I.
Allir sanngjarnir menn viðurkenna að verkefni Alþingis og ríkisstjórnar er risavaxið eftir bankahrunið. En í því verkefni gildir eins og í öllum verkum að „veldur hver á heldur.“ Frá því ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) tók við hef ég fylgst með framvindu stjórnmálanna úr fjarlægð. Framganga forystumanna stjórnarinnar veldur mér furðu og miklum vonbrigðum. Af mörgu er að taka. Það sem ég tel vera hættulegast við vinnubrögðin er hversu augljóst hatrið er og sá hefndarhugur sem virðist ráða för og þá einkum hjá fjármálaráðherranum og þeim sem næst honum standa. Það er nánast reynt að „tryggja“ ágreining um öll mál. Slík framganga kann ekki góðri lukku að stýra. Sérstaklega eins og aðstæðurnar eru í stjórnmálunum á Íslandi um þessar mundir. Það er hinsvegar ekki beint hægt að segja að vinnubrögðin komi á óvart.
Kynni mín af pólitísku verklagi núverandi fjármálaráðherra eru af vettvangi þingsins. Framganga hans þar, er og hefur verið, mörkuð af takmarkalausum yfirgangi. Þar sem engin leið er að semja nema á forsendum sem hann setur sjálfur og æði oft sem úrslitakosti. Ég sé fyrir mér stjórnarmyndun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem öll völd voru færð í hendur VG gegn því að þeir samþykktu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Og VG hefur fórnað öllum sínum kosningaloforðum fyrir völdin.
Það er ógnvænleg mynd sem blasir við og Samfylkingin lætur draga sig út í ófærurnar, hverja af annarri.