Vegna umræðna að undanförnu um háhraðatengingar, farsímanetið og önnur atriði á sviði fjarskiptamála tel ég rétt að gera grein fyrir nokkrum verkefnum sem hafin eru á vegum samgönguráðuneytisins. Sést að unnið er nú ötullega að verkefnum á þessum sviðum.
Verkefnin eru í samræmi við fjarskiptaáætlun 2005 til 2010. Á vorþingi 2005 hafði ég forgöngu um að leggja fram þingsályktunartillögu um stefnu í fjarskiptamálum sem var  samþykkt. Í áætluninni er skilgreind aðkoma og markmið stjórnvalda í fjarskiptamálum.  Jafnframt var tryggt 2,5 milljarða króna framlag til verkefnanna sem fengust við sölu Símans.

Verkefnisstjórn fjarskiptaáætlunar hefur umsjón með framkvæmd verkefna sem kveðið er á um áætluninni en hún er jafnframt stjórn fjarskiptasjóðs. Formaður hennar er Friðrik Már Baldursson. Sjóðurinn sér um að hrinda í framkvæmd þremur aðalmarkmiðum fjarskiptaáætlunar.

1.  GSM-farsímanetið
Þéttingu GSM-farsímanetsins er skipt í tvennt. Fyrri áfangi var boðinn út í fyrra og skrifað undir samning við Símann hf. í byrjun árs. Voru boðnir út kaflar á Hringveginum, þar sem GSM-farsímaþjónustu nýtur ekki við nú, og vegir um Fróðárheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Þverárfjall, Fagradal og Fjarðarheiði. Að auki verður settur upp sendir í Flatey á Breiðafirði. Síðari áfanginn var auglýstur í mars og snýst um að bæta þjónustu á stofnvegum sem fyrri áfanginn náði ekki til, á nokkrum ferðamannasvæðum og í þjóðgörðunum. Gera má ráð fyrir því að þeirri uppbyggingu ljúki að mestu sumarið 2008. 

2.  Háhraðatengingar til allra landsmanna
Markmiðið er að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum. Verkefnið er því uppbygging á háhraðatengingum þar sem markaðsaðilar munu ekki bjóða upp á háhraðatengingar. Fjarskiptasjóður stefnir að því að auglýsa útboð í júní. Undirbúningur er í fullum gangi er gert ráð fyrir að uppbygging hefjist í haust og verði að mestu lokið sumarið 2008. 

3.  Dreifing á dagskrá RÚV í gegnum gervihnött
Fjarskiptasjóður vann að þessu markmiði fjarskiptaáætlunar á síðasta ári og skrifaði í byrjun ársins undir samning við norska fjarskiptafyrirtækið Telenor um dreifingu á dagskrá RÚV bæði útvarps og sjónvarps í gegnum gervihnött. Útsendingarnar hófust í apríl s.l.

Þá er unnið að öllum markmiðum fjarskiptaáætlunar og geta áhugasamir kynnt sér skýrslu um framkvæmd hennar sem ég lagði fram á Alþingi. Má þar nefna verkefni eins:


  • Að tryggja öruggt varasamband fjarskipta við útlönd en sú vinna hefur verið leidd af samgönguráðuneytinu. Gert er ráð fyrir því að nýr sæstrengur verði tekinn í notkun haustið 2008.
  • Að allar helstu stofnanir ríkisins verði tengdar öflugu háhraðaneti. Í því sambandi má meðal annars benda á að Vegagerðin bauð út háhraðatengingar sínar á árinu 2006. Í kjölfar útboðsins mun tengihraði um tífaldast á 14 starfsstöðvum á landinu, en 50 faldast á öðrum stöðum. Þrátt fyrir það verður kostnaður stofnunarinnar óbreyttur. 
  • Að langdræg farsímaþjónusta standi til boða um allt land og á miðum við landið eftir að rekstri NMT-kerfisins lýkur. Póst- og fjarskiptastofnun hefur auglýst útboð á tíðnisviðinu sem nýtt hefur verið fyrir NMT kerfið og verður tíðniheimild gefin út um mitt árið og unnt verður að veita fulla þjónustu á nýju kerfi í byrjun árs 2009.

Vaxandi samkeppni ríkir á fjarskiptamarkaðnum. Fyrirtækin keppa um hylli viðskiptavina og bjóða þjónustu víðast hvar um landið. Það er hin eðlilega staða en með fjarskiptaáætlun koma yfirvöld til skjalanna til að unnt sé að tryggja öllum viðunandi þjónustu með samningum við fjarskiptafyrirtækin um ákveðin verkefni. Batnandi tengingar hafa til dæmis auðveldað opinberum stofnunum að flytja starfsemi sína út á land og nægir þar að nefna staði eins og Blöndós, Hvammstanga og Skagaströnd.

Ítreka má að Vegagerðin reið á vaðið með því að leita eftir tilboðum hjá fjarskiptafyrirtækjum vegna gagnaflutnings og náði góðum árangri. Stofnanir og fyrirtæki gætu tekið Vegagerðina sér til fyrirmyndar í þessum efnum. Auðvitað eru uppi kröfur um meiri afköst og lægra verð en það er í höndum fyrirtækja og stofnana að semja við fjarskiptafyrirtækin.

Þar sem allt þetta hefur gerst á síðustu misserum er undarleg grein Garðars Jónssonar um háhraðaflutninga sem birtist í Morgunblaðinu. Það er engu líkara en að hann hafi ekki fylgst með. Eina ráð mitt fyrir hann er að hvetja hann til að herja á fjarskiptafyrirtækin og fá þau til að bjóða í eftirsóknarverð viðskipti á sviði gagnaflutninga.

Umgjörðin, sem sköpuð hefur verið um gerð og framkvæmd fjarskiptaáætlunar, er til þess fallin að ná megi markmiðum hennar og stuðla þannig að því að Ísland sé og verði í fremstu röð í uppbyggingu og notkun fjarskiptatækni.  

————–
Höfundur er samgönguráðherra