Í tilefni af 60 ára afmæli Flugmálastjórnar Íslands minnist samgönguráðherra merkra tíma.

Merkra tímamóta Flugmálastjórnar minnst 

Í ár verður merkra tímamóta í sögu flugstarfsemi á Íslandi minnst. Þann 30. janúar 1945 samþykkti Alþingi lög um ,,gerð flugvalla og lendingarstaða fyrir flugvélar“. Í þeim kvað einnig á um ,,sérstaka stjórn flugmála“ og flugmálastjóra. Í lögum þessum var lagður formlegur grundvöllur að flugmálastjórn. Í dag verður opnuð sýning í Ráðhússalnum í Reykjavík þar sem sýndar verða myndir og minjar úr flugsögunni og sextíu ára afmælis Flugmálstjórnar minnst. Það má með sanni segja að frá fyrstu tíð hefur ríkt framsýni og stórhugur hjá þeim sem vörðuðu leiðina til þess ævintýris sem þróun flugsins hefur verið á Íslandi frá fyrstu tíð.

Flugmálastjóri skipaður

Íslendingar hafa verið aðilar að Alþjóða flugmálastofnuninni frá upphafi en stofnsamningurinn var undirritaður á fyrsta ári íslenska lýðveldisins árið 1944. Með þeirri aðild fylgdi krafan um að tryggð væri nauðsynleg stjórnsýsla á vettvangi íslenskrar flugmálastjórnar.
Erling Ellingsen, verkfræðingur, var skipaður fyrsti flugmálastjórinn árið 1945 og tók skipunin gildi hinn 1. júlí það ár og er upphaf Flugmálastjórnar Íslands miðað við þann dag. Embætti flugvallastjóra ríkisins var síðan stofnað 1947 og var Agnar Kofoed-Hansen skipaður í starfið. Erling Ellingsen gegndi starfi flugmálastjóra fram til ársins 1951, en þá var embættið lagt niður. Árið 1954 var embætti flugmálastjóra stofnað á nýjan leik og Agnar Kofoed-Hansen þá skipaður í það. Hann gegndi starfinu allt til dauðadags 23. desember 1982. Pétur Einarsson, lögfræðingur, var skipaður í starfið 1. mars 1983, en lét af því 30. júní 1992. Þá tók við núverandi flugmálastjóri, Þorgeir Pálsson flugverkfræðingur.

Grunnurinn lagður

Eins og þekkt er og oft rætt þá var Reykjavíkurflugvöllur byggður af Bretum í síðari heimsstyrjöldinni og tekinn í notkun árið 1941. Bandaríkjamenn byggðu hinsvegar Keflavíkurflugvöll árið 1942.
Íslendingar byggðu sinn fyrsta flugvöll árið 1946 en þá var Vestmannaeyja-flugvöllur vígður. Næstu árin á eftir voru síðan teknir í notkun flugvellir á Egilsstöðum 1953, Akureyri 1954 og á Ísafirði 1960. Allir þessir flugvellir voru með malarflugbrautir og um margt mjög ófullkomnir.

Grunnurinn að þeirri þjónustu sem Flugmálastjórn veitir í dag fyrir alþjóðlegt flug yfir Norður-Atlantshafi var lagður strax á fyrstu árum stofnunarinnar. Árið 1946 tók Flugmálastjórn við flugumferðarþjónustu á íslenska flugupplýsingasvæðinu, sem þá var umtalsvert minna en það er í dag.

1948 var gerður heildarsamningur við ICAO um rekstur alþjóða-flugþjónustunnar. Nýr samningur, Joint Financing Agreement, var gerður árið 1956 og er hann grundvöllurinn að þeirri mikilvægu þjónustu sem veitt er á Íslandi við alþjóðlegt flug yfir Norður-Atlantshafi í dag.

Í dag eru fjórtán áætlunarflugvellir og fjörutíu og sex lendingarstaðir á landinu.

Þróun flugsins á Íslandi

Starfsemi Flugmálastjórnar hefur vaxið jafnt og þétt. Í dag eru yfir þrjú hundruð starfsmenn í þjónustu Flugmálastjórnar og tengdri starfsemi á vegum ríkisins. Þróun flugsins á Íslandi er samofin starfsemi Flugmálastjórnar og þjónusta við flugstarfsemina hefur með öðru leitt til þess að flugið er að verða með stærstu atvinnuveitendum í landinu. Flugmenn, flugliðar og eftirlitsmenn á vegum opinberra aðila starfa um allan heim vegna flugrekstrar. Alþingi og ríkisstjórnir hafa haft ríkan skilning á þörfinni fyrir uppbyggingu flugvalla og öryggiskerfa til flugumsjónar. Það ber því að fagna því á þessum tímamótum að afkoma flugfélaga hefur ekki í annan tíma verið betri og eru bundnar miklar vonir við að bæði innanlandsflugið, sem nú skilar hagnaði, og millilandaflugið, sem gengur vel, verði sterk stoð til eflingar atvinnulífsins og tryggi okkur þá flutninga sem eru okkur nauðsynlegir jafnt innanlands sem til og frá landinu.

Á þessum tímamótum vil ég í nafni samgönguráðuneytisins þakka þeim fjölmörgu sem hafa starfað fyrir Flugmálstjórn Íslands og vænti þess að flugstarfsemin megi eflast og verða áfram sterk stoð í atvinnulífi okkar Íslendinga.