Síðustu þrjú árin hefur samgönguráðuneytið haft verulega fjármuni af fjárlögum til að sinna landkynningu og markaðs-aðgerðum í þágu íslenskrar ferðaþjónustu.
Ferðamálastjóri, og hans fólk hjá Ferðamálaráði, hefur haft það mikilvæga verkefni að skipuleggja landkynning-una og nýta þessa fjármuni.
Skrifstofur Ferðamálaráðs í New York, Frankfurt og Kaup-mannahöfn hafa sjáanlega náð mikilvægum samböndum á mörkuðunum sem er að skila sér. Einnig heldur Ferðamálaráð úti þremur vefsíðum, á sex tungumálum, sem ætlaðar eru til landkynningar. Sýnir könnun Ferðamálaráðs að veraldarvefurinn heldur áfram að vaxa sem upplýsingamiðill, en flestir ferðamenn segjast fá upplýsingar um Ísland í gegnum netið.
Öflugar markaðsaðgerðir innanlands og utan, sem og mikil landkynning í samstarfi Ferðamálaráðs og fyrirtækja, hefur sjáanlega skilað árangri ásamt því að framboð í flugi og siglingum hefur aukist.
Fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs hefur bæði erlendum ferðamönnum og gistinóttum fjölgað. Á tímabilinu fjölgaði erlendum ferðamönnum um ríflega 17%, en samkvæmt tölum Ferðamálaráðs nam aukning í gistinóttum 17.5% í júlímánuði frá því sem var á síðasta ári. Gistinóttum utan háannatíma fjölgaði að sama skapi, en á tímabilinu janúar til apríl nam aukningin 9.4% frá sama tíma í fyrra. Þessi aukning er mikil og ætti að gefa fyrirtækjum í ferðaþjónustu tilefni til þess að efla starfsemi sína enn frekar. Árangurinn sýnir að Ísland á mikla möguleika sem ferðamannaland. Það er ánægjulegt að fá fregnir af því að hótel á landsbyggðinni, eins og Hótel Búðir á Snæfellsnesi, sé talið meðal bestu hótela í heiminum. Orðspor Bláa lónsins er einnig slíkt að nær allir sem koma til landsins heimsækja lónið og vörumerkið Blue Lagon er þekkt um allan heim. Og nú hafa Mývetningar komið sér upp einstakri baðaðstöðu sem ég spái að verði enn einn mikilvægur segull ferðaþjónustunnar í landinu. Þannig má með sanni segja að ferðaþjónustan er á réttri leið í upphafi nýrrar aldar.
Ferðaþjónustufyrirtækin skapa vel menntuðu fólki atvinnu-tækifæri í skemmtilegu starfsumhverfi. Ég vil óska þeim stóra hópi sem starfar innan ferðaþjónustunnar til hamingju með stórkostlegan árangur.