Ég var ekki vaknaður í gærmorgun þegar árrisull lesandi Morgunblaðsins á Snæfellsnesi hringdi.  Hann þurfti ekki að kynna sig áður en hann sagði. „Er Þorsteinn Pálsson að ganga í Samfylkinguna“? 

„Ha,“ stundi ég upp.  „Ertu ekki búinn  að lesa Moggann bætti hann við?“ Ég varð að viðurkenna að það hafði ég ekki gert, enda vaknaði ég við hringinguna  og sagði eins og vinur minn einn sem mætti of seint í vinnuna: „Ég get nú ekki byrjað að vinna við að lesa Moggann  fyrr en ég vakna.“ „Sæktu blaðið,“ var svarið. „Hann er á síðu sex, blessaður.“
Eftir að hafa flett upp á síðu sex í Mogganum og skoðað myndina, sem blasti þar við mér, og lesið myndatextann, var mér satt að segja brugðið. Utanríkisráðherrann virtist ánægður með bráð sína! Hann var að kveðja Þorstein Pálsson eftir fyrsta fund nefndarinnar sem er ætlað á vegum Samfylkingarinnar og á ábyrgð VG að véla okkur inn í Evrópusambandið. Ég skyldi vel spurningu vinar míns sem hringdi. Hann kaus Davíð sem formann vorið 1991. Hann vissi hvern ég kaus!  Og hann taldi rétt að ég fengi tækifæri til þess að skýra stöðuna frá sjónarhorni stuðningsmanns fyrrverandi formanns flokkins sem nú var  kominn í þjónustu Össurar Skarphéðinssonar.

Það er nær óskiljanlegt að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokkins skuli láta véla sig til þeirra verka að ganga erinda þeirra Össurar og Jóhönnu Sigurðardóttur í fullkominni andstöðu við þá stefnu sem Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur mótað. Sú afstaða er byggð á samþykkt Landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins  vildi því aðeins ganga til viðræðna við Evrópusambandið  að áður færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við ættum að hefja viðræður og þjóðin fengi tækifæri til þess að átta sig á kostum og göllum aðildar  og þeim forsendum sem viðræður ættu að ganga út á. Með því ættu forystumenn Evrópusambandsins ekki að þurfa að efast um heilindin í viðræðunum ef þjóðin samþykkti aðildarviðræður og ríkisstjórnin hefði þannig óskorað umboð. En þjóðin var ekki spurð.  Þess í stað var  skipuð viðræðunefnd án þess að flokkarnir utan stjórnarinnar fengju tækifæri til þess að koma að málum. Kratarnir í Samfylkingunni höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er kaldhæðni örlaganna  að það skuli hafa verið  kratarnir í Samfylkingunni, sem ásamt Steingrími Hermannssyni með aðstoð núverandi forseta lýðveldisins,  ráku rýtingin í bak hins unga forsætisráðherra í septembermánuði  árið1988. Stjórn Þorsteins Pálssonar féll og við tók stjórn sem keyrði allt í strand með skattglaðasta fjármálaráðherra sem þekkst hafði uns Steingrímur J. Sigfússon mætti til leiks. Annað sinni var komið í bakið á formanninum unga þegar Davíð Oddsson felldi hann úr formannsstólnum skömmu fyrir kosningarnar 1991.
Þorsteinn Pálsson tók við Sjálfstæðisflokknum við erfiðar aðstæður hjá flokknum eftir mikinn klofning og sundrungu. Það var mat sanngjarnra manna að hann hafi ekki fengið nægjanlegt svigrúm og stuðning til þess að ná fótfestu innan flokksins vegna þeirra sem voru óþreyjufullir og vildu harðari pólitík og sókndjarfari formann. Það töldu menn sig fá með Davíð Oddssyni.
Bjarni Benediktsson tók við Sjáfstæðisflokknum við enn erfiðari aðstæður en nokkur annar formaður fyrr og síðar. Það hefði því mátt ætla að fyrrverandi formenn flokksins hefðu skilning á því að hann þurfi stuðning og frið til þess að styrkja stöðu sína til þess að takast á við að efla flokkinn og skapa sátt um stefnuna og forystu flokkins.  Hann þarf ekki á því að halda að fyrrverandi formenn gangi gegn honum á ögurstundu í stærstu málum samtímans, þar á meðal  spurningunni  um aðild að Evrópusambandinu.

Ég get ekki séð hvaða nauðir ráku Þorstein Pálsson til þess að setjast við borðið með starfsmönnum utanríkisráðuneytisins og sérstökum áhugamönnum um að við sættum okkur við Icesave-samninginn. En lengi má manninn reyna. Vonandi kemur að því að hann skýri það fyrir okkur gömlum stuðningsmönnum sínum á hvaða leið hann er og hversvegna hann telur okkur þurfa að fara upp í hraðlest Össurar Skarphéðinssonar til Brussel og fórna m.a. því sem hann hafði svo vel gert sem sjávarútvegsráðherra. Ég bíð spenntur eftir að lesa eða heyra þær skýringar. Hann skuldar mér skýringar og væntanlega fleirum sem trúað hafa á dómgreind hans og hyggindi.