Við setningu flugþings 23.október 2003 ávarpaði samgönguráðherra gesti.

Góðir gestir ég vil bjóða ykkur öll velkomin til Flugþings.

Ég vil sérstaklega bjóða velkomna alla fyrirlesarana á flugþinginu, en yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Flug í heila öld“, saga og framtíð flugsins. Það verður því horft til fortíðar jafnt og framtíðar hér í dag eins og sjá má af heiti fyrirlestranna sem fluttir verða hér á eftir.

Við erum komin langan veg frá fyrsta flugi þeirra Wright bræðra, fyrir rétt rúmum 100 árum síðan. Það fyrsta flug snerist auðvitað um viðleitni mannsins til að takast á við lögmál flugeðlisfræðinnar. Þeir bræður mörkuðu vissulega spor í mankynssögunni sem sýnast hins vegar dvergvaxin við hlið tækni breiðþotu nútímans.

Síðasta Flugþing var haldið við óvenjulegar aðstæður í skugga hryðjuverkanna 11.september 2001. Flugheimurinn er ekki enn samur eftir þær hörmungar sem gengu yfir þá og kölluðu á margvíslegar aðgerðir á sviði flugöryggismála, sem setja ekki einungis mark sitt á alla þjónustu í fluginu heldur einnig rekstur þeirra flugfélaga sem upp úr standa eftir þann hildarleik sem flugfélögin hafa háð í kjölfarið. Hvað sem því líður þá má með sanni segja að okkur hafi tekist að snúa vörn í sókn í flugrekstri og ferðaþjónustu og er ástæða til þess að minna á þær umfangsmiklu aðgerðir sem ríkisstjórnin tók upp þegar íslenska ríkið gekkst í ábyrgð fyrir flugfélögin vegna trygginga íslenska flugflotans. 

Þær aðgerðir, ásamt farsælum viðbrögðum íslensku flugfélaganna, leiddu til þess að flugsamgöngur við landið eru tryggðar og leiguflugfélögin að færa út kvíarnar og tryggja verkefni til hagsbóta fyrir þá fjölmörgu sem vinna við flugið beint og óbeint.

Þátttaka okkar í alþjóðasamfélaginu og samvinnu á sviði flugs leggur á okkur nýjar kvaðir en opnar jafnframt ný tækifæri. Nýir loftferðasamningar við lönd eins og Japan og Kína opna fyrir áhugaverða möguleika. Íslensk flugfélög eru í útrás og markaðurinn er allur heimurinn, eins og dæmin sýna.

Á Flugþinginu 2001 gerði ég einkum að umræðuefni flugöryggismálin og þær víðtæku og margvíslegu breytingar og aðgerðir sem ráðuneytið hefur staðið fyrir á sviði flugöryggismála. 

Vil ég vísa til þess og geta áhugasamir rifjað það upp með því að kynna sér það á heimasíðu minni, en þar kemur fram hversu mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á löggjöf og starfsemi Flugmálastjórnar og Rannsóknarnefndar flugslysa.

Á grundvelli nýrra laga hefur verið skipað nýtt flugráð undir forystu Gísla Baldurs Garðarssonar lögmanns. Vil ég nota þetta tækifæri til þess að færa þeim flugráðsmönnum þakkir sem skipuðu hið gamla flugráð og þá sérstaklega fv. formanni Hilmari Baldurssyni, sem stýrði ráðinu, en gaf ekki kost á sér til frekari starfa eftir farsælan feril sem formaður.

Það er ástæða til þess að minna á miklar framkvæmdir hér á Reykjavíkurflugvelli, sem unnar hafa verið í samræmi við Samgönguáætlun. Ég vil á þessum vettvangi þakka þann öfluga stuðning sem ég fann frá starfsfólki flugfélaga, og þeim sem vinna við tengda starfsemi, þegar orrustan um framtíð Reykjavíkurflugvallar stóð sem hæst. Ég mátti sæta árásum vegna þess að ég stóð í fylkingarbrjósti við endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar, sem hafði í áratugi verið hornreka í ríkiskerfinu og var látinn drabbast niður með óforsvaranlegum hætti. Í allri þeirri umræðu komu fram þau furðulegu sjónarmið að ráðherra flugmála ætti ekki að hafa skoðun á framtíðarstaðsetningu flugvallarins sem tengir höfuðborgina við landsbyggðina vegna þess að hann væri ekki þingmaður höfuðborgarinnar. Slík sjónarmið eru auðvitað fráleit og þakka ég sérstaklega þeim sem stóðu með mér vaktina í þeirri orrahríð. 

Í dag er völlurinn nýendurbyggður og okkur til sóma, bæði flugbrautir, aðflugsbúnaður og öryggisbúnaður. Er það von mín að sú framkvæmd megi tryggja öryggi í fluginu og auðvelda flugrekendum þá mikilvægu þjónustu við landsmenn og ferðamenn sem nýta sér flugið.

Með endurbótum á flugvöllum landsins er gefinn tónninn um þann aga og þær ríkulegu kröfur til allrar starfsemi í fluginu sem ég tel að við eigum að gera og eðlilegt er að gera.

Flugöryggismálin eru þýðingarmikil og er vaxandi áhersla lögð á þau af hálfu stjórnvalda og í starfi allra, sem að fluginu koma.
En auðvitað má alltaf betur gera og hvergi má slaka á þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra sem hafa á hendi flugrekstur á Íslandi.
 
Um leið er mikilvægt að vinna stöðugt að þróun löggjafar, reglugerða og öryggiskerfa og bættum vinnubrögðum hjá flugrekendum, flugliðum, flugmálastjórn, Rannsóknarnefnd flugslysa, ráðuneyti, og öðrum þeim sem starfa við flug og flugþjónustu.

Góðir gestir, á síðasta flugþingi ræddi ég um nokkur atriði sem ég taldi nauðsynlegt að færa til betri vegar til að auka á flugöryggi. Þeirri vinnu hefur miðað vel áfram og hafa flest þau viðfangsefni sem ég taldi þá upp verið afgreidd.

Lög um flugvernd tóku gildi í mars 2002. Markmið með þeirri löggjöf er að vernda flugsamgöngur gegn ólögmætum aðgerðum og tryggja öryggi flugfarþega, áhafna og almennings. Í samræmi við þau lög var staðfest samræmd flugverndaráætlun til næstu ára fyrir Ísland annars vegar og eftirlitsskylda aðila hins vegar.

Flugöryggissvið Flugmálastjórnar hefur flutt í nýtt og hentugra húsnæði og er öll aðstaða þar nú til fyrirmyndar.

Eftirlitsvald og úrræði Flugmálastjórnar gagnvart flugrekendum hafa verið treyst í loftferðarlögum

Reglugerð um flugvelli er á lokastigi en í þágu flugöryggis verða flugvellir og flugstöðvar á Íslandi gerð starfsleyfisskyld.

Og að lokum nefni ég aftur að endurbygging Reykjavíkurflugvallar er eitt mikilvægasta skrefið sem stigið hefur verið í flugöryggismálum um langt skeið.
Flugöryggismál eru eilífðarverkefni og þó að góður árangur hafi náðst á liðnum árum má aldrei sofna á verðinum heldur sífellt að leita leiða til að gera enn betur.

Ágætu þingfulltrúar. 
Þegar litið er til baka á þeim tímamótum að 100 ár eru liðin frá því að flug hófst er mikilvægt að horfa til framtíðar. Hver eru mikilvægustu verkefni okkar í fluginu á næstu árum og áratugum? Hver eru áform flugfélaganna?
Verkefnin blasa við okkur.

Í veröldinni allri gegnir flugið stöðugt mikilvægara hlutverki í opnum heimi gagnkvæmra og vaxandi viðskipta sem eru án landamæra þar sem ferðaþjónusta er stærsti atvinnuvegur veralda.
Fyrir okkur Íslendinga er flugið grundvallar þáttur í samgöngukerfi landsins. Ekki einungis vegna flugsamgangna til og frá landinu heldur einnig vegna innanlandsflugsins, sem vissulega er mikilvægur hlekkur í flutningakerfi landsins

Ég hef ákveðið að hefja  vinnu við endurskoðun á allri stjórnsýslu og þjónustu Flugmálstjórnar og leggja upp nýtt framtíðarskipulag flugmála í landinu.

Hilmar Baldursson fyrrv. formaður Flugráðs mun stýra þeirri vinnu.

Gert er ráð fyrir að þessi vinna standi næstu tíu mánuði og að ég geti lagt fyrir ríkisstjórn og Alþingi þær breytingar á löggjöf sem talið er nauðsynlegt að gera haustið 2004.
Vænti ég góðs samstarfs við alla þá sem til verður leitað um samráð vegna þessa starfs og er þess að vænta að samráð geti orðið með fundarhöldum og með kynningu á Netinu.

Þá geri ég ráð fyrir að leggja fram á þessu hausti frumvarp til nýrra laga um Rannsóknir flugslysa en vinna við það frumvarp er á lokastigi.

Ágætu Flugþingsfulltrúar.
Ég vil þakka þeim sem hafa komið að undirbúningi þessa Flugþingsins og vænti frjórrar umræðu hér í dag.