Ræða á hátíðarsamkomu vegna Green Globe-vottunar Snæfellsness, sunnudaginn 8. júní 2008
Forseti Íslands, sveitarstjórnarmenn á Snæfellsnesi og aðrir góðir gestir og heimamenn.
Til hamingju með daginn. Ég þakka þann heiður að fá að ávarpa ykkur við þetta einstaka tækifæri.
Ekkert land verður numið og nýtt til búsetu án þess að það beri þess einhver merki.
Tilfinning okkar Íslendinga fyrir landinu, fyrir náttúrunni og raunar öllu okkar umhverfi hefur sem betur fer þroskast mikið samhliða stórauknu álagi af veru mannsins á þessu fallega landi okkar. Með löggjöf eru okkur settar skorður og kröfur einstaklinga um góða umgengni og bætt umhverfi hafa vaxið.
Árangurinn blasir við þar sem bláfáninn og grænfáninn hafa verið dregnir að húni við stofnanir sveitarfélaganna á Snæfellsnesi. Það er vissulega tákn um árangur.