Samgönguráðherra er staddur á Ísafirði, en þar er haldin í dag á vegum Ferðamálaráðs Íslands Ferðamálaráðstefnan 2000. Ræða ráðherra á ráðstefnunni fer hér á eftir.
Ráðstefnustjórar, góðir ráðstefnugestir!

Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að hitta svo marga fulltrúa íslenskrar ferðaþjónustu, líkt og raun ber vitni, hér saman komna á einum stað. Ég tel þennan vettvang, sem hin árlega ferðamálaráðstefna er, afar mikilvægan fyrir okkur öll. Hvorki Internet né Byggðabrú koma í stað ráðstefnu sem þessarar, og ég vona að við eigum öll eftir að eiga góða daga hér á Ísafirði.

Viðburðaríkt sumar er að baki. Náttúran, sem íslensk ferðaþjónusta byggir allt sitt á, lét heldur betur að sér kveða – jarðskjálftar, jökulhlaup og vatnavextir höfðu hvert á sinn hátt áhrif á ferðaþjónustuna. En það höfðu einnig mannanna verk eins og langvinnt verkfall rútubílstjóra sem ég veit að gerði mörgum erfitt fyrir – bæði ferðamönnunum sjálfum sem og skipuleggjendum ferða.

Sá vöxtur sem við höfum verið að sjá í íslenskri ferðaþjónustu á undanförnum árum heldur áfram. Á sama tíma og við erum að sjá fjölgun ferðamanna um fimmtán prósent á ári að meðaltali, s.l. þrjú ár, má nefna sem dæmi að ferðamönnum til Danmerkur fjölgar ekki á sama tíma. Þar ríkir stöðnun á meðan við erum að sjá fjölgun frá mikilvægustu viðskiptalöndum okkar.

En þegar upp er staðið er það ekki höfðatalan sem skiptir mestu máli heldur tekjurnar:

Gjaldeyristekjurnar hafa vaxið stöðugt, og við getum nú gumað af því að ferðaþjónustan sé komin næst á eftir sjávarútvegi þegar gjaldeyrisköpun fyrir þjóðarbúið er annars vegar. Ég geri mér hins vegar ljóst að forsvarsmenn fyrirtækjanna eru ekki allir ánægðir. En atvinnugreinin verður að líta í eigin barm um leið og gerðar eru kröfur til hins opinbera. Ekki verður hjá því litið að fjölgun ferðamanna skapar auknar tekjur. Slíkar tekjur geta ekki annað en breytt stöðunni – og það til batnaðar.

Nefnd um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar lauk störfum fyrir nokkru síðan. Í áliti nefndarinnar kemur m.a. fram áhersla á mikilvægi þess að skattayfirvöld sjái til þess að allir sitji við sama borð þegar álögur eru annars vegar. Ég óskaði eftir umsögn SAF um skýrsluna og fékk svör. Sem ráðherra ferðamála mun ég skoða forsendur þeirra upplýsinga sem þarna koma fram og síðan fylgja málinu eftir við samráðherra mína.

Á síðasta þingi voru samþykktar þýðingarmiklar breytingar á lögum um bílaleigur. Málaflokkurinn var færður frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Í nýju lögunum felst að allar bílaleigur eru leyfisskyldar og skilyrði fyrir rekstrarleyfi eru skýrari en áður hefur verið. Sett var í lögin ákvæði um starfsábyrgðartryggingu og nú er unnið að samræmingu leigusamninga. Þessar breytingar munu óumdeilanlega verða neytendum til hagsbóta. Jafnframt voru gerðar verulegar breytingar á vörugjaldi sem nýtast munu allri ferðaþjónustunni í lækkuðum kostnaði.

Oft hefur verið talað um nauðsyn þess að þeir sem reka svokölluð afþreyingarfyrirtæki þurfi starfsleyfi af einhverju tagi, auk þess að leggja fram tryggingar fyrir starfsemi sinni. Ég hef skipað nefnd til að skoða þessi mál og gera tillögu að reglum af þessu tagi. Geri ég ráð fyrir að nefndin skili af sér í mars á næsta ári.

Þá hefur ekki farið fram hjá neinum að öryggismálin hafa verið til umræðu í sumar. Slys munu því miður áfram verða, en ég legg ríka áherslu á að tryggja að hvergi sé veikur hlekkur – verði því við komið. Hef ég óskað eftir því við ferðamálastjóra að hann fari yfir það með Vegagerðinni hvort upplýsingagjöf til vegfarenda sé ábótavant og jafnframt óskað eftir tillögum um úrbætur ef nauðsynlegar eru. Engin ástæða er til að umfjöllun um þessi mál veki ótta um að landið sé ekki öruggur ferðamannastaður. Við gerum hins vegar þær kröfur til ALLRA að þeir standi sig á þessu sviði.

Á ferðamálaráðstefnu á Egilsstöðum á síðasta ári sagði ég frá fyrirhuguðu nefndastarfi á vegum samgönguráðuneytis. Ég hef þegar komið inn á starf nefndar um rekstrarumhverfið en nefnd um heilsutengda ferðaþjónustu hefur einnig lokið störfum. Í áliti þeirrar nefndar komu fram athyglisverðar tillögur. Greinilegt er að þarna er mikill efniviður fyrir hendi en jafnframt töluvert starf óunnið til að hann megi nýta sem best. Nefndin gerir það m.a. að tillögu sinni að stofnað verði til hvatningarverðlauna í heilsutengdri ferðaþjónustu enda nauðsynlegt að vekja athygli á því sem vel er gert. Mér er sönn ánægja að því að tilkynna ykkur að samgönguráðuneytið mun veita slík verðlaun í fyrsta skipti á næsta ári.

Ég hef vísað tillögum nefndarinnar til úrvinnslu hjá Ferðamálaráði og Markaðsráði. Skýrslan er á vef samgönguráðuneytis og hvet ég ráðstefnugesti til að kynna sér efni hennar.

Menningin er þýðingarmikill hluti af þeirri auðlind sem atvinnugreinin byggir á. Og ég er ekki frá því að þetta mikla menningarár sem nú er að líða, hafi vakið fólk enn frekar til umhugsunar. Sjálfur hef ég mikinn áhuga á að sjá aukið samstarf – bæði á milli manna og fyrirtækja hér innanlands, en ekki síður á milli landa. Við þurfum að nýta okkur sem best við getum siglingu ÍSLENDINGS vestur um haf – og þá kynningu sem hún hefur haft á sögu okkar, í minningu Leifs heppna og Guðríðar, í þágu ferðaþjónustunnar.

Þannig tel ég skipta miklu máli að Eiríksstaðir, Brattahlíð og L’anse aux Meadows taki upp samstarf um kynningu staðanna, hvern fyrir sig og sem eina heild. Sigling ÍSLENDINGS hefur vakið þvílíka athygli á víkingatímanum að okkur ber skylda að nýta hana sem best við getum.

Nefnd um menningartengda ferðaþjónustu er enn að störfum en ég vænti skýrslu frá henni í næsta mánuði. Þarna er um vítt svið að ræða auk þess sem þarna liggja vonandi miklir möguleikar varðandi lengingu ferðamannatímans.

Umræða um ferðaþjónustu snýst að mörgu leiti um tvennt, fyrir utan afkomu fyrirtækjanna, – þ.e. INNVIÐI og MARKAÐSSETNINGU. Ég tel mig vera að vinna að hvoru tveggja enda trúi ég því að ferðaþjónustan geti haft afgerandi áhrif á byggðamynstur og yfirbragð dreifbýlis á Íslandi.

Upplýsingamiðstöðvar og gestastofur eru eitt af því sem sameinar innviði og markaðssetningu. Þær eru andlit bæja og heilla byggðarlaga og því nauðsynlegt að vel sé á málum haldið. Til viðbótar auknum fjármunum til upplýsingamiðstöðva á þessu ári veitti ráðuneytið gestastofunni í Reykholti styrk til rekstursins með skilmálum og samningi um framboð á þjónustu fyrir hinn almenna ferðamann. Stefni ég að því að skoða fleiri mál af þessu tagi. Víðast er vel að þessum málum staðið. Til dæmis hefur verið sérstaklega ánægjulegt að sjá hve Geysisbændur hafa haldið myndarlega á sínum málum og gefið þeim vinsæla ferðamannastað alveg nýja vídd.

Sú uppbygging sem hér um ræðir er að mestu í höndum heimamanna. Mér finnst nauðsynlegt að heimamönnum verði á fleiri sviðum ferðaþjónustunnar fært vald til að ráða sínum eigin málum. Miðstýring ferðamannastaða eins og sú sem Náttúruvernd ríkisins hefur með hendi er að mínu mati úrelt fyrirkomulag, sem getur valdið stöðnun í stað framþróunar. Frumkvæðið í ferðaþjónustunni er hjá einstaklingunum og þeir þurfa bakhjarl sem þeir geta treyst og skilið. Þannig geta til dæmis sveitarfélög og fjórðungssambönd haft á sinni hendi stjórn svæða og sinnt rannsóknum á þeim, að sjálfsögðu með færustu sérfræðinga innan sinna vébanda.

Eitt af því sem ég tel að geti skipt sköpum fyrir ferðaþjónustuna um land allt er að við náum að gefa landinu nýja ásýnd – við hlið þeirrar sem náttúran gefur. Hér er ég að tala um byggingu ráðstefnumiðstöðvar í tengslum við tónlistarhús í miðborginni með tilheyrandi þjónustu. Þarna tel ég að til verði segull sem landið þarf á að halda svo að allt tal um lengingu ferðamannatímans sé ekki eingöngu orðin tóm. Sannfæring mín er að með ráðstefnumiðstöð yrði brotið blað í íslenskri ferðaþjónustu.

Ég sé fyrir mér að með tilkomu ráðstefnumiðstöðvar og tónlistarhúss á hafnarbakkanum í Reykjavík verði jafnframt hægt að bæta umgjörð farþega skemmtiferðaskipa. Sú aðstaða gæti haft áhrif á þá ákvörðun að skip komi hingað til lands. Þannig gæti bætt aðstaða í Reykjavík haft góð áhrif á þessa tegund ferðaþjónustu á fleiri stöðum – til að mynda hér á Ísafirði.

Þá eru það markaðsmálin. Nú er komin nokkur reynsla á starsfemi Markaðsráðs ferðaþjónustunnar sem samgönguráðuneytið og SAF auk Reykjavíkurborgar stofnuðu til á síðasta ári. Markaðsráðið leggur áherslu á markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað á hefðbundnum markaðssvæðum auk Kanada, en það samstarf sem orðið hefur við Kanada vegna ársins 2000 gefur miklar vonir.

Á öllum svæðum er lögð áhersla á að beina athyglinni að þeim möguleikum sem hér eru vetur, vor og haust.

Samhliða markaðsráðinu eru það margir aðrir sem koma að markassetningu Íslands sem ferðamannalands og skal þar þáttur fyrirtækjanna sjálfra ekki vanmetinn.

Iceland Naturally er eitt aflið. Það er fjögurra ára tilraun vestanhafs til að koma Íslandi og íslenskum afurðum á kortið hjá vandlega skilgreindum hópum sbr. könnun sem gerð var á vegum samgönguráðuneytis í Norður –Ameríku á síðasta ári.

Eftir að hafa átt þess kost að fara vestur um haf fyrr í haust og sjá með eigin augum það ævintýri sem Landafundanefnd hefur komið af stað með siglingu víkingaskipsins til Kanada og Bandaríkjanna er ég þess fullviss að jarðvegurinn fyrir starf Iceland Naturally er frjór. Enda hefur verið unnið markvisst að því að vekja athygli fjölmiðla á landinu. Til þess hefur verið beitt íslenskri menningu af bestu gerð; leiklist, tónlist, matargerð o.fl. o.fl. Allt hefur þetta vakið athygli á landi og þjóð – og það er ykkar að vinna úr þeirri athygli.

Ágætu ráðstefnugestir, ég vil þakka starfsfólki Ferðamálaráðs, Ísfirðingum og öðrum sem komu að undirbúningi ráðstefnunnar fyrir öflugt starf. Megi ráðstefnugestir eiga hér skemmtilega og fræðandi daga.