Um leið og ég sendi lesendum Vesturlands bestu jóla- og nýárskveðjur, með þakklæti fyrir samstarfið, vil ég rifja upp nokkur mikilvæg atriði sem varða landsbyggðina.

Það má með sanni segja að allir málaflokkar, sem heyra undir samgönguráðuneytið, hafi verulega mikla þýðingu fyrir hinar dreifðu byggðir. Þar má nefna vegamál, flugmál, hafnamál, siglingamál, póstþjónustu, ferðamál, öryggismál í samgöngum og fjarskiptamál. Allir þessir málaflokkar hafa beint og óbeint áhrif á þróun byggðar í landinu. Þrátt fyrir að víða blasi við verkefnin þá verður því ekki í móti mælt að margt hefur áunnist hin síðustu misseri. Og það blasir við að á því kjörtímabili, sem nú er hafið, munu verða kaflaskil á öllum þessu sviðum og þá sérstaklega í vegamálum. Í þessari stuttu grein mun ég hins vegar verða við óskum ritstjórans og fjalla um fjarskipti sérstaklega.
Síminn mótaði samfélagið

Í hundrað ár hefur Landsími Íslands veitt þjóðinni aðgang að fjarskiptum í þágu upplýsingatækni samkvæmt kröfum hvers áratugar. Landsmenn hafa nýtt sér símatæknina og hún hefur orðið hluti af framfarasókn þjóðarinnar. Fjarskiptin komu þjóðinni í þjóðbraut viðskipta. Síminn mótaði þannig samfélagið með stöðugt vaxandi fjarskiptaþjónustu. Það er því ekki að undra þótt Síminn sé samofinn þjóðinni. Með aðild okkar Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu höfum við undirgengist kröfur hins frjálsa og opna markaðar. Það er viðurkennt að því fylgdu margvíslegar hagsbætur fyrir neytendur og við fengum aðgang að stórum mikilvægum markaði. Hluti þess að taka þátt í EES var að gefa fjarskiptin frjáls. Koma á samkeppni í fjarskiptum í þágu neytenda. Það er í því ljósi sem harðar kröfur eru gerðar til Símans í fjarskiptalögum um að hann gefi öðrum fjarskiptafyrirtækjum færi á að nýta grunnkerfi og heimtaugar, sem eru í eigu Símans, og komast þannig í bein viðskipti við símnotendur svo þau geti keppt við Símann um þjónustu og verðlagningu þjónustunnar. Það er einnig í því ljósi sem gerðar eru kröfur um að ekki megi ívilna eða íþyngja einstöku símafyrirtækjum með mismunandi kröfum um þjónustu umfram það sem skilgreint er sem alþjónusta og markaðsráðandi fyrirtæki eiga að veita. Við getum því ekki gert ótakmarkaðar kröfur til Símans um að hann byggi upp þjónustu sem hefur ekki markaðslegar forsendur. Það er jafnframt í þessu ljósi sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að selja eignarhluta sinn í Símanum. Alþingi hefur með lögum veitt þá heimild til þess að ríkið verði ekki markaðsráðandi á fjarkiptamarkaði í samkeppni við önnur þau fyrirtæki sem bjóða þjónustu á sviði fjarskipta. Um alla Evrópu stendur yfir einkavæðing gömlu símafyrirtækjanna, sem hafa verið í ríkiseign, og samkeppnin á fjarskiptamarkaði er vaxandi. Einnig hér á Íslandi.
Þessa eign okkar í Símanum viljum við nota til þess að lækka skuldir okkar og um leið vaxtagreiðslur ríkisins, bæta vegakerfið og nýta söluandvirðið einnig til þess að bæta fjarskipti í dreifbýlinu t.d. GSM kerfið á fjallvegum og á ferðamannastöðum.Til lengri tíma litið mun það verða til hagsbóta landsbyggðinni að nýta eignina í Símanum til frekari uppbyggingar.
Fjarskiptalögin frá 2000 breyttu miklu fyrir landsbyggðina.

Fjarskiptalögin, sem ég fékk samþykkt og tóku gildi 1.janúar árið 2000, mörkuðu tímamót hvað varðar lagaumgjörð vegna gagnaflutninga og notkunar internetsins hér á landi. Með lögunum var sett sú kvöð á markaðsráðandi símafyrirtæki að allir, sem hefðu aðgang að venjulegri símaþjónustu í fastlínukerfinu, ættu að njóta aðgangs að internetinu með tilteknum hraða, sem var þá meiri gagnaflutningshraði en almennt var nýttur. Með þessari ,,hörðu“ kröfu, sem þá var talað um af hálfu forsvarsmanna Símans, og með kröfunni um aðgang að heimtaug og netaðgangi var stigið það skref sem hratt af stað mjög jákvæðri þróun. Sú þróun hefur leitt til þess að við erum meðal mestu internetnotenda í heimi. Þessi mikilvæga þróun hefur síðan leitt til þess að almenningur í landinu gerir kröfu um aðgang að háhraðaneti, sem skapar mikla möguleika til náms, viðskipta og afþreyingar.
En til þess að símafyrirtækin geti orðið við kröfu almennings um aðgang að gagnaflutningum verða að vera til staðar viðskipti sem geta staðið undir kostnaði. Nýjasta dæmi um það eru ADSL tengingar fyrir sjónvarpssendingar sem nýta koparinn.
Það er mitt mat að krafan í fjarskiptalögunum, um að allir hafi aðgang að ISDN tengingum hið minsta, hafi hrundið af stað þeirri viðskiptabyltingu fjarskiptanna um allt land sem fylgir enn frekari hraða á netinu. Þessi svokallaða ADSL tækni kemur nú fram sem tengingar fyrir sjónvarp og útvarp þar sem nýttur er koparstrengurinn sem er tengdur í hvert hús.
Skjár 1 fer um landið.

Samhliða þessari jákvæðu þróun í háhraðatengingum er nú hafin uppbygging stafræns útvarps og sjónvarps. Stafræna tæknin opnar fyrir ný svið gagnaöflunar inn á hvert heimili.
Fyrir nokkrum misserum setti ég á fót nefnd undir formennsku Jafets Ólafssonar fyrrverandi forstjóra Stöðvar 2. Þeim starfshópi var ætlað að gera tillögur um hvernig mætti innleiða stafrænt útvarp og sjónvarp þannig að allir landsmenn gætu notið þess. Hópurinn skilaði áliti sem fólst í því að gera ráð fyrir einu dreifikerfi sem allar sjónvarps- og útvarpsstöðvar ættu öruggan aðgang að. Með þessari aðferð var gert ráð fyrir því að notendur ættu þess kost að kaupa aðgang að læstri dagkrá um einn og sama myndlykilinn jafnframt því að fá góða tengingu við RUV. Í þessu er fólgin mikil hagræðing og sparnaður fyrir notendur og sjónvarpsstöðvarnar. Viðræður hófust um málið undir forystu samgönguráðuneytisins sem ráðuneytis fjarskiptamála. Í þeim viðræðum tóku þátt útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar, Síminn og Póst- og fjarskiptastofnun. Allt benti til þess að samkomulag gæti orðið um þessa lausn og nýta mætti dreifikerfi Símans eða annarra fjarskiptafyrirtækja og sjónvarpsstöðvanna öllum til hagsbóta. Því miður slitnaði upp úr þessum viðræðum er Stöð 2 dró sig út úr þeim með miklum bresti vegna deilna um fjölmiðlafrumvarpið. Fjölmiðlafrumvarpið og fjölmiðlalögin voru notuð sem átylla. Þá hófst kapphlaupið um enska boltann og framhaldið er síðan þekkt. Stöð 2 hóf uppbyggingu á sínu stafræna dreifikerfi, sem nær fyrst og fremst til mesta þéttbýlisins, án þess að gera ráð fyrir því að nýta sér kerfi símafyrirtækjanna og stuðla þannig að hagkvæmustu leiðinni. Eins og þekkt er þá hefur Síminn hafið dreifingu á sjónvarpsefni fyrir Skjá 1 um kopar og ljósleiðarkerfi sitt auk þess að senda jafnframt út efni á Breiðvarpinu. Mikil ánægja er með þá þróun í þeim dreifðu byggðum sem þeirrar þjónustu geta notið. Fyrsta byggðin á Vestfjörðum sem var tengd er Bolungavík og geta sjónvarpsnotendur nú notið þess að tengjast því sjónvarpsefni sem í boði er um dreifikerfi Símans. Það er í raun sú lausn sem hugsuð var fyrir allar sjónvarps- og útvarpsstöðvarnar.
Fjarskiptaáætlun

Eins og að framan er getið þá eru gerðar miklar og vaxandi kröfur um góð, öflug og ódýr fjarskipti um allt land. Til þess að tryggja hagstæða þróun og til þess að koma til móts við kröfur tímans í fjarskiptum hefur verið starfandi hópur á vegum samgönguráðuneytisins sem vinnur að fjarskiptaáætlun. Í henni verður fjallað um kröfur okkar og áform um sem öflugasta og hraðvirka fjarskiptaþjónustu. Gildir það jafnt um venjulega símaþjónustu, gagnaflutninga, sjónvarps- og útvarpsflutning um fjarskiptanetin og GSM símaþjónustuna um landið allt. Er þess að vænta að áður en langt líður verði komin mynd á þessa áætlun og íbúar landsins geti áttað sig á því hvaða kröfur stjórnvöld gera til fjarskipta í framtíðinni. Það er stefna mín í fjarskiptamálum að við verðum í fremstu röð á sviði fjarskipta, þau geti verið liður í byggðaaðgerðum stjórnvalda og fjarskiptin á Íslandi verði öflug, aðgengileg og ódýr.