Forgangsröðun vegaframkvæmda er vinsælt umræðuefni. Kröfur um umbætur á vegakerfinu, til aukins öryggis, eru stöðugt vaxandi eins og eðlilegt er og hefur verið gert mikið átak á því sviði og verður áfram samkvæmt nýsamþykktri samgönguáætlun.
Því miður er fremur lítið um málefnalega umræðu eða rökræður um framkvæmdir í vegamálum á öðrum nótum en þeim er snerta ríka svæðisbundna hagsmuni. Það var m.a. með það í huga sem ég beitti mér fyrir nýrri löggjöf um samgönguáætlun, þar sem sett væru fram skýr markmið og leiðir, sem vinna ætti eftir við uppbyggingu og rekstur allra samgöngumannvirkja, þ.e.a.s. vegamála, flugmála og hafnamála. Við undirbúning og afgreiðslu slíkrar áætlunar er mikilvægt að gefa færi á rækilegri umfjöllun. Ég tel að við undirbúning þeirrar samgönguáætlunar, sem nú er í gildi, hafi tekist að koma á gagnlegri og málefnalegri umfjöllun sem hafi leitt til þess að ágætt samkomulag varð þegar Alþingi samþykkti samgönguáætlun.

Villandi umræða
Fimmtudaginn 26. júní var í Morgunblaðinu að finna frásögn frá kynningu Háskólans á Akureyri á skýrslu um forgangsröðun framkvæmda í vegamálum. Fréttin var undir fyrirsögninni „Breytinga þörf við útdeilingu fjár til vegamála“. Undirritaður hefur haft tækifæri til þess að kynna sér þessa skýrslu og vill koma nokkrum atriðum á framfæri af þessu tilefni. Ekki síst vegna þess hversu Morgunblaðið tók afgerandi afstöðu til skýrslunnar og túlkaði efni hennar í fyrirsögn blaðsins.

Ástæða er til þess að fagna umfjöllun háskólamanna um samgöngumál.
Skýrsla Háskólans er hins vegar greinilega unnin áður en ný samgönguáætlun var samþykkt á Alþingi og ber að skoða hana í því ljósi. Skýrslan gefur þannig alranga mynd af vinnubrögðum, sem nú eru tíðkuð í samgönguráðuneytinu og voru mótuð á síðasta kjörtímabili. Slík umfjöllun gefur tilefni til villandi umræðu, enda byggð á röngum forsendum. Ber að harma slík vinnubrögð, ekki síst þegar litið er til þess að skýrslan mun hafa verið unnin með styrk frá Vegagerðinni. Hefðu átt að vera hæg heimatökin að kynna sér betur forsendur mála hjá viðkomandi stofnunum þar sem Samgönguráð vann að undirbúningi í samræmi við lög um samgönguáætlun frá 17. maí 2002.

Breytt vinnubrögð
Í löggjöf um samgönguáætlun er gert ráð fyrir vettvangi til rökræðu með aðkomu „hagsmunaðila og sérfræðinga“. Samgönguráði er gert að efna til opinnar umræðu í aðdraganda þess að settar eru fram tillögur til ráðherra um samgönguáætlun sem felur í sér forgangsröðun. Í samgönguráði sitja vegamálastjóri, siglingamálastjóri, flugmálastjóri og formaður sem skipaður er af ráðherra. 
Í 3. grein laga um samgönguáætlun segir m.a.:

„Samgönguráð skal minnst einu sinni við gerð nýrrar samgönguáætlunar standa fyrir samgönguþingi sem ætlað er að veita ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar. Til samgönguþings skal öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála boðið. Á samgönguþingi skal gera grein fyrir fyrirhuguðum forsendum og markmiðum áætlunarinnar. Samgönguráð skal hafa samráð við hagsmunaaðila eins og ástæða þykir til hverju sinni.“

Samkvæmt lögum skal leggja fram samgönguáætlun til tólf ára og skal hún endurskoðuð á fjögurra ára fresti. Er þar um að ræða rammaáætlun um tekjur og helstu framkvæmda- og rekstraráform. Jafnframt skal leggja fram fjögurra ára framkvæmda- og rekstraráætlun sem skal endurskoða á tveggja ára fresti. Nú er í gildi rammaáætlun sem nær til tímabilsins 2003 til 2014 og framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 2003 til 2006. Þessar áætlanir eru byggðar á vandaðri undirbúningsvinnu og miklu samráði við embættismenn stofnana, sérfræðinga á sviði samgöngumála, sveitarstjórnarmenn og stjórnmálamenn.

Forsendur skýrt skilgreindar með breyttum vinnubrögðum
Þingsályktunin um samgönguáætlun kemur í stað sjö annarra áætlana samgöngumála sem Alþingi samþykkti áður. Með henni er áætlanagerð flugmála, siglingamála og vegamála samræmd og tekin upp ný vinnubrögð sem gera verður ráð fyrir að þróist áfram í framtíðinni.
Í samgönguáætlun er nú í fyrsta sinn skilgreint grunnnet samgangna sem tekur til flugvalla, hafna og vega. Samgönguáætlun miðast við að uppbygging vegakerfi grunnnetsins verði forgangsmál næstu tólf árin.

Í samgönguáætluninni eru sett fram fjögur meginmarkmið fyrir samgöngumál almennt auk markmiða fyrir viðhald, þjónustu og uppbyggingu grunnnetsins. Vísað er til greinargerðar með þingsályktunartillögu um samgönguáætlun þar sem markmiðin koma fram. Nýmæli er að setja fram markmið með þessum hætti í áætlunum samgöngumála. Þessari aðferðafræði er ætlað að auðvelda Alþingi að fjalla um samgöngumál í stærra samhengi. Þegar litið er á markmið vegaframkvæmda skín nokkuð í gegn að áherslumunur er á þeim eftir því hvort horft er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar. Á landsbyggðinni er unnið að því að byggja upp vegakerfið í grunnnetinu þannig að það uppfylli lágmarkskröfur og auki öryggi. Dýrari framkvæmdir á landsbyggðinni miðast einkum við að tengja byggðarlög, atvinnu- og þjónustusvæði. Hins vegar er á höfuðborgarsvæðinu unnið að því að auka afköst grunnkerfisins, auka öryggi og koma til móts við umhverfissjónarmið. Það er Alþingi sem á endanum ákveður heildarfjárframlag til uppbyggingar samgöngumála hér á landi og markar stefnuna sem unnið er eftir í öllum landshlutum.

Að lokum vil ég taka það fram að það er mín skoðun að umræða um svo mikilvægt málefni sem forgangsröðun sé af hinu góða. Það verður hins vegar að gera þá kröfu til háskólastofnana og sérfræðinga í samgöngumálum að þeir hafi heildarmyndina fyrir sér og fjalli um hlutina eins og þeir eru, en ekki um það sem var, þegar gerðar eru tillögur um framkvæmdir til næstu ára. Það er vissulega hlutverk stjórnmálamanna að taka tillit til ólíkra sjónarmiða við uppbyggingu samgangna s.s. öryggis notenda samgöngukerfisins, hagkvæmni, aðgengis íbúanna að þjónustu, byggðaþróunar og umhverfissjónarmiða. Það er von mín að sem flestir taki þátt í umræðum og taki afstöðu til framkvæmda í samgöngumálum og geri það á málefnalegan hátt.