Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, setti Ferðatorg 2003 föstudaginn 2. maí s.l. í Smáralind í Kópavogi. Við sama tækifæri afhenti ráðherrann Ferðamálasamtökum Íslands styrk til markaðsátaks innanlands á þessu ári. Styrkurinn nemur alls 16 milljónum króna eða
2 milljónum á hver landshlutasamtök.

Ferðatorg er nú haldið öðru sinni að frumkvæði Ferðamálasamtaka Íslands með styrk frá samgönguráðuneytinu. Markmið Ferðatorgs er að kynna landsmönnum á einum stað þá möguleika sem Ísland býður upp á sem ferðamannaland. Fjölmörg fyrirtæki og ferðamálasamtök taka þátt í Ferðatorgi auk Landmælinga Íslands sem sýndi fjölbreytt úrval nýrra ferðakorta. Það er greinilegt að æ fleiri skilgreina starfsemi sína sem hluta af þessari atvinnugrein og má nefna sem dæmi að Landsvirkjun var með sérstaka kynningu á sýningum í stöðvarhúsum fyrirtækisins um allt land.

Við opnunina töluðu einnig Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands og Gunnar I. Birgisson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi. Ferðatorg stóð dagana 2.-4. maí s.l. og voru gestir rúmlega 20.000 talsins.