Góðir gestir!
Það er mér sönn ánægja að opna Ferðatorg öðru sinni en það tókst með afbrigðum vel hér í Smáralind á síðasta ári.
Ferðatorgið er ein af mörgum aðferðum sem beitt er í markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu fyrir Íslendinga og 6% aukning gistinátta innlendra ferðamanna á síðasta ári sannar að kynning sem þessi hefur mikið að segja.
Með Ferðatorgi er skapaður vettvangur fyrir fyrirtæki af öllu landinu, til að sýna og kynna það helsta sem þau hafa upp á að bjóða, nú þegar sumarleyfistími landsmanna er á næsta leyti. Markaðssetning sem þessi, er ákaflega mikilvæg, til að ferðalög innanlands komi ekki síður til álita þegar ákvarðanir eru teknar um það hvernig sumrinu skuli varið.
Hér á Ferðatorgi er á aðgengilegan hátt hægt að fá nákvæmar upplýsingar um það sem býðst í hverjum landshluta í gistingu, skoðunarferðum, skemmtun og ævintýrum. Fjölbreytileikinn er ótrúlegur og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Þannig er leitast við að opna augu okkar fyrir því, að Ísland er skemmtilegur og óvenjulegur ferðamannastaður!
Upplifðu Ísland er eitt þeirra slagorða sem ferðaþjónustan hefur notað á þessum vetri og í sumar má búast við enn frekari hvatningu til landsmanna um að ferðast um Ísland og upplifa náttúru þess og mannlíf. Ferðatorg markar upphafið að átaki Ferðamálaráðs – Ísland sækjum það heim – en það er langtímaverkefni er að fá Íslendinga til að læra að upplifa land og þjóð og ferðalög innanlands á sama hátt og þegar þeir ferðast erlendis.
Ísland hefur ímynd hreinleika og öryggis. Breytt ferðamynstur og áherslur í ferðalögum um allan heim hafa opnað ný tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu, sem getur boðið upp á fyrsta flokks þjónustu í umhverfi sem er óspillt og laust við ógn hryðjuverka og glæpa.
Ágætu gestir!
Íslensk ferðaþjónusta á framtíðina fyrir sér. Ég hvet landsmenn alla til að ferðast meira um landið, gera það með opnum huga, skoða, hlusta, snerta og kynnast Íslandi, það mun örugglega koma skemmtilega á óvart.
Mig langar að lokum til að afhenda Pétri Rafnssyni formanni Ferðamálasamstaka Íslands styrk samgönguráðuneytis til allra ferðamálasamtaka landshlutanna. Styrkurinn er vegna markaðsátaks innanlands í sumar.
– Og ég lýsi Ferðatorg 2003 hér með opið!