Grein þessi birtist á Pressan.is.
Í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 2. maí 2008 fjallaði ég um aðild Íslands að Evrópusambandinu og sagði m.a.: „Eftir mikið góðærisskeið höfum við Íslendingar ratað í efnahagslægð sem ógnar stöðu okkar. Við þurfum því að leggja alla áherslu á að ná vopnum okkar innanlands og tryggja aftur stöðugleikann í efnahagsmálum, áður en við hugum að viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Við getum ekki og eigum ekki að koma á hnjánum til forystumanna Evrópusambandsins og óska inngöngu vegna efnahagslegra vandræða. “Þessi afstaða mín var skýr vorið 2008  og ég tel að hún eigi  ekki síður við  í dag. Það blasir við að fulltrúar Evrópusambandsins eru á höttunum eftir aðgangi að auðlindum okkar með alla vasa úttroðna af evrum. Tilbúnir til þess að kaupa upp flotann og félögin sem hafa aflaheimildir og nýtingarréttinn á auðlindum.  Það má aldrei verða að Samfylkingin ráði því að við semjum frá okkur fullveldi og yfirráð yfir auðlindum okkar. Björgunaraðgerð Samfylkingarinnar gæti orðið dýrkeypt fórn.

Miklar efasemdir um Evrópusambandið

Ég er einn þeirra fjölmörgu sem hafa miklar efasemdir um að við eigum að verða hluti af Evrópusambandinu. Afstaða mín gagnvart aðild Íslands að Evrópusambandinu er ekki byggð á fordómum gagnvart sambandinu eða íbúum Evrópuríkjanna sem eru hluti ESB. Afstaða mín er byggð á hagsmunamati og tilfinningu minni fyrir sjálfstæði smáþjóða. Svo fámenn þjóð sem Ísland er getur ekki verið sjálfstæð innan Evrópusambandsins eins og kaupin gerast þar á eyrinni.

Fámenni og lega landsins gerir það að verkum að við hljótum að verða að tryggja hagsmuni okkar með raunverulegu sjálfstæði og ótvíræðum yfirráðum okkar yfir auðlindum  og samningum við aðrar þjóðir á jafnréttisgrundvelli. Við getum ekki hlaupið yfir landamærin þegar á bjátar eins og Danir, Svíar eða Finnar geta gert. Reynsla okkar af samstarfi við Evrópuþjóðirnar síðustu mánuði er auk þess með þeim hætti að þar er ekki vinum að fagna meðal stjórnmálamanna þegar á reynir. Bæði Norðmenn og Evrópusambandsþjóðirnar sýndu okkur ótrúlegan fantaskap þegar  kreppan reið hér yfir með öllum þeim vandræðum sem henni hafa fylgt. Við vorum þjóð í nauðum stödd þegar leiðtogar þessara landa réðust raunverulega  gegn okkur.

Hversu illa sem íslenskir viðskiptajöfrar hafa komið fram á markaðstorgum Evrópu, þar sem enginn er annars bróðir í leik, þá réttlætti það ekki að Bretar og Norðurlandaþjóðirnar beittu afli sínum gegn íslensku þjóðinni þegar við  leituðum á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þeirrar alþjóðastofnunar sem við höfum verið aðilar að frá stofnun og höfum treyst.   

Í mínum huga var aðildin að Evrópusambandinu slegin út af borðinu þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn okkur og Norðurlöndin létu það viðgangast að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stöðvaði afgreiðslu okkar mála að kröfu Breta og Hollendinga.  Enn er það mál óafgreitt hjá sjóðnum og forsætisráðherra þjóðarinnar hreyfir hvorki legg né lið til sóknar eða varnar.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er partur af alþjóðlegu öryggiskerfi á sviði efnahagsmála og það er fullkomlega eðlilegt að við leitum þangað ef aðstæður krefjast. En við eigum ekki að sætta okkur við það að fyrrum nýlenduþjóðir dragi fram gamlar starfsaðferðir og nýti þær gegn aðildarþjóðum innan alþjóðastofnunar í krafti stærðar sinnar með stuðningi Evrópusambandsríkjanna.

Það eru fleiri þjóðir en við Íslendingar sem hafa þurft að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrrverandi forsætisráðherra Svía, Göran Persson, hefur lýst í viðtali ferð sinni í þær herbúðir þar sem hann, fulltrúi sænska konungsdæmisins, þurfti að leita á náðir  sjóðsins. Við þær aðstæður þarf styrk og skilning vinaþjóða.  Bretar sýndu það gagnvart okkur að þeir voru tilbúnir til þess að kyrkja okkur í snöru gallaðra reglna Evrópusambandins. Þær reglur  sköpuðu óvönduðum bankamönnum möguleika til þess að veðsetja  bæði beint og óbeint komandi kynslóðir Íslendinga vegna græðgi breskra og hollenskra einstaklinga sem tóku áhættu með því að leggja sparifé sitt inn á ofurvaxtareikninga sem viss áhætta hlaut að fylgja. En bankahrunið og reynsla okkar af því hlýtur að setja mark sitt á alla umræðu um hugsanlega aðild að ESB.

Treysti ekki ríkisstjórninni til að fara með samninga við ESB

Það er í raun stutt síðan Ísland varð frjálst og fullvalda ríki og einungis sextíu og fimm ár síðan lýðveldið var stofnað. Samskipti okkar við aðrar þjóðir eru mikilvæg og það þarf að vanda hvert skref sem stigið er. Samstarf við aðrar þjóðir eða ríkjabandalög felur í sér að við afsölum valdi eða rétti um leið og við sækjum einhvern rétt okkur til handa. Út á það ganga samningar milli ríkja. Það þarf  margt að breytast til þess að ég geti fallist á inngöngu í Evrópusambandið og ég treysti ekki ríkisstjórninni  til þess að fara með þau mál. Hún er búin að sýna fulltrúum Evrópusambandins á öll sín spil og hefur enga samningsstöðu. Ríkisstjórnin hefur auk þess ekki meirihluta innan sinna raða til þess að fylgja málinu eftir. Óskin um viðræður er því í raun og veru byggð á blekkingum nema Vinstri grænir ætli að falla frá sínum fyrirvörum.   Staða utanríkisráðherrans  er því sérstök og  nánast vonlaus. Hann nýtur lítils trausts til þessa mikilsverða verkefnis að fylgja eftir samþykkt Alþingis um að hefja viðræður við Evrópusambandið  með bakland stjórnarflokkanna klofið og tvístrað.   Utanríkisráðherra hefði verið í mun betri stöðu ef hann hefði í höndum umboð þjóðarinnar til þess að hefja viðræður eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort ganga ætti til viðræðna á grundvelli tiltekinna samningsforsendna sem unnið væri eftir í viðræðum gagnvart samningamönnum ESB. Það lið fer nú um Írland og heldur því fram að Ísland sé gjaldþrota vegna þess að við vorum ekki hluti af ESB þegar bankakreppan skall á okkur. Áróðursmeistarar Evrópusambandsins reyna þannig að fegra ESB á okkar kostnað til þess að lokka Íra til að samþykkja svokallaðan Lissabon-sáttmála.

Breytt heimsmynd

Við Íslendingar búum við gjörbreytta heimsmynd. Eftir efnahagshrunið og eftir að Bandaríkjamenn kölluðu burt varnarliðið er staða okkar Íslendinga önnur en áður var. Við eigum því að stokka upp öll okkar samskipti við aðrar þjóðir í þeim tilgangi að skapa okkur sterkari stöðu til sóknar og varnar. Annarsvegar til þess að endurheimta traust og stöðu í samfélagi þjóðanna og hinsvegar  til þess að skapa okkur sóknarfæri og samningsstöðu á nýjum forsendum og á grundvelli nýrra vinnubragða þeirra sem best þekkja til verka. Við eigum að leggja áherslu á sterka stöðu okkar vegna legu landins þegar vaxandi umferð á hafinu þarfnast þjónustu hér vegna nýrra  siglingaleiða við landið. Við eigum jafnframt að leggja áherslu á nýtingu mikilvægra auðlinda hafsins, vatnsafls, jarðvarma og virkjun sjávarfalla. Og  við eigum að leggja áherslu á vottaða vistvæna matvælaframleiðslu sem skapar okkur sérstöðu í stað þess að láta draga okkur inn í regluverk ESB sem leggur landbúnaðarframleiðslu okkar í rúst og ógnar stöðu sjávarútvegsins með því að við verðum nauðbeygð til þess að taka upp sjávarútvegsstefnu ESB.

Um þessar mundir er allt stjórnkerfið upptekið við það að svara spurningum Evrópusambandins, svo sem um það „hversu mörg kjarnorkuver séu á Íslandi“. Það er mikil tímasóun í stað þess að vera að sækja á ný mið um samstarf við þjóðir sem við eigum að leggja áherslu á að tengjast meira. En til þess þarf að vinna skipulega og setja upp sóknaráætlun bæði innávið og útávið.
Við megum engan tíma missa. Það er nauðsynlegt að endurskipuleggja stjórnarráðið miðað við breyttar aðstæður. Stokka verður upp utanríkisþjónustuna og beina henni inn í viðræður og samninga  um samstarf á nýjum forsendum. Með viðræðum við Bandaríkin, Kanada, Rússland,  Kína, Noreg og Evrópusambandsríkin ætti að leggja upp spurningar um það á hvaða sviðum við gætum átt samstarf á nýjum forsendum í breyttri heimsmynd sem kallar á ný vinnubrögð í samstarfi okkar við aðrar þjóðir.  Við eigum að nýta þann mikla mannauð sem hefur fengið þjálfun í atvinnulífinu í uppsveiflunni, ekki síst innan banka og fjármálastofnana. Við megum ekki hrinda því fólki frá okkur vegna mistaka stjórnenda  fjármálafyrirtækja og eftirlitsaðila. Við eigum hinsvegar að leita allra leið til þess að fá þetta unga fólk, sem nú býr við óvissu, til verka, m.a. á sviði erlendra samskipta og til þess að stokka upp spilin og tryggja að við nýtum þau tækifæri sem við höfum. Þannig náum við  vopnum okkar á nýjan leik við framleiðslu og sölu þeirra verðmæta sem felast í nýtingu auðlinda okkar. Við megum ekki leggja árar í bát og bíða þess að Evrópusambandið „bjargi“ okkur. Það mun ekki gerast.  Við verðum sem fyrr að treysta á afl okkar, framtak og vel menntaða og kjarkmikla þjóð sem vill standa á eigin fótum. En til þess þarf þjóðin öfluga leiðtoga.