Sturla ávarpaði gesti á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs fyrr í dag. Ræða ráðherra er eftirfarandi:

Ágætu gestir á ferðamálaráðstefnu 2005.

Síðasta ár hefur verið ár hinna stóru ákvarðana í samgöngum og ferðaþjónustu. Á það jafnt við um opinbera aðila sem og ekki síður fyrirtækin innan ferðaþjónustunnar. Allar þessar ákvarðanir sem ég nefni hér á eftir varða framtíð íslenskrar ferðaþjónustu mjög miklu.

Fyrst má nefna að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að verja stórum hluta söluandvirðis Símans til uppbyggingar vega og fjarskipta í landinu. Þau áform um stórfelldar framkvæmdir í vega-, brúa- og jarðgangagerð eru til viðbótar ákvörðunum sem teknar voru með samþykkt samgönguáætlunar fyrr á þessu ári. Sú samgönguáætlun sem gildir til ársins 2008 gerir ráð fyrir risa skrefum við uppbyggingu vegakerfisins um land allt m.a. að fjölförnum ferðamennastöðum svo sem að Dettifossi, tengingu Þjóðgarðsins á Þingvöllum með vegi um Lyngdalsheiði og Uxahryggi og um þjóðgarðinn á Snæfellsnesi.

Í öðru lagi er að nú hillir undir tónlistar- og ráðstefnuhús í miðborg Reykjavíkur. Það er líklega stærsta markaðsaðgerð í íslenskri ferðaþjónustu fyrr og síðar. Þarna fáum við væntanlega aðstöðu sem jafnast á við það besta sem gerist í heiminum á sviði menningar og ferðaþjónustu. Fyrirhugað tónlistar- og ráðstefnuhús hefur alla burði til að stækka markað okkar og ekki síður til að lengja ferðamannatímann á Íslandi, því að ég veit að sérstaða íslenskrar náttúru og landsbyggðar verður áfram drifkrafturinn í því að fólk velji Ísland frekar en aðra áfangastaði. Ég legg gríðarlega mikið upp úr því að þetta tækifæri verði nýtt sem allra best og hef því ákveðið að veita 10 milljónum króna aukalega á næsta ári til Ferðamálastofu svo hún geti með öflugum hætti komið að kynningu á húsinu í samstarfi við rekstraraðila hússins, Reykjavíkurborg og Ráðstefnuskrifstofu Íslands.

Í þriðja lagi hafa flugfélög og ferðaskrifstofur tilkynnt áform um fjölgun flugferða til og frá landinu á næstu misserum. Og FL-group, sem tók yfir farsæla starfsemi Flugleiða, hefur vaxið með ævintýralegum hætti og stefnir í að verða risi á markaði flutninga og ferðaþjónustu.

Við hljótum að fagna þeim áformum sem þar eru uppi og stefna að aukinni starfsemi á sviði flutninga og ferðaþjónustu. Ég óska stjórnendum og starfsfólki allra eininga FL-Group sem og annarra félaga á sviði flutninga og ferðaþjónustu farsælla starfa.

Síðast en ekki síst vil ég nefna ákvörðun mína sem samgönguráðherra um að láta vinna og leggja fram stefnumótun í ferðamálum og fá samþykkta á Alþingi stefnumörkun sem byggir á umfangsmikilli vinnu ferðaþjónustunnar og ráðuneytisins sem birtist í ferðamálaáætlun.

Allt sem hér hefur verið nefnt, bendir til þess að mikil bjartsýni ríki um framtíð samgöngumála og um leið ferðaþjónustunnar hér á landi og að okkur hafi tekist að skapa Íslandi þá ímynd að Ísland sé ákjósanlegur áfangastaður fyrir ferðamenn. Öflug og markviss landkynning og markaðsaðgerðir okkar hafa því verið að bera árangur.

Það var í lok síðasta árs sem stýrihópur um gerð ferðamálaáætlunar fyrir tímabilið 2006-2015 lauk störfum og var þingsályktunartillaga um ferðamál, sem ég lagði fram á Alþingi, samþykkt á vordögum. Með henni eru mörkuð mikilvæg tímamót í samstarfi stjórnvalda og samtaka innan ferðaþjónustunnar. Alþingi samþykkti markmið okkar við uppbyggingu ferðaþjónustunnar sem framtíðar atvinnugreinar og með þeirri samþykkt á stefnumótun í ferðamálum er kominn rammi utan um það starf sem þarf til að greinin eflist áfram. Eðlilega eru sett fram markmið um rekstrarumhverfi greinarinnar og nefndar leiðir til að ná fram því meginmarkmiði að rekstrarskilyrðin hér á landi verði sambærileg við það sem gerist í samkeppnislöndunum því þannig – og aðeins þannig – mun nást viðunandi árangur í afkomu greinarinnar.

En vissulega eru blikur á lofti vegna þróunar gengis þó þær hitti ferðaþjónustufyrirtækin með mismunandi hætti.

Ég hef falið Hagfræðistofnun að meta áhrif sterkrar krónu á ferðaþjónustuna, en þær aðstæður sem hér hafa ríkt að undanförnu hafa eðlilega haft áhrif á útflutningsgreinarnar. Það er ekki á valdi stjórnvalda að grípa inn í þá þróun að öðru leyti en því sem ríkisfjármálin eru notuð til þess að hafa hemil á eftirspurn á vinnumarkaði og á fjármagnsmarkaði. Engu að síður er nauðsynlegt að meta stöðuna og langtímaáhrifin sem gengisþróunin hefur á ferðaþjónustuna sem heild.

Það er vissulega von mín að þróun gengis verði á þann veg að ekki komi til brotlendingar þeirra fyrirtækja sem standa berskjölduð fyrir gengisþróuninni. En það má öllum ljóst vera að sigling þeirra fyrirtækja sem starfa hér innanlands og byggja tekjur sínar á erlendum gjaldmiðlum er mjög kröpp.

*********
Með nýjum lögum um ferðamál, sem taka gildi um næstu áramót, er gerð nokkur breyting á leyfismálum þeirra sem hafa ferðatengda starfsemi með höndum.
Er þarna komið til móts við óskir greinarinnar um að gera sem flesta leyfisskylda. Það tryggir fagmennsku greinarinnar og neytandanum öryggi.

Sérstaklega reynir á þessa þætti þegar um rafræn viðskipti er að ræða – ekki síst við þau skilyrði verður viðskiptavinurinn að geta treyst því að baki viðskiptunum sé aðili með leyfi til reksturs slíkrar starfsemi.

Að undanförnu hefur nokkur umræða verið um leyfisveitingar í veitingarekstri og hvernig einfalda megi umsóknarferlið, eftirlitið og kerfið í heild.
Talsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar hafa verið óþreytandi við að benda á hversu villugjarnt er í skógi leyfisveitinganna og kerfið óþarflega flókið. Málefni þessarar atvinnugreinar heyra undir nokkur ráðuneyti og eru dómsmálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti sammála um að nauðsyn beri til að einfalda leyfisveitingar veitinga- og gististaða og leita allra leiða til að draga úr skriffinnsku og skrifræði á þessu sviði. Það verði m.a. gert með breytingu á lögum um veitinga- og gististaði en samhliða því verði gerðar aðrar nauðsynlegar breytingar með tilliti til einföldunar á leyfisveitingum og lagaumhverfi veitinga- og gististaða. Að þessu er nú unnið.

Ný lög um skipan ferðamála, sem taka gildi um áramótin, breyta hlutverki núverandi skrifstofu Ferðamálaráðs. Mun skrifstofan fá nafnið Ferðamálastofa. Ferðamálaráðið er hugsað sem ráðgefandi aðili fyrir samgönguráðherra um ferðamál og mun ekki hafa sömu tengsl við Ferðamálastofu og er samkvæmt núgildandi lögum. Allt er þetta til samræmis við það sem gerist um aðrar stofnanir ráðuneytisins og þau ráð sem starfa á vegum þess.

Hlutverk ferðamálaráðs breytist töluvert og er aðkoma samtaka þeirra sem vinna að ferðamálum með einum eða öðrum hætti- aukin. Mun það m.a. gera tillögur um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar og vera ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum. Ég mun leggja sérstaka áherslu á að ferðamálaráð hafi glögga yfirsýn um stöðu greinarinnar svo leggja megi áherslur í markaðsmálum að teknu tilliti til veikra og sterkra hliða ferðaþjónustunnar hverju sinni.

Ferðamálaráð er í dag skipað sjö fulltrúum en fulltrúum mun fjölga um þrjá. Ráðið verður skipað formanni og varaformanni, sem skipaðir eru án tilnefningar, þremur fulltrúum frá SAF, tveimur frá Ferðamálasamtökum Íslands, tveimur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og einum frá Útflutningsráði.

Nýtt ferðamálaráð verður skipað um áramót eins og lögin kveða á um og vænti ég mikils af starfi þess.

Einar K. Guðfinnsson hefur gegnt formennsku í Ferðamálaráði síðustu misserin af mikilli árvekni. Vil ég þakka honum góð störf í þágu ferðaþjónustunnar og óska honum alls hins besta í embætti sjávarútvegsráðherra. Þar verður hlutverk hans að róa á önnur mið.
Varaformaður ráðsins Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri mun stýra ráðinu til þess tíma að nýtt verður skipað.

Það er margt á vettvangi samgöngumála sem varðar ferðaþjónustuna beint. Almenningssamgöngur eru hluti þess og vil ég minna á stóraukin framlög til ferja, sérleyfishafa og innanlandsflugs á undanförnum árum. Hér er ekki aðeins um að ræða aukna fjármuni heldur líka hagræðingu og einföldun sem kemur ferðaþjónustunni vonandi til góða. Sem dæmi má nefna að frá því rekstur Herjólfs var boðinn út hefur ferðum verið fjölgað um yfir 70% og ég legg mjög ríka áherslu á að áfram verði unnið að því að efla ferðaþjónustuna í Vestmanneyjum ekki síður en í öðrum landshlutum.

Framkvæmd ferðamálaáætlunar er mikið verk. Ráðuneytið hefur falið Ferðamálastofu að annast framkvæmdina að miklu leyti en vissulega þurfa fleiri að koma þar að auk þess sem ráðuneytið mun skipa starfshópa til að fjalla t.d. um rekstrarumhverfi greinarinnar.

Nýlega fól ég Þorleifi Þór Jónssyni hagfræðingi SAF formennsku í nefnd sem ætlað er að gera tillögur um það hvernig gera megi hagtölum um ferðaþjónustu sem gleggst skil í þjóðhagsreikningi og vænti ég mikils af því starfi.

Ferðamálaáætlun gerir ráð fyrir því að samkeppnisskilyrði ferðaþjónustunnar verði sambærileg við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Er mikilvægt að meta þá stöðu vel svo vinna megi að hagsbótum greinarinnar á öllum sviðum.

Markaðsmál ferðaþjónustunnar eru okkur öllum hugleikin og hefur ferðaþjónustan margoft lýst áhyggjum af framlagi hins opinbera til þeirra. Auðvitað geri ég mér vel grein fyrir þýðingu markaðssetningarinnar – og ekki síst núna með styrkingu krónunnar. Vert er að geta þess að til viðbótar framlögum til landkynningar og markaðsmála sem tekin voru upp í kjölfar 11. september 2001 eru framlög vegna IN í Norður-Ameríku og almennrar landkynningar á vegum Ferðamálaráðs auk stuðnings við Ferðamálasamtökin.

Iceland Naturally verkefnið í Bandaríkjunum er orðið vel þekkt hjá ferðaþjónustu og öðrum útflutningsatvinnugreinum. Samskonar verkefni er nú verið að hrinda af stað í Evrópu. Er það gert í ljósi niðurstöðu mikillar könnunar, sem ég lét gera um ímynd landsins í þremur löndum á meginlandi Evrópu.
Sú könnun leiddi í ljós að landið hefur skýra ímynd í þeim löndum sem hún fór fram í, þ.e.a.s. Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi og einnig kom í ljós að meirihluti aðspurðra, í þýsku- og frönskumælandi löndum, taldi vel koma til greina að nota slagorðið Iceland Naturally. Þegar verkefnið verður að veruleika verður því stýrt frá ráðuneytinu og skrifstofu Ferðamálaráðs í Frankfurt í góðu samstarfi við viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands, en nú standa yfir viðræður á milli samgönguráðuneytis og utanríkisráðuneytis um það hvernig hátta megi þessu samstarfi svo kraftar okkar nýtist sem best.

Kína er á allra vörum í dag. Þaðan komu 8000 ferðamenn hingað til lands á þessu ári og gera sérfræðingar ráð fyrir enn frekari aukningu á næsta ári. Fjöldi þeirra Kínverja sem nú hyggur á ferðalög er slíkur að við megum ekki láta undir höfuð leggjast að skilgreina hvernig við getum sótt á þennan markað.

Ráðherra ferðamála í Kína hefur boðið mér í opinbera heimsókn í næsta mánuði og mun sú ferð vonandi verða til þess að greiða leið íslenskra fyrirtækja inn á kínverskan ferðamarkað. Þar vinna nú þegar nokkur íslensk fyrirtæki mikilvægt starf og mun ég fá tækifæri til að hitta fulltrúa þeirra og kínverskra söluaðila í ferðinni. – Rúm tvö ár eru síðan undirritaður var loftferðasamningur á milli Íslands og Alþýðulýðveldisins Kína, en hann tekur á reglubundnu áætlunarflugi með farþega, farangur, frakt og póst á milli landanna. Með þessum samningi var stigið stórt skref í ferðamálasamskiptum landanna. Næsta skref er að huga að einföldun umsókna Kínverja um vegabréfsáritun til Íslands en í dag sér danska sendiráðið í Beijing einnig um áritanir fyrir Ísland. Ég stefni einnig því að í heimsókn minni til Kína verði undirritað samkomulag um að kínverskir sérfræðingar komi hingað til lands til að leiðbeina ferðaþjónustunni um það hvernig skuli staðið að verki við móttöku ferðamanna frá Kína.

Þegar hefur verið gert samkomulag við Kína um ferðamál, sem fjallar um um hópferðir Kínverja, en það er sambærilegt við það sem ESB hefur gert við Kína. Ég tel að við eigum að leggja áherslu á að ná góðu samstarfi við Kína á sviði ferðamála.

Gistinætur á hótelum yfir sumarmánuðina (maí-ágúst samanlagt) voru 516.000 árið 2005 en voru 488.000 árið á undan. Þetta er um 6% aukning. Innlendi markaðurinn er öflugur og er ég ánægður með aðkomu yfirvalda að verkefninu ,,Ísland sækjum það heim“ og öflugu starfi Ferðamálasamtaka Íslands, sem m.a. hafa staðið að útgáfu glæsilegs kynningarefnis um alla landshluta. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að greinin fái nýtt slagorð því ,,Ísland sækjum það heim“ nálgast nú fermingaraldurinn.

Allar atvinnugreinar byggja velgengni sína á gæðum þess sem verið er að selja. Þetta á jafnt við um framleiðslu sem og þjónustu. Í þeirri stefnumótun, sem ég lagði fyrir Alþingi og var samþykkt sem ályktun Alþingis, var megin áhersla lögð á náttúru, menningu, sterka byggð og GÆÐI þeirrar þjónustu sem í boði væri. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja alla til að leggja áherslu á gæði þeirrar þjónustu sem í boði er á Íslandi. Takist það er þess að vænta að ferðaþjónustan á Íslandi eflist enn frekar og afkoman batni og ferðaþjónustan styrki atvinnulíf byggðanna. Það er vissulega ástæða til þess að minna á að samgöngur og ferðaþjónusta er lykill að framþróun og vexti í samfélagi okkar á öllum sviðum. Og við ættum að minnast þess að ferðaþjónustan er stærsta atvinnugrein veraldar.

Að lokum vil ég þakka þeim sem komu að undirbúningi þessarar ráðstefnu; starfsfólki Ferðamálaráðs og einnig þeim fyrirlesurum sem hér eiga eftir að tala. Ég óska ykkur öllum og íslenskri ferðaþjónustu heilla um ókomin ár.