Umfang íslenskrar ferðaþjónustu á síðasta ári var meira en nokkru sinni áður. Aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn komið til landsins og Íslendingar ferðast æ meira um eigið land. Þetta sést á auknum fjölda gistinátta, meiri gjaldeyristekjum og meiri nýtingu í ferðaþjónustu utan háannatíma.
Bætt rekstrarumhverfi
Eðlilegt er að velta fyrir sér hvað liggur að baki því að við náum hlutfallslega meiri árangri en nágrannalönd okkar. Þarna kemur margt til. Ég hef lagt mikla áherslu á að fyrirtækin í atvinnugreininni fái forsendur til aukins vaxtar með því að skapa nauðsynlegt rekstrar- og lagalegt umhverfi. Þess vegna hefur verið unnið skipulega að hagsmunamálum ferðaþjónustunnar, sett ný lög um skipan ferðamála og fjölmargt verið gert undanfarin ár til að auka samkeppnishæfni fyrirtækjanna rekstrarlega. Mikilvægar aðgerðir á vettvangi samgönguráðuneytisins beinlínis í þágu ferðaþjónustunnar eru til dæmis:
- Framlög til framkvæmda á fjölförnum ferðamannastöðum hafa hækkað árið 2000 úr 15 í 60 milljónir króna á ári.
- Verulegir styrkir veittir til upplýsingamiðstöðva og Ferðamálasamtaka Íslands.
- Endurskipulagning almenningssamgangna sem hefur eflt ferðaþjónustuna með:
- Útboði flugs til jaðarbyggða með tilheyrandi styrkjum úr ríkissjóði sem hefur eflt flugið verulega.
- Útboði ferjurekstrar með umtalsverðum styrkjum úr ríkissjóði.
- Útboði og endurskipulagningu sérleyfa til fólksflutninga með styrkjum úr ríkissjóði.
- Tillögur og ítarleg greinargerð um heilsutengda ferðaþjónustu.
- Tillögur og ítarleg greianrgerð um menningartengda ferðaþjónustu.
- Umfangsmikil greinargerð og tillögur um Auðlindina Ísland í þágu ferðaþjónustunnar.
- Tillögur og greinargerð nefndar um framtíðarsýn ferðaþjónustu á Íslandi.
- Ferðamálaáætlun 2006-2015.
- Verulegir styrkir til landkynningar og markaðsaðgerða innanlds og utan.
- Styrkir til verkefnisins Iceland Naturally vegna landkynningar og markaðsaðgerða.
- Lækkun innflutningsgjalda af hópferðabílum og bílaleigubílum
- Fyrirhuguð lækkun virðisaukaskatts af matvælum, gistingu og fleiru sem tengist ferðaþjónustunni.
- Uppbygging vegakerfisins samkvæmt samgönguáætlun.
- Gerð fjarskiptaáætlunar sem tryggir fjarskipti um landið allt og traust samband við útlönd.
Allt þetta hefur orðið og verður til þess að ýta undir uppbyggingu í greininni og styrkja samkeppnisstöðu gagnvart helstu samkeppnislöndum.
Ferðamálaáætlun á að leiða til uppbyggingar
Fyrir sex árum setti ég af stað umfangsmikla vinnu við undirbúning að gerð fyrstu ferðamálaáætlunar af hálfu stjórnvalda hér á landi. Horft var til annarra áætlana á vegum samgönguráðuneytisins við undirbúninginn sem gefið höfðu góða raun. Þessi vinna leiddi til þess að vorið 2005 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um ferðamálaáætlun 2006-2015 sem unnið hefur verið eftir síðan. Ferðamálaáætlun tryggir hvernig fjáframlögum ríksisins sé best varið svo að vöxtur ferðaþjónustunnar í landinu megi verða sem mestur. Vandað hefur verið til verka og ljóst að öll sú vinna hefur skilað sér.
Öflugir innviðir forsenda framfara
Ein meginforsenda til vaxtar ferðaþjónustu er að innviðir hennar séu sem bestir, samgöngur, fjarskipti og aðrir þættir sem greiða fyrir ferðalögum og öryggi ferðamanna. Það er svo fyrirtækjanna í ferðaþjónustu að nýta það umhverfi sem stjórnvöld búa þeim. Það hafa íslensk ferðaþjónustufyrirtæki gert með hugmyndaauðgi og krafti. Nýsköpun má sjá á öllum sviðum, ný vara er þróuð í samræmi við þarfir neytenda og markaðssett á hefðbundnum mörkuðum jafnframt því sem starfsemi er hafin á nýjum mörkuðum og fleiri hlið opnuð til landsins.
Verðmæt ímynd byggð upp á löngum tíma
Ímynd smárrar þjóðar útávið er viðkvæm og mikilvægt að Íslendingar standi vörð um hana. Heildarímynd lands og þjóðar sker úr um samkeppnishæfni hennar. Í rúmlega 40 ár hafa því íslensk stjórnvöld komið að fjármögnun skipulagðrar almennrar landkynningar og ímyndarsköpunar. Fénu hefur að mestu verið veitt til Ferðamálaráðs (nú Ferðamálastofu) til hinna ýmsu verkefna í samræmi við áherslur ferðamálaáætlunar. Árangurinn og aðferðafræðin hafa vakið athygli annarra þjóða sem hafa sent markaðsfólk hingað í kynnisferðir undanfarin misseri til að leita ráða. Hagsmunaaðilar ferðaþjónustunnar hafa á sama tíma verið óþreytandi við að kynna land og þjóð um víða veröld og notað til þess verulega fjármuni.
Fjárfest í markaðsaðgerðum
Árið 1999 ákváðu stjórnvöld að auka verulega opinbert fjármagn til ímyndarsköpunar og almennrar landkynningar. Það var gert með tímabundnum fimm ára samningi við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu um þátt þeirra. Hliðstætt samkomulag var gert 2001 þegar stofnað var til samstarfsins, ,,Iceland Naturally” þar sem fjöldi fyrirtækja ákvað að koma faglega og fjárhagslega að ímyndarvinnu og almennri kynningu á Íslandi í Norður-Ameríku. Þetta samkomulag var endurnýjað árið 2006 og um leið hliðstætt verkefni sett af stað í Evrópu. Á vegum samgönguráðuneytisins hefur verið veitt nálægt 1.600 milljónum króna til samstarfsins á árunum 1999-2006 og 600 milljónir hafa komið frá fyrirtækjum.
Verðmætasköpun og jaðaráhrif
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið 2004, er bent á mikilvægi ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúið. Þar kemur fram að stofnunin gerir ráð fyrir að einungis virðisaukaskattstekjur þjóðarinnar 1999-2004 séu um 20 milljarðar króna vegna erlendra gesta án þess að tekið sé tillit til óbeinra áhrifa.Á síðasta ári áttu rúmlega 400.000 erlendir gestir viðskipti við fyrirtæki í ferðaþjónustu fyrir um 45 milljarða. Þegar litið er til ársins 2007 virðist ákveðin bjartsýni ríkja um áframhaldandi vöxt. Nægir þar að nefna nýjar fjárfestingar fyrirtækja í ferðaþjónustu, aukið framboð ferða þeirra til landsins og aukið starf á nýjum mörkuðum. Miðað við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið, eru vonir bundnar við að á þessu ári muni íslensk ferðaþjónusta afla yfir 50 milljarða króna í gjaldeyristekjur. Þá hafa stjórnvöld nú skapað enn frekari forsendur til bættrar samkeppnisstöðu greinarinnar með lækkun virðisaukaskatts á gistingu og veitingasölu 1. mars næstkomandi.
Áfram í sókn
Það er því mikið í húfi að íslensk ferðaþjónusta með aðkomu yfirvalda ferðamála haldi áfram á sömu braut við uppbyggingu ímyndar, varðveislu hennar á erlendum mörkuðum og með gæðaþjónustu. Markvissar aðgerðir skila sér í bættri ímynd og þjónustu við ferðamenn. Skipulagðar markaðsaðgerðir og samstarf opinberra aðila við fyrirtæki í ferðaþjónustu eru nauðsynlegar til að áhrifin verði meiri. Sameiginlegt kynningarstarf eykur kraftinn og margfaldar áhrifin. Með samstilltu átaki höldum við áfram að stuðla að auknum gæðum og vexti ferðaþjónustu í landinu.
———–
Höfundur er samgönguráðherra