Í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu kemur fram að kjölfar breyttra aðstæðna íslenskrar ferðaþjónustu eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 fékk samgönguráðherra samþykkta í ríkisstjórn 150 milljón króna aukafjárveitingu til að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni. Hluta þeirrar fjárveitingar var veitt Ferðamálasamtökum Íslands og ferðamálasamtökum landshlutanna eins og kemur fram í eftirfarandi fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu:
Samgönguráðherra hleypti markaðsátakinu Ísland – sækjum það heim formlega af stokkunum á Ferðatorgi 2002, sem haldið var í vor að tilstilli Ferðamálasamtaka Íslands og Ferðamálaráðs Íslands. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum þann 11. september hafa haft mikil áhrif á ferðaþjónustu um allan heim. Hratt var brugðist við breyttum aðstæðum íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfarið, er samgönguráðherra fékk samþykkta í ríkistjórn 150 milljóna króna fjárveitingu til að draga úr yfirvofandi samdrætti í ferðaþjónustunni.

Samkvæmt tillögu ferðamálastjóra, sem falin var framkvæmd átaksins, var ákveðið að stórum hluta yrði varið í markaðssókn á erlendum vettvangi, aðallega í Bandaríkjunum og á okkar helstu markaðssvæðum í Evrópu. Auk þess var leitað samstarfs við nokkur íslensk fyrirtæki erlendis um kynningarstarf og voru viðtökur undantekningarlaust jákvæðar. Er það mat þeirra sem best til þekkja að umtalsverður árangur hafi náðst á síðustu mánuðum.

Jafnframt ákvað samgönguráðherra að veita Ferðamálasamtökum Íslands og ferðamálasamtökum landshlutanna 9 milljóna króna styrk, er skiptist jafnt á milli samtakanna. Varaformaður Ferðamálasamtaka Íslands, Ásmundur Gíslason, tekur við styrkjunum fyrir þeirra hönd.