Sturla Böðvarsson flutti ávarp við opnun afmælissýningar Flugmálastjórnar Ísland í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í gær.


Ágætu sýningargestir

Það hefur verið mikil framsýni og stórhugur í því fólginn hjá íslenskum stjórnmálamönnum árið 1944 að gerast aðilar að Chicago sáttmálanum um alþjóðaflug á fyrsta ári íslenska lýðveldisins.

Með því var lagður grunnur að því mikilvæga starfi Flugmálastjórnar sem hefur verið kjölfestan í uppbyggingu flugstarfsemi á Íslandi og við minnumst á þessu ári.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa sem betur fer haft ríkan skilning á því að við ættum að efla þjónustu við flugið. Tryggja sem best þá starfsemi í þágu flugöryggis og öflugrar starfsemi flugfélaga.
Það hefur verið gert með uppbyggingu flugvalla, flugstöðva og flugleiðsögukerfa ásamt því að rík áhersla hefur verið lögð á að taka upp alþjóðlegar reglur á sviði flugöryggismála.

Sú sýning sem er opnuð hér í Ráðhússalnum sýnir vel þróun í fluginu hér á landi og þær breytingar sem orðið hafa. Það er veglegt og þakkarvert að halda til haga sögunni svo fróðlegt sem það er að skyggnast inn í þróun flugstarfsemi á Íslandi.

Íslenskir athafnamenn hafa í gegnum tíðina séð mörg tækifæri felast í flugrekstri og þeir hafa notið öflugs stuðnings stjórnvalda með því að tryggð séu sem best skilyrði til flugreksturs. Mikil trú á flugstarfi innanlands og utan birtist í öflugri útrás. Lykillinn að farsælum rekstri flugfélaga er að í landinu þróast umhverfi þar sem flugöryggið er aðalsmerkið sem sóst er eftir.

Hlutverk stjórnvalda í því er að tryggja traust lagaumhverfi og stofnanir sem fylgja eftir settum reglum og þær hafi tiltrú til þess að vera í hlutverki leiðtoganna sem leggja línurnar og skapa ramman sem flugrekstraraðilar verða að starfa innan svo fyllsta öryggis sé gætt.

Um þessar mundir er í mörg horn að líta á vettvangi flugmálayfirvalda á Íslandi. Má þar nefna m.a.:



  • 1. Stórhertar reglur um flugvernd sem framfylgja verður á íslenskum flugvöllum gagnvart flugrekstri.

2. Vaxandi alþjóðlegt samstarf Alþjóða flugmálastofnunarinnar og á hinu Evrópska efnahagssvæði þar sem flugöryggismálin eru í forgrunni.




  1. 3. Áframhaldandi uppbygging og endurbætur flugvalla. Þar má auðvitað fyrst og fremst nefna þær miklu endurbætur sem gerðar hafa verið á Reykjavíkurflugvelli og auk þeirra sem standa fyrir dyrum m.a. á Þingeyrarflugvelli sem mun gjörbreyta aðstæðum til flugs á Vestfjörðum.


  2. 4. Starfsemi Flugfjarskipta hf., sem hefur í nafni Flugmálastjórnar tekið við starfsemi í Gufunesi og er ætlað hlutverk á sviðið samstarfs við nágrannaþjóðir vegna leiðsögu og fjarskiptakerfa.

  3.  

  4. 5. Að lokum við ég nefna að á næstunni verða kynntar tillögur nefndar sem ég skipaði og hafði það hlutverk að gera tillögur um ,,framtíðarskipan flugmála“. Munu þær tillögur verða kynntar sérstaklega fyrir starfsfólki Flugmálastjórnar og hagsmunaaðilum.

  5.  

Það er von mín að öll þessi viðfangsefni geti orðið til þess að efla flugstarfsemi í byrjun nýrrar aldar. Og verði til þess að sú mikla gróska sem er í samgöngum og þá sérstaklega flugstarfsemi verði íslensku þjóðinni til heilla.