Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, minntist Alexanders Stefánssonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, í ávarpi á Alþingi í gær, fimmtudaginn 29. maí 2008.
Minningarorð forseta Alþingis má lesa í heild sinni hér að neðan:
Alexander Stefánsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra |
Minningarorð forseta Alþingis:
Alexander Stefánsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, andaðist í gær, miðvikudaginn 28. maí. Hann var áttatíu og fimm ára að aldri.
Alexander Stefánsson fæddist í Ólafsvík 6. október 1922. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Sumarliði Kristjánsson vegaverkstjóri og Svanborg María Jónsdóttir húsmóðir. Auk skyldunáms lauk Alexander Stefánsson héraðsskólaprófi á Laugarvatni árið 1940 og samvinnuskólaprófi í Reykjavík árið 1943.
Að námi loknu var Alexander Stefánsson starfsmaður við kaupfélagið Dagsbrún í Ólafsvík og kaupfélagsstjóri þar frá 1947. Hann varð skrifstofustjóri Ólafsvíkurhrepps 1962, oddviti og síðan sveitarstjóri 1966—1978. Alexander vann mikið fyrir Ólafsvíkursöfnuð og kirkjuna, var söngmaður góður og formaður sóknarnefndar í áratugi.
Í alþingiskosningunum 1978 var hann kjörinn alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Vesturlandskjördæmi og sat á Alþingi til 1991. Á árunum 1972—1974 sat hann þrisvar á Alþingi sem varaþingmaður, sat á 14 þingum alls. Hann var fyrsti varaforseti neðri deildar 1979—1983. Er ný ríkisstjórn var mynduð eftir alþingiskosningarnar 1983 varð hann félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Gegndi hann embætti félagsmálaráðherra fram yfir kosningarnar 1987.
Alexander Stefánsson kom víða við í félags- og framfaramálum. Hann var formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi frá stofnun þeirra 1969 til 1976, í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1974—1982, varaformaður síðustu fjögur árin, í stjórn Hafnasambands sveitarfélaga 1969—1982 og stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga frá upphafi 1971 til 1982. Í bankaráði Útvegsbanka Íslands sat hann 1976—1983. Er þá fátt talið af margvíslegum forustustörfum hans í sveitarstjórnarmálum, heilbrigðismálum og fjármálum sveitarfélaga og ríkisins.
Alexander Stefánsson kom til Alþingis margreyndur félagsmálamaður eftir áratugastörf í atvinnulífinu og sveitarstjórn í heimahéraði og var vel búinn til starfa á vettvangi þjóðmála. Hér voru honum falin mikilvæg ábyrgðarstörf. Þau rækti hann af kostgæfni og naut virðingar jafnt samherja sem andstæðinga í stjórnmálum, var háttvís en einarður og fylginn sér í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur .
Ég bið háttvirtan þingheim að minnast Alexanders Stefánssonar með því að rísa úr sætum.