Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, var í opinberri heimsókn í Svíþjóð í boði forseta Ríkisdagsins, sænska þingsins, dagana 14.-17. maí sl.

Fyrsta dag heimsóknar átti forseti Alþingis fund með Lars Leijonborg, menntamálaráðherra Svíþjóðar, en að þeim fundi loknum heimsótti forseti Alþingis ráðhúss Stokkhólmsborgar og átti fund með Bo Bladholm, forseta borgarstjórnar.

Annan dag heimsóknar átti forseti Alþingis fund með Per Westerberg, forseta sænska þingsins, og nokkrum þingmönnum. Ræddu þeir m.a. þingstörf og tvíhliða samskipti þinganna. Þá fundaði forseti Alþingis með fulltrúum umhverfis- og landbúnaðarnefndar, menntamálanefndar og fjárlaganefndar sænska þingsins.  Að því loknu heimsótti forseti Alþingis Per Unckel, landshöfðingja Stokkhólmsléns og fyrrverandi framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.





Sturla Böðvarson, forseti Alþingis, með Per Westerberg, forseta Ríkisdagsins

Síðasta dag heimsóknar hélt forseti Alþingis ávarp við opnun ræðismannafundar í sendiráði Íslands í Stokkhólmi, en fundinn sóttu ræðismenn Íslands í Svíþjóð og umdæmislöndunum Albaníu, Sýrlandi, Kýpur og Serbíu.  Lagði forseti Alþingis í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi góðrar vináttu og tengsla landa á milli.  Að fundi loknum hélt forseti Alþingis til Uppsala, þar sem hann heimsótti Anders Björk, lénshöfðingja Uppsalaléns.

Síðdegis gengu Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans á fund Carls Gustavs XVI Svíakonungs og Silvíu drottingar.






Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans með Carl Gustav XVI Svíakonungi og Silvíu drottingu