Eftir að hafa fylgst með framvindu mála vegna lagasetningar um starfsemi á fjölmiðlamarkaði get ég ekki orða bundist.

Lokadagur þingsins var í gær fimmtudaginn 22. júlí og við blasir að stjórnarandstaðan leggur allt sitt traust á Ólaf Ragnar Grímsson. Formaður Samfylkingarinnar kallaði forsetann svo smekklega „mikilvægan nauðhemil“. Nauðhemillinn átti að hafa stöðvað meirihlutavilja Alþingis. Stjórnarandstaðan með Össur Skarphéðinsson og Ögmund Jónasson í broddi fylkingar taldi eðlilegt að forsetinn veldi löggjöf um fjölmiðla til þess að nýta ákvæði 26. greinar stjórnarskrár okkar. Framganga stjórnarandstöðunnar í þessu máli verðu trúlega lengi í minnum höfð.

Í sextíu ára sögu lýðveldisins hefur verið litið á forsetaembættið sem sameiningartákn þjóðarinnar. Nú hefur brugðið svo við að forsetinn hefur steypt sér út í straumköst stjórnmálanna með því að ganga gegn ríkisstjórn og meirihluta Alþingis. Hann hefur gengið í björg stjórnarandstöðunnar og þeirra sem hafa beitt fjölmiðlum í krafti fjármálaveldis til sóknar og ekki síður varnar eigin hagsmunum og gegn almannahagsmunum.

Ólafur Ragnar Grímsson verður settur inn í embætti sem forseti Íslands 1. ágúst n.k. Sú innsetning fer fram í skugga mikilla og harkalegra deilna um embættisverk hans. Ég mun ganga til þeirrar athafnar af skyldurækni og af virðingu fyrir embættinu en minnugur þessarar sérstöku stöðu sem uppi er í íslenskum stjórnmálum. Það hefur engum dulist að stjórnarandstaðan hefur leitað skjóls hjá Ólafi Ragnari Grímssyni í verkum sínum vegna fjölmiðlafrumvarpsins. Það skjól virðist hafa verið fúslega veitt í þeim tilgangi einum að koma höggi á ríkisstjórnina og þá einkum og sér í lagi á forsætisráðherra Davíð Oddsson. Ekkert annað getur skýrt framgöngu forsetans í þessu máli. Forsætisráðherra hefur mátt sæta samfelldum árásum þeirra afla sem síðan hafa hvatt forsetann til þess að kom á þeirri stjórnlagakreppu sem synjun forsetans hefur leitt af sér með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Það var athyglisvert að fylgjast með málflutningi stjórnarandstöðunnar í þinginu síðustu daga. Í nefndaráliti minnihluta allsherjarnefndar sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna leiddu vegna svokallaðs fjölmiðlafrumvarps sagði m.a. „Málskotsrétturinn sem stjórnarskrárgjafinn færði forsetanum að vandlega íhuguðu máli, réð úrslitum um uppgjöf ríkisstjórnarinnar …“. Forsetinn hafði vakið upp það sem hann hafði áður sem fræðimaður talið dauðan bókstaf og synjaði staðfestingar þeim lögum sem rétt kjörinn meirihluti þingsins hafði samþykkt. Að mati forystumanna Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Frjálslyndaflokksins var það ekki málflutningur þeirra Össurar, Steingríms J og Guðjóns Arnars sem réði úrslitum á Alþingi. Það sem réði úrslitum var atbeini Ólafs Ragnars Grímssonar sem stóð álengdar og stöðvaði málið hvattur af forystu Samfylkingarinnar og stjórnendum og eigendum fjölmiðla sem hafa komist í einstaka aðstöðu og beitt henni ótæpilega. Þrátt fyrir að leitað væri víðtækrar sáttar og samstöðu um málið hefur stjórnarandstaðan ekki verið til viðræðu um slíkt. Sú afstaða virðist hafa verið mótuð í skjóli frá þeim sem hefði átt að vera sameiningartákn þjóðarinnar við þessar aðstæður. Slíkt háttalag kann ekki góðri lukku að stýra og getur ekki aukið virðingu fyrir þeim sem nú um stundir gegnir því embætti sem þjóðin hefur borið virðingu fyrir.