Samgönguráðherra fór nýlega í skoðunarferð um höfuðborgarsvæðið í fylgd starfsmanna Vegagerðarinnar, starfsmanna umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs ásamt starfsmönnum ráðuneytisins. Tilgangur ferðarinnar var að skoða mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu. Alls hafa verið byggð 12 mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu, tvenn til viðbótar eru í byggingu og auk þeirra nokkur í sjónmáli.

Samgönguráðherra ásamt starfsmönnum Vegagerðarinnar, starfsmönnum umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs ásamt starfsmönnum ráðuneytisins.

Ráðherra skoðaði sérstaklega framkvæmdir á mislægu gatnamótunum sem eru í byggingu, en þau eru annars vegar í Hafnarfirði, þ.e. á mótum Reykjanesbrautar og Kaldárselsvegar og hins vegar í Reykjavík, á mótum Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar.

Gatnamót við Kaldárselsveg í Hafnarfirði

Á mótum Reykjanesbrautar og Kaldárselsvegar er um er að ræða færslu Reykjanesbrautar frá Lækjargötu, suður fyrir kirkjugarð, sem tengist síðan núverandi Reykjanesbraut vestan kirkjugarðs, eða um 1,6 km leið. Til framkvæmdanna telst einnig gerð hluta Kaldárselsvegar og gerð mislægra gatnamóta við Kaldárselsveg, auk allrar vega- og stígagerðar sem nauðsynleg er til að ljúka gatnamótunum. Þá verður göngubrú lögð yfir Reykjanesbraut vestan kirkjugarðs og undirgöng byggð undir Reykjanesbraut við Hamarskotslæk. Áætluð verklok eru í júlí 2004.


Gatnamót við Kaldárselsveg í Hafnarfirði.

Gatnamót við Stekkjarbakka
Framkvæmdir eru á mótum Reykjanesbrautar, Stekkjarbakka og Smiðjuvegar. Til þeirra telst gerð tveggja brúa yfir Reykjanesbraut ásamt göngubrú, gerð undirganga undir Stekkjarbakka, auk allrar vegagerðar, stígagerðar og landmótunar. Áætlað er að umferð verði komið á mannvirkið 1. nóvember 2003 og verkinu að fullu lokið 1. júlí 2004.


Gatnamót við Stekkjarbakka.

Fyrirhuguð gatnamót
Nokkur mislæg gatnamót eru fyrirhuguð í nánustu framtíð. Þau helstu eru gatnamót við Arnarnesveg og Reykjanesbraut, á mótum Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar og á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklabrautar.

Gatnamót við Arnarnesveg og Reykjanesbraut

Vegagerðin stendur að hönnun mislægra gatnamóta þar sem Arnarnesvegur þverar Reykjanesbraut sunnan Smáralindar. Arnarnesvegur kemur til með að liggja yfir Reykjanesbrautina á tvíbreiðu hringtorgi á efri hæð en Reykjanesbrautin mun liggja samfelld undir gatnamótin. Forhönnun þessa verkefnis liggur fyrir og er gert ráð fyrir að verkhönnun verði lokið í haust.

Gatnamót við Suðurlandsveg og Vesturlandsveg

Vegagerðin í samstarfi við Reykjavíkurborg stendur að hönnun mislægra gatnamóta þar sem Vesturlandsvegur-Miklabraut-Hringbraut tengjast Suðurlandsvegi. Frumdrög að 1. áfanga voru gefin út í júlí 2003 og er stefnt að því að bjóða út for- og verkhönnun fljótlega.

Gatnamót við Kringlumýrarbraut og Miklabraut

Á síðustu árum hefur þróast hugmynd að mislægum gatnamótum á þremur hæðum þar sem hringtorg er á einni hæðinni. Gerð er grein fyrir þessum möguleika í áfangaskýrslu vinnuhóps Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar sem hægt er að nálgast á heimasíðu Vegagerðarinnar, www.vegagerdin.is.