Föstudaginn 30.ágúst og laugardaginn 31.ágúst var haldið Fjórðungsþing Vestfirðinga í Bolungarvík. Þar voru til umfjöllunar byggðamálin ásamt með öðrum megin hagsmunamálum byggðanna á Vestfjörðum. Var kynnt þar Byggðaáætlun fyrir Vestfirði, sem unnin hefur verið og er hið merkilegasta framtak, sem hefur mikla þýðingu fyrir alla þá sem vinna að hagsmunamálum Vestfjarða. Er þess að vænta að tillit verði tekið til þeirra efnissatriða sem felast í tillögunum, sem eru mjög vel unnar og að mínu mati tímamóta framtak í byggðamálum. Það var einstök tilviljun að Byggðaáætlun fyrir Vestfirði var til umfjöllunar þann dag sem skáldið frá Kirkjubóli við Önundafjörð, Guðmundur Ingi Kristjánsson lést. Á titilblaði áætlunarinnar, sem dreift var á þinginu var birtur hluti úr ljóði eftir Guðmund Inga:

… Nú skal fagna nýjum vegi,
nýrri sókn með hverjum degi,
láta vesturfirði fá
frama þann sem völ er á…

Á fundinum flutti ég ávarp sem fylgir hér á eftir.
Ræða á Fjórðungsþingi Vestfjarða 30.8.2002 í Bolungarvík
Ágætu þingfulltrúar.

Á vegum samgönguráðuneytis er unnið að mörgum viðfangsefnum sem varða mjög byggðir Vestfjarða.
Ég vil hér í dag gera að umtalsefni nokkuð af því sem miklu varðar stærstu atvinnuvegi Vestfjarða, sem eru sjávarútvegur og ferðaþjónusta.

Ekki þarf að tíunda hversu mikla þýðingu sjávarútvegurinn hefur en hitt er nauðsynlegt að minna á að ferðaþjónusta er annar eða þriðji stærsti atvinnuvegur þjóarinnar þegar miðað er við gjaldeyristekjur og er stöðugt vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum vegna einstakra náttúrukosta og menningartengdrar ferðaþjónustu sem stöðugt sækir í sig veðrið.

Sjávarútvegurinn á mikið undir því að uppbygging og rekstur hafnanna standi á traustum grunni og að vegakerfið tengi vel saman byggðina. Ferðaþjónustan á með sama hætti mikið undir því að fjarskiptin þróist hratt og einnig að vegakerfið byggist upp og að flugið geti veitt hina bestu þjónustu.

1. Ferðaþjónusta er vaxandi sem atvinnugrein hér á landi og okkur hefur tekist að ná verulega góðum árangri í því að markaðssetja landið sem ferðamannaland. Samgönguráðuneytið hefur lagt ríka áherslu á markaðsmál ferðaþjónustunnar og lagt fram verulega fjármuni af fjárlögum til þess að vinna að markaðssetningu Íslands á erlendum mörkuðum á forsendum hreinleika náttúru landsins og menningartengdrar ferðaþjónustu. Verulegur árangur hefur náðst svo sem sést nú á afkomu Flugleiða sem hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Með hröðum og skipulegum viðbrögðum tókst að vinna gegn alvarlegum afleiðingum hryðjuverkanna 11. sept. með öflugum markaðsaðgerðum sem voru kostaðar sameiginlega af Ferðamálafjármunum og Flugleiðum í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðmálaráð.

Mikilvægustu aðgerðir okkar til að efla ferðaþjónustuna eru eftirfarandi og eiga að nýtast ferðaþjónustu hér á Vestfjörðum ekki síður en í öðrum landshlutum:
· Kynning á vegum IN í Norður-Ameríku.
· Kynningarátak í Evrópu í samstarfi við Flugleiðir og SAF.
· Samningar um rekstur gestastofa og Upplýsingamiðstöðva.
· Stóraukið fjármagn til uppbyggingar fjölfarinna ferðamannastaða.
· Bætt staða innanlandsflugs eftir að flugleiðir til jaðarbyggða og sjúkraflutningar voru boðnar út með styrkjum úr ríkissjóði að frumkvæði samgönguráðuneytisins.
· Sérstakt átak við menningartengda ferðaþjónustu og heilsutengda ferðaþjónustu.
· Lækkun skatta og aðflutningsgjalda af bílaleigubílum og rútum.
· Flokkun gististaða.
· Bætt fjarskipti og lækkun kostnaðar við gagnaflutninga.
· Samningar við Háskólann að Hólum um styrki í fjarkennslu í ferðamálafræðum.
· Útboð á ferjuleiðum.
· Endurskipulagning sérleyfa vegna fólksflutninga.
· Samgönguáætlun á grundvelli nýrra laga sem felur í sér samræmda samgönguáætlun um vegi, hafnir og flug.
· Ferjuhöfn á Seyðisfirði fyrir nýja Norrænu sem mun fjölga ferðamönnum til landsins.
· Og nú síðast en ekki síst markaðsátakið innanlands sem kostað er af þeim fjármunum sem ráðuneytið fékk til ráðstöfunar til landkynningar og sérstakra markaðsaðgerða.

Það er mitt mat að ferðaþjónustan á Vestfjörðum eigi mikla framtíð fyrir sér og muni eflast með bættum samgöngum um fjórðunginn. Um þessar mundir er unnið að gerð tillagna um skipulagningu uppbyggingar vaxtasvæða sem unnið er á vegum Ferðamálaráðs og jafnframt er starfandi Framtíðarnefnd ferðaþjónustunnar.

2. Hafnirnar gegna lykilhlutverki hér á Vestfjörðum.
Því miður hefur afkoma þeirra ekki verið í samræmi við mikilvægi þjónustunnar og það hefur alltaf valdið mér heilabrotum að útgerðin skuli hafa snúist svo gegn því að bæta afkomu hafnanna sem forysta LÍÚ hefur gert. Eftir mikið hark tókst að fá aflagjaldið sem fiskihafnirnar lifa á hækkað í 1% gegn háværum mótmælum. Á sama tíma hafa útvegsmenn greitt möglunarlítið allt að 5% aflaverðmætis til fiskmarkaðanna.

Ég geri ekki lítið úr hlutverki fiskmarkaða en leyfi mér að efast um að eðlilegt sé að hærri þóknun sé greidd fyrir þjónustu fiskmarkaða en hafnanna.

Frumvarp til nýrra hafnalaga var ekki afgreitt á síðasta þingi. Ég geri ráð fyrir að leggja nýtt frumvarp fram nú við upphaf þingsins með einhverjum breytingum frá því það var lagt fram á síðsta þingi . Ég tel eðlilegt að taka tillit til athugasemda sem komið hafa fram og varða styrkhæfni vegna endurbyggingar hafnarkanta og gera ráð fyrir lengri aðlögun að gildistöku styrkhæfni þáttar laganna vegna framkvæmda svo tóm gefist til þess að jafna aðstöðu hafnasjóða. Dæmi um slíka stöðu er m.a. að finna hér á Vestfjörðum. Ég tel hinsvegar mjög mikilvægt fyrir hafnareksturinn í landinu að frumvarpið nái fram að ganga og hafnir verði sjálfstæðari og geti staðið undir rekstri og eðlilegum afskriftum.

Framkvæmdaþörfin í höfnum hér á Vestfjörðum er einkum viðhald stálþilja og ætti lengri aðlögun og verulegar framkvæmdir við þau næstu árin að koma til móts við stöðu hafnasjóðanna.

Það er eindreginn vilji minn að ganga til viðræðna við Samband ísl. sveitarfélaga og ná samkomulagi um afgreiðslu frumvarps til hafnalaga með þeim breytingum sem samkomulag næst um. Í þeim tilgangi skipaði ég starfshóp fulltrúa Sambandsins og ráðuneytis auk fulltrúa stjórnarflokkanna úr samgöngunefnd þingsins. Verkefni þeirra er að vinna að lausn málsins.

Það er sannfæring mín að þegar til lengri tíma er litið er farsælast að hafnirnar verði sjálfstæðar og þurfi einungis að þiggja styrki úr ríkissjóði til framkvæmda við ytri mannvirki og dýpkanir innan þeirra marka sem frumvarpið gerði ráð fyrir. En það var mat allra að frumvarpið tryggði betur hagsmuni minni hafna með litlar tekjur en núverandi lög gera. Þess vegna kom mér mjög á óvart hversu mikil andstaða var mögnuð upp gegn frumvarpinu.

3. Samgönguáætlun verður viðamesta verkefni ráðuneytisins á þessu hausti. Í samræmi við nýsamþykkt lög um samgönguáætlun hef ég skipað Samgönguráð. Formaður þess er Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Er mikils um vert að fá svo öflugan og reyndan einstakling til þess að vinna við stefnumörkun og tillögugerð til mín vegna fyrstu samræmdu samgönguáætlunar á Íslandi. Með honum starfa siglingamálastjóri, vegamálastjóri og flugmálastjóri með helstu sérfræðingum sínum auk starfsmanna ráðuneytisins.

Eins og þingfulltrúum er kunnugt er gert ráð fyrir að afgreiða nýja samgönguáætlun er taki til vegamála , flugmála og siglingamála, þar með hafnamála til fjögurra ára og langtímaáætlunar til tólf ára. Hér er um viðamikið verkefni að ræða sem varðar mjög miklu alla byggðaþróun í landinu. Það er von mín að vel megi til takast.

Í vegagerð hér á Vestfjörðum er af mörgu að taka. Ég vil skýra afstöðu mína hér á eftir:
Að sjálfsögðu er ég reiðubúinn til þess að hlusta á rök þeirra sem hafa aðrar tillögur, enda verður að ná víðtæku samkomulagi milli þingmanna í nýju kjördæmi og sveitarstjórnarmanna.

1. Verður að leggja ríka áherslu á vetrarþjónustu á vegum og flugvöllum og taka mið af sérstöðu byggða Vestfjarða sem liggja svo fjarri hringvegi og megin byggðakjörnum sunnan og norðanlands. Snjómokstursreglur þurfa að taka tillit til þess í auknum mæli m.a. vegna aukinna landflutninga.
2. Samgönguáætlun geri ráð fyrir sem forgangsverkefni uppbyggingu vega með bundnu slitlagi um Djúpið og um Barðaströnd svo byggðir sunnan og norðan tengist hringvegi á bundnu slitlagi með vegi sem halda má opnum alla daga.
3. Samgönguáætlun geri því næst ráð fyrir styttingu leiða með fjarðaþverunum þar sem það á við.
4. Ná þarf víðtæku samkomulagi um hvaða leið verði valin til tengingar Djúps og Stranda við Dali.
5. Samgönguáætlun geri ráð fyrir endurbótum á vegi um Óshlíð og Súðavíkurhlíð í samræmi við þær tillögur sem eru í smíðum hjá starfshópi sem var skipaður að minni ósk.
6. Jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verði á áætlun næst á eftir Reyðarfjarðar- og Siglufjarðargöngum í samræmi við jarðgangaáætlun sem var samþykkt á Alþingi.
7. Á meðan vegur um Barðaströnd er byggður upp verði Breiðafjarðarferjan rekin og þjónusta hennar miðuð við það sem byggðirnar og atvinnulífið þarfnast. Þegar heilsársvegasamgöngum er náð við Vesturbyggðina verði rekstur ferjunnar stokkaður upp. Rekstur ferjunnar er nú til sérstakrar skoðunar hjá nefnd sem ég skipaði til þess að meta þörfina fyrir ferjurekstur á Breiðafirði í þágu eyjanna og ferðaþjónustu á Vestfjörðum.

Ágætu fundarmenn.

Samgöngur eru lykill að framþróun byggðanna. Það á að vera sameiginlegt verkefni okkar að kalla eftir auknum fjármunum til þess að byggja eins hratt upp samgöngukerfi landsins sem nokkur kostur er. Það er þjóðhagslega hagkvæmt og eykur öryggi vegfarenda og lækkar kostnað í nær öllum rekstri.
Það er von mín að við megum eiga samleið við það verkefni og okkur auðnist að ná um það samkomulagi við þingmenn annarra kjördæma um skiptingu fjárveitingu til verkefna í vegagerð svo til hagsbóta verði fyrir Vestfirðinga og þann vaxandi fjöld ferðamanna sem fer um Vestfirði.