Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti samgönguráðherra tvö minnisblöð. Annar vegar varðandi frumvarp til laga um póstþjónustu og hins vegar varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti. Efni minnisblaðanna fer hér á eftir.
Efni: Frumvarp til laga um breytingu á fjarskiptalögum.

Frumvarp þetta hefur það annars vegar að markmiði að tryggja aðgang að heimtaugum rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshludeild og þar með fullnægja skuldbindingum vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið en hins vegar að koma gjaldstofni vegna jöfnunarsjóðs alþjónustu í varanlegt form, þannig að ekki þurfi að endurskoða álagningarhlutfall á hverju ári af Alþingi.

1. Jöfnunarsjóður alþjónustu.
Samkvæmt IV. kafla laga um fjarskipti, nr. 107/1999, er gert ráð fyrir að hægt sé að skylda fjarskiptafyrirtæki til að veita s.k. alþjónustu. Þurfi fjarskiptafyrirtæki að veita alþjónustu þrátt fyrir að hún sé rekin með tapi eða óarðbær vegna ákvörðunar stjórnvalda getur það öðlast endurkröfurétt á hendur sérstökum jöfnunarsjóði. Sá sjóður er fjármagnaður með gjaldi sem lagt er á fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja almenn fjarskiptanet og/eða almenna talsímaþjónustu í hlutfalli við bókfærða veltu þessarar starfsemi. Hefur þjónusta Neyðarlínunnar sem lýtur að neyðarsímsvörun verið talin til alþjónustu sem fjármagna bæri með framlögum úr jöfnunarsjóði.
Tvö undanfarin ár hefur gjaldstofn sjóðsins verið ákveðinn með sérstökum lögum fyrir hvert einstakt ár, sbr. 3. mgr. 15. gr. fjarskiptalaga, en með frumvarpi þessu er ætlunin að gjaldstofninn verði ótímabundinn og því þurfi ekki að leggja sérstakt árlegt frumvarp fyrir Alþingi nema breytingar verði á fjárþörf eða tekjum jöfnunarsjóðsins.

2. Aðgangur að heimtaugum Landssíma Íslands hf.
Gildandi fjarskiptalög mæla nú þegar fyrir um aðgang að heimtaug rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild en Landssími Íslands hf. er eina fjarskiptafyrirtækið sem fellur undir þá skilgreiningu hér á landi. Heimtaugar eru koparsímalínur sem tengja notendur við næstu símstöð.
Með þessu frumvarpi er réttur fjarskiptafyrirtækja að heimtauginni tryggður þannig að Landssímanum ber að verða við öllum réttmætum og sanngjörnum beiðnum þeirra um aðgang að heimtaugum og aðstöðu sem því slíkum aðgangi tengist, svo sem tengigrind.

Efni: Frumvarp til laga um póstþjónustu

Núgildandi lög um póstþjónustu eru að stofni til frá því í desember 1996, lög nr. 142/1996, en þau tóku gildi 1. janúar 1997. Breytingar voru gerðar á þeim með lögum nr. 72/1998 vegna ákvæða í tilskipun ESB (tilskipun 97/67/EB um sameiginlegar reglur um þróun póstþjónustu Evrópusambandsins og aukin gæði póstþjónustunnar) er varðar einkarétt til póstmeðferðar en þessi tilskipun var samþykkt af ráðherraráði ESB eftir að Alþingi hafði samþykkt lögin í desember 1996.

Markmið þessa frumvarps til laga um póstþjónustu og helstu nýmæli eru í fyrsta lagi að kveða skýrar á um rétt landsmanna til lágmarks póstþjónustu með því að taka upp, í samræmi við áðurnefnda tilskipun ESB, hugtakið alþjónusta í stað hugtaksins grunnpóstþjónusta sem notað er í gildandi lögum. Aðaláhrif þessara breytinga eru að í stað þess að lögin leggi íslenska ríkinu á herðar skuldbindingar um þjónustu við landsmenn veitir ríkið skv. frumvarpinu aðilum rekstrarleyfi fyrir alþjónustu með ákveðnum skilyrðum sem tryggja eiga landsmönnum jafnan aðgang að lágmarksþjónustu.

Í öðru lagi eru sett inn skýrari ákvæði um heimildir sem veittar eru til að starfrækja póstþjónustu. Gert er ráð fyrir tvenns konar heimildum, almennri heimild sem táknar skráningu póstrekanda eftir tilkynningu hans til Póst-og fjarskiptastofnunarinnar og rekstrarleyfi sem þarf til að veita alþjónustu.

Í þriðja lagi eru tekin inn ákvæði varðandi kröfur um gæði póstþjónustunnar og ákvæði um söfnun pósts og útburð alla virka daga alls staðar á landinu. Að lokum er í fjórða lagi ákvæði um jöfnunarsjóð alþjónustu. Lagt er til að jöfnunarsjóður verði sérstakur sjóður í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar en ekki hluti af fjárhag stofnunarinnar eins og gildir fyrir jöfnunargjald í gildandi lögum um póstþjónustu og lögum um fjarskipti. Ástæðan er fyrst og fremst sú að fjárlagatillögur stofnunarinnar eru samdar áður en þörfin fyrir jöfnunargjald næsta árs liggur fyrir og er þess vegna ekki hægt að tryggja samræmi þar á milli. Verði frumvarpið að lögum óbreytt mun ekki koma til álagningar jöfnunargjalds á árinu 2003, þar sem leggja þarf fram sérstakt frumvarp þar að lútandi.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að einkaréttur ríkisins haldist að mestu leyti í sama horfi og í gildandi lögum. Þessi ákvörðun byggir m.a. á því að enn er óráðið hvaða breytingar verði gerðar á ákvæðum tilskipunar ESB um póstsendingar í einkarétti en umræðu um þetta er ekki lokið. Um þróun póstmála í Evrópu er fjallað í 2. kafla athugasemda með frumvarpinu.