Þegar sett voru lög um stjórn fiskveiða var flestum ljóst að okkur væri nauðsynlegt að hafa stjórn á fiskveiðunum ef ekki ætti að ganga of nærri fiskistofnunum. Reynsla okkar af ofveiði síldarstofnsins á sjötta og sjöunda áratugnum ætti að geta verið okkur mikilvæg áminning um hvernig fer fyrir þeim stofnum sem eru ofveiddir.

Deilur hafa orðið miklar um fiskveiðistjórnunarkerfið allar götur síðan lögin um stjórn fiskveiða voru sett. Landsbyggðarkjördæmin þrjú eiga öll mikið undir því að vel takist til með stjórn fiskveiðanna enda á stór hluti atvinnulífsins í þeim allt sitt undir velgengni í sjávarútvegi.

Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem hafa leitt til meiri sáttar um það en áður var. Þær breytingar varða einkum smábátaflotann og gjaldtöku vegna notkunar auðlindarinnar með álagningu veiðileyfagjalds. Í sjávarbyggðunum hefur verið mikil umræða um nauðsyn þess að koma til móts við dagróðrabátaflotann, sem hefur verið að byggjast upp í veikustu byggðunum, einkum á Vestfjörðum. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt tillaga um að dagróðrabátar, sem veiða á línu, fái sérstaka ívilnun. Þessi samþykkt er tímamóta samþykkt sem bætir stöðu þessara báta. Ætti að vera auðveldara að koma þeim breytingum á þegar við blasir að hægt verður að auka veiðiheimildirnar á næsta fiskveiðiári um a.m.k. 30 þúsund tonn í þorski og 15 þúsund tonn í ýsu.

Samfylkingin og Frjálslyndiflokkurinn hafa boðað byltingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu komist þeir til valda. Á ferðum mínum um Norðvesturkjördæmið hef ég orðið þess var að það er mikill uggur í fólki vegna þeirrar óvissu, sem við blasir, verði hugmyndir þessara flokka að veruleika. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hafa verið að fjárfesta í skipum og aflaheimildum á síðustu misserum og þurfa að standa straum af þeirri fjárfestingu með tekjum, sem þeir hafa gert ráð fyrir með óbreyttu kerfi. Það verður hlutverk okkar sjálfstæðismanna að tryggja hagsmuni sjávarbyggðanna og koma í veg fyrir ábyrgðarlausa byltingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það gerum við best með stöðugleika og skynsamlegri þróun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Upplausnarleið Frjálslyndra þar sem gera á allt fyrir alla og fyrningarleið Samfylkingarinnar er hreint ábyrgðarleysi. Gegn slíkum hugmyndum þarf að sporna og tryggja framhald á ábyrgri fiskveiðistefnu.