Fimmtudaginn 17. október stóð  yfir ráðstefna Ferðamálaráðs í Stykkishólmi.  Hér á eftir fer ræða samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar:

Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir!

Mér er það sérstök ánægja að ávarpa ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands hér í Stykkishólmi í dag. Þetta er í fjórða sinn sem ég ávarpa þessa árlegu ráðstefnu sem ráðherra ferðamála, og þó skipst hafi á skin og skúrir í ferðaþjónustunni um víða veröld, þá hefur greininni sannarlega vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár. Líkt og um land allt, hefur ferðaþjónustan vaxið og dafnað hér við Breiðafjörðinn og á Snæfellsnesi –  enda náttúrufegurðin einstök og sagan með Eyrbyggju og Laxdælu lætur engan ósnortinn.

Síðasta ferðamálaráðstefna var haldin í skugga 11. september. Strax var ljóst að ákveðinna aðgerða var þörf, og á vegum samgönguráðuneytisins var gripið til ýmissa ráðstafana til að reyna að draga sem mest úr neikvæðum afleiðingum fyrir íslenska ferðaþjónustu.
150 milljónir króna voru settar í sérstakt markaðsátak undir stjórn ferðamálastjóra og umfangsmikilli auglýsinga- og kynningarherferð hrundið af stað í Evrópu – enda nauðsynlegt að sækja enn frekar á Evrópumarkað þegar aðstæður vestanhafs voru tvísýnar og erfiðar og fyrir lá að stórfelldur samdráttur yrði í Atlantshafsflugi Flugleiða.
Jafnframt var blásið nýju og skemmtilegu lífi í markaðsherferðina Ísland, sækjum það heim. Olíufélagið ESSO, Íslandspóstur og Ríkisútvarpið komu til liðs við átakið og vakti það mikla athygli. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver árangurinn var á þessu ári en á það skal þó minnt að hér er á ferðinni ímyndarvinna sem á að sá fræjum í þjóðarsálina. Við getum því átt von á uppskeru til langs tíma litið, og er ég ekki í neinum vafa um að hún verður góð!

Á liðnu ári hefur átakið Iceland Naturally, sem nú hefur staðið yfir í þrjú ár í Norður-Ameríku, heldur betur þurft að herða róðurinn.
Ég er mjög ánægður með þann varnarsigur sem unnist hefur í erfiðri baráttu á markaði sem má segja að hafi hrunið á nokkrum mínútum í fyrra.
Þó margt hafi verið vel gert og árangurinn sé vel viðundandi verðum við að gæta þess að horfa vandlega á það hverju þessir ferðamenn eru að skila allri ferðaþjónustunni, hvar sem er á landinu. Ferðaþjónusta á landsbyggðinni hefur ekki eflst nægjanlega á meðan hún dafnar í Reykjavík. Þetta vekur upp ákveðnar spurningar, en segir okkur þó að of mörg fyrirtæki í greininni búa við lélega nýtingu fjárfestinga og litla arðsemi. Þetta dregur eðlilega úr getu fyrirtækjanna í greininni til að geta unnið að nýsköpun og öflugu markaðsstarfi.

Ég hef heyrt gagnrýni á þá áherslu sem er á Reykjavík þegar landið er kynnt á erlendri grund og komið þeim athugasemdum til Ferðamálaráðs. Ég geri mér vel grein fyrir að höfuðborgin þarf að vera vel kynnt en það er mér samt mikið kappsmál að samhliða áherslunni á Reykjavík verði af auknum þunga hugað að landsbyggðinni í landkynningu. Þörfin á eflingu ferðaþjónustunnar og annarrar atvinnusköpunar hér úti á landi er mikil og vil ég að öllu afli sé beitt til að vekja áhuga ferðamanna á að fara sem víðast um landið. Því óskaði ég eftir því við ferðamálastjóra að mótaðar yrðu tillögur að raunhæfum vaxtarsvæðum um allt land. Ferðamálastjóri mun kynna þær tillögur á ráðstefnunni hér í dag, og verða þær í raun megin umræðuefni þessarar ráðstefnu.

Markaðsmál ferðaþjónustunnar standa á ákveðnum tímamótum. Tilraunin um Markaðsráðið, þar sem ráðuneytið og SAF tóku höndum saman um það sem átti að vera króna á móti krónu, virðist fullreynd í bili. Reykjavíkurborg hefur einnig dregið sig út úr þessu samstarfi sem veldur vonbrigum. Það hefur sýnt sig að greinin hefur ekki nægilega burði, eða vilja, til að leggja stórar fjárhæðir til sameiginlegra markaðsmála. – Það þýðir þó ekki að slegið verði slöku við.
Aldrei fyrr hefur verið ráðstafað viðlíka fjármunum til markaðsstarfs í ferðamálum og fjárlögin fyrir næsta ár gera ráð fyrir. Eins og sjá má á meðfylgjandi glæru hafa framlög til þessa málaflokks á fjárlögum vaxið umtalsvert á undanförnum árum. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir á sjöunda hundrað milljóna króna framlagi. Þá er ég ekki að tiltaka umtalsverða liði, líkt og tæpar 350 m.kr. í styrki til ferja og sérleyfishafa eða styrki til innanlandsflugs að upphæð rúmar 130 m.kr. Hér er óumdeilanlega um að ræða styrki, sem styðja verulega við vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar um land allt.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir 300 milljónum til markaðssóknnar í íslenskri ferðaþjónustu. Í ljósi góðrar reynslu af markaðssókn þessa árs, hef ég ákveðið að líkt verði staðið að í framhaldinu.  Stór hluti þess fjármagns sem nýttur var til markaðssóknar í ár, fór í markaðsðgerðir í samvinnu við Flugleiðir. Flugleiðir er langstærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins og því eru gerðar ríkar kröfur til þess af minni hálfu að vel sé staðið að landkynningarmálum þess á erlendri grundu.

Á árinu hef ég heimsótt allar aðalskrifstofur Flugleiða í Evrópu og sannfærst um, að þar er unnið mikilvægt og gott starf á sviði markaðssetningar fyrir íslenska ferðaþjónustu í heild sinni. En ég hef einnig sannfærst um réttmæti þess að gera ríkari kröfu til Flugleiða en annarra fyrirtækja um hvernig staðið er að þessum málum. Ábyrgð þeirra er mikil hvað markaðssetningu Íslands varðar – og hefur félagið staðið vel undir henni. Ég vonast til að áfram verði öflugt samstarf við SAF og fyrirtækin í greininni þó að Markaðsráð ferðaþjónustunnar hafi runnið sitt skeið. Þá vil ég jafnframt geta þess hér, að ég geri ráð fyrir að Ferðamálaráð og Reykjavíkurborg nái saman um samstarf um rekstur upplýsingamiðstöðvar í tengslum við svokallaða Höfuðborgarstofu.
Þá vil ég sérstaklega nefna nýmæli sem reynt var í ár og gafst mjög vel, en það er sú hugmynd að bjóða bókstaflega út fjármagn til markaðsmála, þannig að ákveðnir fjármunir voru til ráðstöfunar gegn mótframlagi. Nú í haust voru fyrstu pottarnir boðnir út, og þykir mér einsýnt að framhald verði á þessu fyrirkomulagi og þessar sérstöku fjárveitingar m.a. nýttar til þess.

Ráðstefnugestir. Í flestum þeim ræðum ég hef haldið í starfi mínu sem ráðherra ferðamála hef ég lagt áherslu á að grundvöllur markaðsstarfs á borð við það sem ég hef verið að lýsa hér, séu traustir innviðir greinarinnar. Til þess að ferðaþjónustan hafi möguleika á að þróast sem atvinnugrein í nútímalegu samkeppnisumhverfi þurfa innviðirnir að vera í lagi.  Hér á ég við fjölmarga hluti.

Byrjum á samgöngunum: Vegakerfið hefur verið stórbætt á undanförnum árum og hefur Vegagerðin í auknum mæli tekið tillit til þarfa ferðaþjónustunnar þó að eðlilega finnist mörgum ekki nóg að gert. Hvað sem því líður þá geta allir verið sammála um að merkingum hefur fleygt fram og áningarstöðum með upplýsingaskiltum og nestisaðstöðu fjölgað svo um munar. Þar er reynt eftir megni að taka tillit til hópferðabíla jafnt sem einkabíla.

Þegar ég tók við embætti blasti við hrun þess rútukerfisins og þó að við Íslendingar séum miklir aðdáendur einkabílsins eru traustar áætlunarferðir nauðsynlegur hluti af ferðaþjónustu hvers lands. Mikil vinna hefur verið lögð í að koma þessu kerfi á fætur á ný og hafa margir lagt hönd á plóginn. Nú er staðan sú að sérleyfishöfum hefur fækkað með sameiningu fyrirtækja. Framlög til hvers aðila hafa verið hækkuð og ég treysti því að afkoma fyrirtækjanna eigi eftir að stórbatna. Liður í þeim aðgerðum er að ná þarf samningum við Spöl um lækkun á gjaldi fyrir sérleyfishafa í Hvalfjarðargöngin. Ég tel að það mál fái farsæla niðurstöðu. Í samræmi við nýja löggjöf um fólksflutninga verða sérleyfin boðin út, ekki síðar en frá og með 2005. Þó er gert ráð fyrir að bjóða austurleiðina út á næstunni í samræmi við samkomulag sem gert var við Austurleið-SBS hf. fyrr á þessu ári.

Eins og ykkur er kunnugt hefur mikil uppstokkun átt sér stað í innanlandsfluginu. Það eru góðar fréttir að Flugfélag Íslands sé farið að skila hagnaði eftir mörg mögur ár. Þá standa fyrir dyrum áherslubreytingar hjá Íslandsflugi innanlands, sem meðal annars munu lýsa sér í aukinni markaðssókn og áherslu á aukna þjónustu, t.a.m. til Vestmannaeyja.  Flug til smærri staða hefur verið boðið út og er samgönguráðuneytið að veita verulega styrki á þeim leiðum. Flug til afskekktra staða nýtist ekki eingöngu íbúunum heldur getur verið spennandi viðbót við ferðaþjónustuna á staðnum og ferðamenn hvaðanæva að. Ég efast ekki um að sú stefna sem ég markaði með útboði á flugi til jaðarbyggða og endurbygging Reykjavíkurflugvallar, hefur verið lykillinn að endurskipulagningu flugsins sem skilar sér nú í hagnaði og bættri þjónustu.

Aukin menntun og færni starfsfólks í ferðaþjónustu er mikilvægur hornsteinn greinarinnar. Og hvað þau mál varðar er ég hvað stoltastur af samstarfi ráðuneytis mín og Hólaskóla um uppbyggingu fjarnáms við skólann. Þar er kominn flötur til að fólk sem starfar í ferðaþjónustu eða hyggur á störf á þeim vettvangi geti menntað sig án þess að gera svo róttækar breytingar á högum sínum sem hefðbundið nám krefst. Margar aðrar menntastofnanir eru að vinna stórkostlegt starf á sviði ferðaþjónustu og sé ég fram á að þær rannsóknir sem þar fara fram muni skila atvinnugreininni fram á veginn þegar á næstu árum.
Á síðasta ári skipaði ég sérstaka nefnd, svokallaða framtíðarnefndar ferðaþjónustunnar, og fékk henni það verkefni að horfa á framtíð íslenskrar ferðaþjónustu. Nefndin mun skila mér tillögum sínum á allra næstu dögum, og verða þær þá kynntar sérstaklega.

Með starfi framtíðarnefndar, skýrslunnar um menningartengda ferðaþjónustu, skýrslunnar um heilsutengda ferðaþjónustu og lok þeirrar vinnu sem unnin hefur verið um vaxtarsvæði ferðaþjónustunnar geri ég mér vonir um að kominn sé grunnur að nýrri stefnumótun íslenskrar ferðaþjónustu. Ég mun fara vandlega yfir þessi mál í heild sinni og vonast til að sjá nýja stefnumótun er byggi á þessari miklu vinnu sem þegar hefur verið unnin.
 
Sem fyrrverandi formaður Þjóðminjaráðs geri ég mér vel grein fyrir þeim möguleikum sem felast í menningararfi okkar og sögu. Því var það sem ég setti á fót nefnd um menningartengda ferðaþjónustu. Ég hef einnig fengið í hendur aðgerðaáætlun um menningartengda ferðaþjónustu sem Júlíus Hafstein hefur unnið með hliðsjón af skýrslu nefndar um menningartengda ferðaþjónustu. Ferðamálaráð hefur haft áætlunina til skoðunar en í henni kennir ýmissa grasa. Ég fagna því að í áætluninni er gert fyrir auknu samstarfi Ferðamálaráðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga um ferðamál en ég tel nauðsynlegt að sem mest og best samstarf náist á öllum sviðum þessarar margslungnu atvinnugreinar.

Þó að menningin öðlist smám saman þann sess að verða önnur meginstoð íslenskrar ferðaþjónustu þá er náttúran enn mikilvægasta auðlindin. Mér fundust það því mikil tíðindi er Ferðaþjónusta bænda ákvað að leita eftir vottun Green Globe fyrir fyrirtækin innan sinna vébanda. Ef vel tekst til hefur verið brotið blað í vottunarmálum ferðaþjónustunnar en Hólaskóli mun sjá um úttekt á stöðunum og vera þannig tengiliður fyrirtækjanna og vottunarðaðilans. Samgönguráðuneytið mun styrkja Hólaskóla til að taka að sér þetta frumkvöðulsverkefni og fylgjast vel með framvindu mála. Hérna er hugsanlega á ferðinni tækifæri fyrir landið að skapa sér enn skýrari sess sem land með skýra og metnaðarfulla umhverfisstefnu í þágu ferðaþjónustunnar sem á allt undir því að halda verndarhendi yfir náttúru landsins. Þegar hafa nokkur fyrirtæki fengið umhverfisvottun og mun verða horft mjög til þess sem þau hafa gert er önnur fylgja í kjölfarið.

Málefni Ferðamálasjóðs hafa lengi verið til umræðu þar sem vægi sjóðsins í lánastarfsemi til ferðaþjónustufyrirtækja hefur minnkað í breyttu fjármálaumhverfi. Ég mun á þessu þingi leggja fram frumvarp um breytingar á skipulag ferðamála sem miðar að því að Ferðamálasjóður verði lagður niður í núverandi mynd. Ég tel nauðsynlegt að Byggðasjóður taki, enn frekar en nú er,  að sér það hlutverk að veita  ferðaþjónustunni á landsbyggðinni lánafyrirgreiðslu til fjárfestinga og gera henni  kleift að nálgast fjármagn á betri kjörum en hingað til hefur verið mögulegt. Jafnframt verði aðrar lánastofnanir hvattar til að sinna þessari vaxandi atvinnugrein betur en nú er, enda er nauðsynlegt að aðgengi að lánsfjármagni fyrir arðbær fyrirtæki á þessu sviði sé gott.

 Ágætu ráðstefnugestir!  Það verður spennandi að fylgjast með þeim erindum sem hér verða í dag en yfirskrift ráðstefnunnar fellur mjög að þeim hugmyndum sem ég hef haft um að hvert svæði þrói ferðaþjónustuna í takt við skýrt markaða sértstöðu sína. Stórbrotin náttúra og íbúar sem varðveita menningu sína af kostgæfni er uppskrift að draumastað hvers ferðamanns. Það er von mín að við missum aldrei sjónar á þessari staðreynd og að ferðaþjónustan verði ávallt í fararbroddi við verndun náttúru og menningar þessa lands.

Að lokum vil ég þakka öllum sem komið hafa að undirbúningi ráðstefnunnar; starfsfólki Ferðamálaráðs og fulltrúum ferðaþjónustunnar hér í Stykkishólmi. Ég óska ykkur öllum góðrar ráðstefnu og ánægjulegrar dvalar hér við Breiðafjörðinn.