Á síðustu vikum höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi haldið fjölmarga fundi um kjördæmið þvert og endilangt. Þar hafa sjávarútvegsmál oft borið á góma og hefur tilefni þeirrar umræðu jafnan verið ný staða sem uppi er vegna tillagna stjórnarandstöðuflokkanna, en þeir leggja allir til svokallaða fyrningarleið við stjórn fiskveiða.
Fyrningarleiðin felur í sér þá aðferð að færa árlega ákveðinn hluta núverandi aflaheimilda frá útgerðum og taka til ríkisins og úthluta að nýju með uppboði á heimildunum. Þessi aðferð mun hleypa öllu í uppnám í sjávarbyggðunum og skapa óþolandi óvissu – jafnt fyrir sjómenn sem aðra sem eiga allt undir sjávarútvegi.

Tillögur stjórnarandstöðunnar skapa mikla óvissu

Samkvæmt þeim tillögum sem kynntar hafa verið gera Vinsti grænir ráð fyrir að fyrna 5% aflaheimilda á ári, Samfylkingin gerir ráð fyrir 10% fyrningu á ári en Frjálslyndi flokkurinn er róttækastur og leggur til hvorki meira né minna en 20% fyrningu á ári. Þessi tillaga frjálslyndra felur í sér í raun að á fimm árum falli niður heimild útgerðar til veiða, takist viðkomandi útgerðarmanni ekki að kaupa að nýju heimildir á móti fyrningunni. Í einu vetfangi myndu byggðirnar geta hrunið þegar aflaheimildir verða með stjórnvaldsaðgerð settar á uppboð og skapað með því fullkomið óvissuástand. Eftir sætu útgerðir án aflaheimilda en í mörgum tilvikum skuldsettar vegna kaupa á aflaheimildum sem væru horfnar bótalaust! Þegar svokölluð Auðlindanefnd starfaði var fjallað um tvær leiðir til sátta um stjórn fiskveiða. Annarsvegar að fara fyrningarleið – sem var hafnað – og hinsvegar leið auðlindagjalds sem varð niðurstaðan. Var sú leið lögfest.


Takmörkuð auðlind

Þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett á sínum tíma var flestum ljóst að okkur væri nauðsynlegt að hafa stjórn á fiskveiðunum ef ekki ætti að ganga of nærri fiskistofnunum. Reynsla okkar af ofveiði síldarstofnsins á sjötta og sjöunda áratugnum ætti að geta verið okkur mikilvæg áminning um hvernig fer fyrir þeim fiskistofnum sem eru ofveiddir, svo ekki sé nú talað um reynslu sumra Evrópuþjóða sem standa frammi fyrir stórkostlegri ofveiði og hruni fiskistofna.

Breytingar verða gerðar
Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem hafa leitt til meiri sáttar um það en áður var. Þær breytingar varða einkum smábátaflotann og gjaldtöku vegna notkunar auðlindarinnar með álagningu veiðileyfagjalds. Í sjávarbyggðunum hefur verið mikil umræða um nauðsyn þess að koma til móts við dagróðrabátaflotann sem hefur verið að byggjast upp, sérstaklega á Vestfjörðum. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt tillaga um að dagróðrabátar sem veiða á línu fái sérstaka ívilnun. Þessi samþykkt er tímamótasamþykkt sem kemur til með að bæta stöðu þessara báta umtalsvert. Auðveldara verður að koma á breytingum til hagsbóta fyrir dagróðrabáta núna þegar við blasir að hægt verður að auka veiðiheimildirnar á næsta fiskveiðiári um a.m.k. 30 þúsund tonn í þorski og 15 þúsund tonn í ýsu.


Tryggja verður stöðugleika við stjórn fiskveiða

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir boðað byltingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu komist þeir til valda. Á ferðum mínum um Norðvesturkjördæmið hef ég orðið þess var að það er mikill uggur í fólki verði hugmyndir þessara flokka að veruleika. Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga hafa verið að fjárfesta í skipum og aflaheimildum á síðustu misserum og þurfa að standa straum af þeirri fjárfestingu með tekjum sem þeir hafa gert ráð fyrir að óbreyttu kerfi. Við sjálfstæðismenn ætlum okkur að standa vörð um hagsmuni sjávarbyggðanna og koma í veg fyrir ábyrgðarlausar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það gerum við best með stöðugleika og skynsamlegri þróun laganna um stjórn fiskveiða. Upplausnar- og fyrningarleið Frjálslyndra þar sem gera á allt fyrir alla og fyrningarleið Samfylkingarinnar og VG er hreint ábyrgðarleysi. Gegn slíkum hugmyndum þarf að sporna og tryggja framhald á ábyrgri fiskveiðistefnu sem haldið verði áfram að þróa og bæta án kollsteypu. Þeir sem kynna sér stefnu Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum átta sig á því að þeirra stefna er byggð á ábyrgðarleysi og lýðskrumi.