Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, var einn þriggja frummælenda á vetrarhátíðinni „Ljósið í Myrkrinu“, sem haldin var í landnámssetrinu í Borgarnesi í fyrsta sinn, laugardaginn 14. febrúar 2008.  Að vetrarhátíðinni stóð „All Senses“ hópurinn, sem er samstarfsvettvangur ferðaþjónustufyrirtækja á Vesturlandi sem vinna saman að því að kynna svæðið sem áfangastað ferðamanna.

Ávarp Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, af þessu tilefni:

Auðlindin Ísland  Vesturland
Hvernig náum við árangri í að efla atvinnulífið á Vesturlandi? Við gerum það með því að efla ferðaþjónustu á svæðinu!
Ágætu fundarmenn. Ég hef kosið að nefna þetta ávarp mitt ,,Auðlindin Ísland – Vesturland“ og legg í þann leiðangur að skoða auðlindina Vesturland með því að varpa fram spurningunni: Hvernig náum við árangri í að efla atvinnulífið á Vesturlandi? Og svar mitt er hiklaust. Við gerum það með því að efla ferðaþjónustu á svæðinu! Áður en lengra er haldið vil ég óska nýskipuðum ferðamálastjóra góðs gengis í vandasömu starfi.
Ég vil þakka fyrir að vera boðið til þessa fundar.
Það er ekki síður verkefni mitt sem forseta Alþingis að stuðla að eflingu atvinnuveganna en verkefni mitt sem 1. þingmanns Norðvesturkjördæmis. Því fagna ég hverju tækifæri sem mér gefst til að fylgjast með framvindu menningar- og atvinnumála.
Síðustu átta mánuði hef ég nánast verið í þagnarbindindi um samgöngumál. Ég hef látið vera að ræða um málaflokka samgönguráðherra eftir að hafa fjallað um þá nánast nótt sem dag síðustu átta árin. Þar á meðal eru ferðamál. Sá tími er nú liðinn; nú hef ég hætt þessu samgöngumálabindindi. Sem þingmaður Norðvesturkjördæmis mun ég taka til hendinni í öllum málaflokkum sem varða kjördæmið og beita mér jafnframt sem forseti Alþingis í því mikilvæga hlutverki að bæta hag okkar til búsetu í okkar fagra landi.
Því samþykkti ég að taka hér til máls um það áhugamál mitt sem ferðaþjónustan á Vesturlandi er. Ég mun hér í dag gera grein fyrir sjónarmiðum mínum ef það gæti orðið til þess að vekja umræður og verða lítið lóð á vogaskál til þessarar mikilvægu atvinnugreinar sem ferðaþjónustan er.
Það má segja að allt hafi sinn tíma í  framvindu framfara og þróunar.
Árið 1982 stóð ég fyrir því sem formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi að Ferðamálasamtök Vesturlands voru stofnuð í þeim tilgangi að gott og öflugt fólk á vettvangi ferðaþjónustunnar tæki höndum saman við að efla þessa mikilvægu atvinnugrein í landshlutanum. Í dag hefur „All Senses“ hópurinn tekið upp merkið og vinnur að markmiðinu sem kristallast í einkennisorði Ferðamálasamtaka Vesturlands: „Kæri gestur, komdu vestur“
Tuttugu árum eftir stofnun Ferðamálasamtakanna fékk ég í hendur sem samgönguráðherra skýrsluna „Auðlindin Ísland“ sem ég fól öflugu fólki í samgönguráðuneytinu og Ferðamálastofu að vinna. Hugmyndina að vinnu við stefnumótun og tillögugerð sem bæri vinnuheitið Auðlindin Ísland fékk ég á fundi í Þýskalandi þar sem fólk úr samgönguráðuneytinu og ferðamálastjóri var í kynningarferð. Þau Magnús Oddsson, þáverandi ferðamálastjóri, og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, höfðu forustu um þessa vinnu og þau skiluðu því verkefni með miklum sóma.


Eftir þeirri leiðarlýsingu var síðan unnið með hreint ótrúlegum árangri. Um svipað leyti var jafnframt unnið að tillögum um heilsutengda ferðaþjónustu í starfshópi sem ég skipaði undir stjórn Önnu Sverrisdóttur, markaðasstjóra Bláa lónsins, og um menningartengda ferðaþjónustu en vinnuhópi sem þá skýrslu vann stýrði Tómas Ingi Olrich, núverandi sendiherra. Eftir þeim tillögum hefur verið unnið og þær aðgerðir sem fylgdu skiluðu okkur vel fram á veginn.
Það er verkefni okkar að leggja á ráðin um hvernig við getum náð enn betri árangri t.d. næstu tvo áratugi svo að hér verði hægt að koma saman árið 2028 og meta stöðuna og horfa þá til framtíðar með sama hætti og við gerum hér í dag. Árið 1982 þegar Ferðamálasamtökin voru stofnuð höfðum við mun minni efni til aðgerða en við höfum í dag.
Til þess að móta framsæknar tillögur fyrir Vesturland þurfum við:
1.                  að átta okkur á því hvað við höfum verið að gera,
2.                  að átta okkur á því hvaða árangri við höfum náð síðustu árin og
3.                  að átta okkur á því hvað hefur verið vel gert í ferðaþjónustu
… þessari þriðju stærstu atvinnugrein okkar Íslendinga.
Til þess að draga fram staðreyndir vil ég gera grein fyrir nokkrum tölum sem sýna þróun og árangur.
Fjöldi erlendra gesta:
Árið 1997 komu 201 þúsund erlendir ferðamenn til landsins, árið 2007 komu um það bil 480 þúsund..
Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum samkvæmt Seðlabanka:
Árið 1997 voru gjaldeyristekjur okkar af ferðaþjónustunni  21 milljarður, en árið 2007 námu þær 54 milljörðum (samkvæmt áætlun).
Gistinætur á Vesturlandi samkvæmt Hagstofunni:
Árið 1998 voru 95.935 gistinætur á Vesturlandi, en árið 2006 172.582 gistinætur.
Aukning í sölu gistinátta á Vesturlandi er um 80% á þessu tímabili en aukningin á landsvísu  um 60% svo hlutur Vesturlands hefur aukist umfram heildina. En auðvitað viljum við fleiri gistinætur. Til þess þarf að fjölga hótelherbergjum, rúmum og auka framboð þjónustu.
Lenging ferðamannatímans og aukin framlög til markaðsmála:
Unnið hefur verið að því að lengja ferðamannatímann sem er mjög mikilvægt til þess að nýta betur fjárfestinguna sem liggur í hótelum og annari uppbyggingu. 
Sem dæmi má nefna að fjöldi erlendra gesta í október sl. var sá sami og í júlí fyrir 10 árum.
Með öðrum orðum má sjá breytinguna á því að umfangið í október er orðið það sama og um hásumarið fyrir aðeins 10 árum. Það hefur því náðst mikill árangur í þessu.
Til þess að ná þessum árangri á landsvísu þurfti að vinna skipulega á öllum sviðum. Það var gert á vettvangi samgönguráðuneytisins og Ferðamálastofu í samstarfi við fulltrúa ferðaþjónustunnar í öllum landshlutum.
Framlög til markaðsmála:
Stærsti áhrifavaldurinn að mínu mati var öflugt landkynningar- og markaðsstarf.
Opinbert fjármagn til beinnar almennrar landkynningar og ímyndarsköpunar á árunum 1999-2007 er um 1,5 milljarðar. Með þeim fjármunum hefur verið mögulegt að fá aðra aðila til samstarfs um þennan mikilvæga þátt, þ.e. almenna landkynningu og ímyndarsköpun.
Þetta hefur m.a. gerst með stofnun verkefnanna IcelandNaturallybæði í Norður-Ameríku og í Evrópu, svo og samstarfsverkefna innan lands og utan sem oft hafa verið kölluð „króna á móti krónu“” aðgerðin.
Þessi verkefni eru auðvitað umfram stöðuga vinnu Ferðamálastofu í New York, Frankfurt, London og Kaupmannahöfn og þá markaðssetningu sem fyrirtækin vinna fyrir sig og til að koma sinni vöru og þjónustu á framfæri við neytendur.
Með þessa opinberu fjármuni til ráðstöfunar hefur tekist að fá nálægt 700 milljónir frá fyrirtækjum til þessa mikilvæga samstarfs.
Þannig hafa þessar 1.500 milljónir í reynd orðið um 2,2 milljarðar, þegar litið er til heildarfjármagnsins á þessum 8 árum, til almennrar landkynningar og ímyndarsköpunar.
Við höfum náð árangri þegar litið er á landið sem heild. Það getum við séð með því að bera árangur okkar saman við árangur annarra landa.
Borið saman við Norðurlönd:
Í mars á síðasta ári vann Ferðamálastofa skýrslu, að beiðni samgönguráðuneytis, sem fjallaði um rekstrarskilyrði ferðaþjónustu á Íslandi í samanburði við Noreg, Svíþjóð og Danmörku. Ísland er samkeppnishæfast af löndunum fjórum þegar litið er til samanburðar World Economic Forum árið 2006 þar sem metnir voru 13 þættir sem snúa að samkeppnishæfni 124 landa í ferðaþjónustu. Ísland er þar í 4. sæti af heildinni, Noregur er númer 11, Svíþjóð í 17. sæti og Danmörk í því 23.
Umfang í ferðaþjónustu hefur aukist hlutfallslega mest á Íslandi af samanburðarlöndunum þegar skoðuð eru árin 1999-2005 eða um 32,5% í gistinóttum talið. Vöxtur í Svíþjóð er 12,8%, í Noregi 7,5% en í Danmörku er engin aukning á þessu tímabili.
Hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu er hæst á Íslandi og hefur því atvinnugreinin meira vægi í íslensku hagkerfi en í hagkerfi samanburðarlandanna.
Í Noregi er hlutfallið lægst 2,4%, þá kemur Svíþjóð með hlutfallið 2,7%, í Danmörku er það 3,0%, en á Íslandi er hlutfallið langhæst, eða 6,3%!
Umræður um starfsumhverfi ferðaþjónustunnar á Íslandi eru eðlilega stöðugar.
Skattaumhverfið á Íslandi er betra til fyrirtækjarekstrar en í samanburðarlöndunum. Skattur á hagnað fyrirtækja, sem og skattur af arðgreiðslum, er umtalsvert lægri eins og sjá má af þessum tölum.






















Ísland

Noregur

Svíþjóð

Danmörk

Fyrirtækjaskattur

18%

28%

28%

28%

Skattur af arðgreiðslum

10%

28%

30%

28%

Fyrirtæki á Íslandi greiða lægra hlutfall hagnaðar til ríkisins og eigendur fyrirtækjanna greiða lágt hlutfall af arði til ríkissjóðs.
Virðisaukaskattur á Íslandi er á öllum stigum með lægri skattprósentu en samanburðarlöndin:








































Ísland

Noregur

Svíþjóð

Danmörk

Almenn skattprósenta

24,5%

25%

25%

25%

Matvæli

7%

13%

12%

25%

Hótel

7%

8%

12%

25%

Hópferðabifreiðar

0%

8%

6%

25%

Ferðaskrifstofur

0%

25%

25%

25%

En hvar sjáum við árangur ferðaþjónustunnar á Vesturlandi?
·         Við sjáum árangurinn í stóraukinni umferð inn á svæðið samkvæmt talningu Vegagerðarinnar. Það hefur m.a. gerst með bættum samgöngum og betri þjónustu.
·         Við sjáum hann í mikilli fjölgun ferðamanna sem gista á hótelum, gistiheimilum, bændagistingu, í viðskiptum við veiðihús, í eftirspurn eftir hvers konar afþreyingu
·         Dalamenn hafa unnið þrekvirki á Eiríksstöðum við að byggja upp aðstöðu á Laugum í Sælingsdal og við uppbyggingu Leifsbúðar og Sturlustofu í Búðardal.
·         Umfangsmikil þjónusta við innlenda og erlenda veiðimenn við lax- og silungsveiðar í öllum sveitum Vesturlands.
·         Umfangsmikil uppbygging í hestatengdri ferðaþjónustu.
·         Uppbygging ferðaþjónustu í Flatey á Breiðafirði.
·         Umhverfisvottun innan allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi á forsendum Green Globe vottunarkerfisins.
·         Stofnun Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og uppbygging gestastofu í tengslum við hann.
·         Umfangsmiklar úrbætur á fjölförnum ferðamannastöðum.
·         Vatnasafnið í Stykkishólmi, sem hefur vakið athygli.
·         Mjög athyglisverð uppbygging Sögumiðstöðvarinnar í Grundarfirði.
·         Þjónusta Sæferða í Stykkishólmi vegna siglinga um Breiðafjörð sem er trúlega einhver árangursríkasta nýsköpun á svæðinu og varð í raun til þess að stórefla ferðaþjónustu á Snæfellsnesi.
·         Starfsemi Snjófells á Arnarstapa við ferðir á Jökulinn.
·         Mikil uppbygging golfvalla, sundstaða og annarra íþróttamannvirkja á Vesturlandi frá Akranesi allt vestur í Dalasýslu.
·         Veruleg uppbygging hótela og gistiheimila að Laugum í Sælingsdal, Stykkishólmi, Grundarfirði, Snæfellsbæ, Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit.
·         Veruleg uppbygging bændagistingar á Vesturlandi öllu.
·         Einstök og fjölþætt uppbygging ferðaþjónustu á Húsafelli.
·         Stórbrotin uppbygging menningartengdrar ferðaþjónusta á kirkjustaðnum Reykholti þar sem þjónustuaðstaða hefur verið byggð upp sem nýtist öllu héraðinu.
·         Uppbygging hjá söfnum á Vesturlandi öllu á vegum einstaklinga og sveitarfélaga.
·         Einstök menningarmiðstöð Landnámssetursins í Borgarnesi sem byggist á frábærri viðskiptahugmynd sem á mikla uppbyggingarmöguleika.
·         Uppbygging sumarhúsabyggðar og tjaldsvæða um allt Vesturland.
·         Hvalfjarðargöngin hafa stóraukið umferð um svæðið, aukið sumarhúsabyggð og tvöfalda búsetu.
·         Mikil uppbygging atvinnulífsins á Akranesi og Grundartanga sem hefur leitt til aukinna viðskipta við ferðaþjónustufyrirtækin á svæðinu.
·         Stofnun og rekstur upplýsinga- og kynningarmiðstöðvar Vesturlands.
Allt þetta er öflugum frumkvöðlum á Vesturlandi að þakka.
Allt það sem ég hef hér að framan talið upp er vissulega gott en við þurfum að horfa fram á veginn og leita leiða til þess að ná enn betri árangri.
Hvað þarf að gera til þess að ferðaþjónustan á Vesturlandi eflist og taki við sem leiðandi þáttur í nýsköpun atvinnulífsins?
Leita verður allra leiða til þess að bæta ímynd Vesturlands með gæði og fagmennsku að leiðarljósi
Gæði og fagmennska:
·         Gæði allrar vöru og þjónustu verði megináhersluatriði á öllum sviðum.
·         Menntun og fagmennska ferðaþjónustunnar verði byggð á traustum grundvelli háskólastarfs og með samstarfi menntastofnana á Vesturlandi.
·         Þróun greinarinnar verði m.a. byggð á rannsóknum háskólanna.
·         Leggja ber áherslu á umhverfismálin til þess að ná markmiðum um gæði og fagmennsku.
·         Menningartengd ferðaþjónusta með ríka áherslu á söguna verði lykilþáttur í uppbyggingu.
·         Aukin áhersla verði lögð á heilsutengda ferðaþjónusta með því að nýta hveravatnið og lækningamátt þess.
·         Gæði og fagmennska verði til þess að skapa orðspor sem selur landshlutann.
·         Landkynning og markaðssetning Vesturlands miðist við það fyrst og fremst að við getum laðað til okkar ferðamenn og viðskipti vegna einstakrar náttúru, menningar, sögu og verðmætra gæða sem gefa miklar tekjur.
Að lokum:
Uppbygging ferðaþjónustunnar er enn þá þróunarverkefni. Því er eðlilegt að stjórnvöld komi verulega að stuðningi við að efla þessa mikilvægu grein.
·         Ríkissjóður verður að leggja fram að nýju verulega fjármuni til markaðsaðgerða til þess að ná þessum markmiðum og tryggja þannig uppbyggingu sem skilar sér með auknum tekjum og fjölbreyttri atvinnu.
·         Leggja ber áherslu á endurnýjun menningarsamninga sem gerðir hafa verið með stórauknu framlagi ríkisins og sveitarfélaga.
·         Leita þarf samstarfs við fjárfesta og banka um uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Vesturlandi og gera það á metnaðarfullan hátt með gæði og fagmennsku að leiðarljósi.
Þá mun okkur vel vegna!
Ég þakka fyrir gott hljóð.

Glærur með ávarpi