Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans voru í opinberri heimsókn í Frakklandi 9.-13. júní, í boði Georges Colombier, forseta vináttuhóps Frakklands og Íslands á franska þinginu.
![]() |
Forseti Alþingis og formenn þingflokka með gestgjafa sínum, Georges Colombier. (smellið fyrir stærri útg.) |
Með forseta í för voru formenn allra þingflokka, Arnbjörg Sveinsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson, Siv Friðleifsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson, auk Vigdísar Jónsdóttur, aðstoðarskrifstofustjóra og Jörundar Kristjánssonar, alþjóðaritara á skrifstofu forseta Alþingis.
Þriðjudaginn 10. júní átti forseti Alþingis og sendinefndin fund með Jean-Luis Borloo, umhverfisráðherra Frakklands, og var m.a. rætt um áhrif loftlagsbreytinga og afleiðingar losunarkvóta á flugsamgöngur til og frá Íslandi. Þá ræddi forseti Alþingis framlag Íslendinga á sviði endurnýjanlegrar orku við franska umhverfisráðherrann. Einnig heimsótti íslenska sendinefndin franska þingið og fylgdist með umræðum og fyrirspurnum til ráðherra.
![]() |
Forseti vináttuhóps Frakklands og Íslands, forseti Alþingis og forseti franska þingsins. (smellið fyrir stærri útg.) |
Á miðvikudag sl. áttu forseti Alþingis og þingflokksformenn fund með vináttuhópi Frakklands og Íslands á franska þinginu. Umræðuefni fundarins voru m.a. staða efnahags- og umhverfismála auk varnarsamstarfs ríkjanna. Síðar sama dag átti forseti Alþingis fund með forseta neðri deildar franska þingsins, Bernard Accoyer. Ræddu forsetarnir vináttusamskipti þinganna, umhverfis- og orkumál o.fl.
Fimmtudaginn 12. júní heimsótti íslenska sendinefndin m.a. orkurannsóknarmiðstöð CEA í Grenoble, þar sem fram fara rannsóknir á umbreytingu raforku í vetnisorku, þróun og rannsóknir á varðveislu raforku í rafhlöðum fyrir rafbíla og báta. Um kvöldið hittu forseti Alþingis og þingflokksformenn fulltrúa íslenskra fyrirtækja og franskra fyrirtækja með tengsl við Ísland, í kvöldverði sem Tómas Ingi Olrich og Emmanuel Jaques, forseti fransk-íslenska verslunarráðsins stóðu fyrir.
![]() |
Sendiherra Íslands í Frakklandi, forseti fransk-íslenska verslunarráðsins og forseti Alþingis. (smellið fyrir stærri útg.) |
Lokadag heimsóknar, föstudaginn 13. júní, hitti íslenska sendinefndin fulltrúa franskra samgöngufyrirtækja, og í framhaldinu átti forseti Alþingis og þingflokksformenn fund með yfirmönnum ferðamála í Frakklandi. Um kvöldið var haldinn hátíðar- og kveðjukvöldverður í franska þinginu.