Við Íslendingar eigum mikið undir því að starfsemi flugfélaganna tryggi okkur sem bestar samgöngur til og frá landinu.

Mikill vöxtur í ferðaþjónustu síðustu misserin er afrakstur þess að mikilvægt samstarf hefur tekist milli ferðaþjónustufyrirtækjanna og stjórnvalda um markaðsaðgerðir. Fyrstu þrjá mánuði ársins varð 16.7% fjölgun ferðamanna frá fyrra ári. Gefur sú aukning miklar vonir um enn frekari vöxt sem ætti að verða til þess að bæta afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu og lengja ferðamanna-tímann. Þessi mikla aukning byggir m.a. á auknu sætaframboði flugfélaga og öflugri landkynningu.

Á ferð og flugi í byrjun sumars

Sumardagurinn fyrsti var sem oft áður annasamur hjá mér. Flugfélagið Atlanta bauð mér og ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins og aðstoðarmanni mínum ásamt fleira fólki til ferðar frá Reykjavíkurflugvelli. Ferðinni var heitið til Írlands til að taka þátt í formlegri opnun nýrrar og glæsilegrar viðhaldsstöðvar sem Atlanta hefur tekið við rekstri á og samið um kaup á glæsilegri aðstöðu. Það var skemmtilegt að fljúga frá Reykjavíkurflugvelli að morgni sumardagsins fyrsta í fallegu veðri. Skartaði höfuðborgin sínu fegursta. Flugvélin, sem er af gerðinni Boeing 757 300 nýtti sér einungis tæplega helming suður-norður brautarinnar við flugtak.

Viðhaldsstöðin í Shannon var tekin formlega í notkun þennan dag að viðstöddu fjölmenni. Starfsemi Atlanta hefur vaxið mikið og hefur Íslandsflug gengið til samstarfs við Atlanta og mun njóta þjónustu viðhaldsstöðvarinnar eins og hin félögin sem eru undir Atlanta hópnum. Á vegum flugfélaga innan Atlanta hópsins eru um sextíu flugvélar og sjö fyrirtæki. Eftir að hafa verið við formlega opnun, notið ríkulegra veitinga í flugskýli félagsins ásamt stórum hópi Íra og Íslendinga og hitt samgönguráðherra Írlands, Seamus Brennan, var haldið til Gattvík á einni af breiðþotum Atlanta. Frá London var síðan flogið með Flugleiðum og komið heim til Íslands skömmu fyrir miðnætti. Er ástæða til þess að óska eigendum og starfsfólki Air Atlanta hópsins til hamingju með öfluga og framsækna starfsemi. Rekstur Air Atlanta hópsins skapar stórum hópi flugmanna og flugliða vinnu um allan heim. Íslandsflug, sem var að fjölga í flugflota sínum og sinnir bæði innanlandsflugi og leiguflugi milli landa, er orðin hluti Air Atlanta og eigendur Íslandsflugs því stórir hluthafar í Air Atlanta hópnum. Er þess að vænta að það samstarf efli flugreksturinn og þá margháttuðu starfsemi sem fylgir rekstri flugfélaganna hér á Íslandi.