingu vegakerfisins. Takist okkur að halda þeim framkvæmdahraða, sem hefur verið á síðasta kjörtímabili, munum við sjá miklar framfarir á vegakerfinu á næstu árum. Þar skiptir mestu að ljúka hringveginum og tengja saman byggðirnar með ströndinni. Með sölu ríkiseigna, svo sem hlutabréfum í Símanum, ættum við að vera vel í stakk búin til þess að takast á við næstu verkefni, sem blasa hvarvetna við. Bættar samgöngur er allra hagur. Með betri vegum dregur úr slysahættu á þjóðvegunum. Þar er verk að vinna og það skiptir miklu máli hver forgangsröðunin verður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19.06.2004