Eftir ríkisstjórnarfund í morgun hélt ráðherra norður í land, en fyrir stuttu ávarpaði hann ráðstefnu Ferðamálasamtaka Íslands um þátt sveitarfélaga í ferðaþjónustu. Síðar í dag verður síðan formlega opnuð eftir gagngerar endurbætur flugstöðin á Akureyrarflugvelli. Hér á eftir fer ræða ráðherra á ráðstefnu Ferðamálasamtakanna, en nánar er greint frá flugstöðinni í næsta fréttapunkti.
Ávarp samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar,
á ráðstefnu Ferðamálasamtaka Íslands um þátt sveitarfélaga í ferðaþjónustu.
Akureyri 10.-11. nóvember 2000.
Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir!
Það fer ekki á milli mála að það ríkir kraftur og áhugi innan ferðaþjónustunnar, t.d. er bara örstutt síðan ég hitti mörg ykkar á ferðamálaráðstefnu á Ísafirði þar sem ferðaþjónustan og landsbyggðin var til umræðu.
Sem gömlum sveitarstjórnarmanni finnst mér efni þessarar ráðstefnu áhugavert enda hef ég alltaf haft trú á ferðaþjónustu sem mikilvægri atvinnugrein út um landið. Það er ekki þar með sagt að ferðaþjónustan sé eitthvað einfalt fyrirbæri sem þegar í stað er hægt að reikna með miklum tekjum af. Hún krefst þolinmæði og þrautseigju sem ég veit að er til staðar innan sveitarstjórnanna en þær hafa mikilvægu hlutverki að gegna við að hlúa að fyrirtækjunum og öllu umhverfi greinarinnar. Þannig getur jákvæð afstaða sveitarstjórnar skipt sköpum þegar hugmyndi fæðast eða ábendingar koma um það sem betur má fara í móttöku ferðamannsins.
Í ráðherratíð minni mun ég leggja mikla áherslu á ferðamál og hef nú þegar gert ákveðnar breytingar á innra skipulagi ráðuneytisins svo að svo megi verða. Jafnframt tel ég afar mikilvægt að unnin verði heildarstefna í samgöngumálum hér á landi. Hinir ýmsu angar samgöngukerfisins hafa ekki áður verið verið skoðaðir sem ein heild af stjórnvöldum og því hafa sveitarfélög oft ekki haft framtíðarsýnina á hreinu á þessu sviði. Í vinnu við samræmda samgönguáætlun verða þarfir ferðaþjónustunnar skoðaðar í samhengi við samgöngukerfið en á því hefur hingað til verið nokkur misbrestur.
Áætlunarflug innanlands hefur verið mikið til umræðu upp á síðkastið. Af minni hálfu er það alveg skýrt að það dugar ekki að beita handafli á móti þeim breytingum sem orðið hafa á samgöngumáta landsmanna. Sumir staðir bera sig einfaldlega ekki en hafa hins vegar þær aðstæður að landsamgöngur geta komið að nokkru leyti í stað flugsins. Þannig reikna ég ekki með því að aðstæður til flugs til til að mynda Siglufjarðar eða Húsavíkur eigi eftir að breytast í náinni framtíð. Því hefur samgönguráðuneytið gert samning við Siglufjarðarbæ um skipan sérleyfismála þar. Vonandi tekst að ljúka svipuðum samningi við Húsavík innan tíðar en þar þarf sérstaklega að huga að samræmingu ferða sérleyfisbíla við flugtíma til og frá Akureyri. Á Vesturlandi er hins vegar verið að þrýsta á sérleyfishafa um að sameinast svipað og gerst hefur með SBS og Austurleið. Allt þetta á að einfalda samgöngukerfið og gera það hentugra fyrir hinn almenna neytanda ekki síður en ferðamanninn.
Dagskrá þessarar ráðstefnu er ítarleg og spennandi og ég óska Ferðamálasamtökum Íslands til hamingju með glæsilegt framtak. Sjálfur get ég því miður ekki verið með ykkur hér í dag en við hittumst svo öll síðdegis suður á flugvelli. Ég óska ykkur öllum góðrar ráðstefnu og ánægjulegrar dvalar hér á Akueyri.