Í samgönguráðuneytinu hefur verið unnið mikið starf við að móta stefnu og efla ferðaþjónustuna sem gjaldeyrisskapandi atvinnugrein.


Ferðaþjónustan í forgang

Þegar ég tók við í ráðuneytinu vorið 1999 þekkti ég vel til á vettvangi ferðaþjónustunnar. Sem bæjarstjóri, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, nefndarmaður í Húsfriðunarnefnd ríkisins og formaður Þjóðminjaráðs hafði ég beitt mér fyrir því að efla ferðaþjónustuna á margvíslegan hátt. Ég stóð fyrir stofnun Ferðamálasamtaka Vesturlands, sem voru fyrstu landshlutasamtök ferðaþjónustunnar, og beitti mér fyrir menningartengdri ferðaþjónustu með því að efla varðveislu menningarminja og endurbyggingu gamalla húsa. Jafnframt lagði ég ríka áherslu á uppbyggingu ferðaþjónustunnar í Stykkishólmi sem atvinnugrein framtíðarinnar við hlið sjávarútvegs sem megin stoðar. Sú reynsla nýttist vel þegar í ráðuneytið var komið. Óhætt er að segja að þeir sem unnið hafa við ferðaþjónustu hafi náð árangri síðustu árin. Auknar gjaldeyristekjur af greininni bera þess vott. En ekki má láta staðar numið. Nú er hafið nýtt kjörtímabil og ég hef lýst þeim vilja mínum að ráðuneytið setji ferðaþjónustuna í forgang og þar er af mörgu að taka.

Starfsumhverfið

Starfsumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu er lykill að árangri í greininni. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Greininni verði sköpuð sambærileg rekstrarskilyrði og í nágrannalöndunum“. Með þessari lýsingu er stefnan mörkuð. Ráðuneytið mun setja upp áætlun um hvernig þessu markmiði verði náð.

Starfið er hafið

Skipaður hefur verið stýrihópur sem ég hef falið það verkefni að stjórna vinnu við stefnumörkun í samstarfi og með samráð við greinina og fjölda einstaklinga. Í stýrihópnum sitja Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu. Stýrihópurinn mun taka mið af þeirri margháttuðu vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Þar má nefna skýrslu um heilsutengda ferðaþjónustu sem unnin var undir stjórn Önnu G. Sverrisdóttur markaðsstjóra Bláa lónsins, skýrslu um menningartengda ferðaþjónustu, sem unnin var og skrifuð að miklu leyti af Tómasi Inga Olrich, þáverandi formanni Ferðamálaráðs, skýrslunni Auðlindin Ísland sem unnin var af starfsfólki Ferðamálaráðs undir stjórn Magnúsar Oddssonar ferðamálstjóra og síðast en ekki síst skýrslu Framtíðarnefndar ferðaþjónustunnar, sem var unnin undir stjórn Hrannar Greipsdóttur hótelstjóra. Allar þessar skýrslur voru unnar fyrir ráðuneytið og eru mikilvægt innlegg og forsenda aðgerða af hálfu stjórnvalda og greinarinnar í þeim tilgangi að styrkja samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar.

Markaðsmál

Á vegum ráðuneytisins hefur verið unnið mikið starf við markaðssetningu með fjármunum sem ráðuneytið hefur lagt til af sínum ramma fjárlaga. Þar má nefna samstarf undir merkjum Iceland Naturally í Norður Ameríku auk þess sem sérstök fjárveiting hefur verið til markaðssetningar og landkynningar í samstarfi við fyrirtæki í greininni sem hafa lagt fram fjármuni í samstarfi við Ferðamálaráð. Þessar öflugu markaðsaðgerðir, til viðbótar við það sem einstök fyrirtæki eru að gera á eigin forsendum, eru lykillinn að vexti og viðgangi ferðaþjónustunnar.
Ferðaþjónustan er á fleygiferð eins og sjá má á tölum um fjölda ferðamanna sem komu til landsins á síðast ári og þeirri grósku sem er í öllum þáttum ferðaþjónustu. En við getum gert betur og að því skal stefnt.