Í tilefni þess að framkvæmdum er lokið við endurbyggingu og stækkun FossHótels í Stykkishólmi var efnt til hátíðar föstudaginn 17. september 2021 á vegum eigenda hótelsins. Sem fyrrverandi bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar og sem fyrrverandi stjórnarformaður hótelfélagsins Þórs hf. sem byggði hótelið var ég beðinn um að flytja ávarp og segja frá byggingu hótelsins sem var tekið í notkun árið 1977.

Ávarp mitt var byggt á þessari grein sem fylgir hér á eftir og leitast ég við að segja söguna svo sem hún er í minningu minni og byggð á skráðum heimildum í dagbókum mínum og úr fundargerðarbókum stjórnar Eigendafélags Félagsheimilis og fundargerðum stjórnar Þórs hf.

Sturla Böðvarsson fyrrverandi bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar og fyrrverandi stjórnarformaður Þórs hf.

Félagsheimili og hótel í Stykkishólmi

Ég vil þakka hótelstjóra og eigendum FossHótel Stykkishólmi fyrir að efna til þessarar samkomu.

Það er okkur sem berum ábyrgð á tilvist hótels í Stykkishólmi vissulega fagnaðarefni að hér hafa staðið yfir þessar miklu framkvæmdir við að endurbæta hótelið sem er forsenda þess að starfseminn aukist og dafni.

Ég má til með af því að við erum hér á vegum Íslands Hótela að minna á það að Stykkishólmur var valinn GÆÐAÁFANGASTAÐUR EVRÓPU árið 2011 af evrópskri stofnun í Brussel sem var mikill heiður fyrir okkur Hólmara og efldi ferðaþjónustuna hér við Breiðafjörðinn og sannfærði okkur um mikilvægi þess að hótelið var byggt á sínum tíma. Að vera valinn Gæðaáfangastaður Evrópu segir mikið um það hversu Hólmarar hafa lagt mikið undir í að efla ferðaþjóustuna og byggja bæinn upp í þágu húsafriðunar og umhverfismála sem hefur vakið athygli.

Mér er það ljúft að taka að mér það hlutverk að rifja upp aðdraganda þess að hótel og félagsheimili voru byggð og rifja upp fyrstu árin sem það var rekið undir verndarvæng Stykkishólmsbæjar en það þekki ég vel verandi bæjarstjóri á þeim tíma.

Það er ekki ofsögum sagt að bygging hótelsins var bænum erfitt verkefni.

Við sem stýrðum bænum þegar lokið var við hótelbygginguna sátum uppi með mörg grá hár eftir ótrúlega orustu við bankakerfið og stjórnvöld sem höfðu takmarkaða trú á uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu. Og við áttum í miklum samskiptum og sumum erfiðum við lánastofnanir sem veittu lán til framkvæmdanna sem bærinn varð að ábyrgjast. En stjórnendur bæjarins tryggðu að lánin voru endurgreidd en leiddu ekki til gjaldþrots eins og víða gerðist í þessari mögnuðu atvinnugrein.

En allt upphaf þess að hér stendur þetta myndarlega hótel má rekja til þeirra bæjarbúa sem vildu góða félagsaðstöðu til þess að efla mannlífið í bænum.

Það er rík ástæða til þess að rifja það upp að stúkurnar Auðnuvegurin og Bindindisfélagið Viljinn reistu Gamla Samkomuhúsið árið 1901. Það var aðal samkomusalur bæjarins í 75 ár en hefur hýst Eldfjallasafnið síðustu árin.

Það var 20. október árið 1956 -fyrir 65- árum-að saman kom nefnd sem kjörin var af hreppsnefnd til þess að “hrinda í framkvæmd byggingu félagsheimilis” svo sem það var orðað í bókun nefndarinnar.

Félagsheimili höfðu risið vítt og breitt um landið. Það var gert á gundvelli laga frá árinu 1947 um Félagsheimilasjóð sem styrkti byggingu félagsheimila um sem nam 40% kostnaðar við byggingu þeirra.

Í fyrstu Félagsheimilisnefndina kaus hreppsnefnd Árna Ketilbjarnarson kaupmann sem var Formaður nefndarinnar, Árna Helgason póstmeistara , Ólaf Hauk Árnason kennara, Ólaf Guðmundsson síðar sveitarstjóra og Víking Jóhannsson tónlistarkennara.

Það voru 10 félög í bænum sem voru skráð sem þátttakendur í eigandafélagi félagsheimilis og áttu þau að greiða 20% byggingarkostnaðar. Félögin sem voru skráð sem þátttakendur voru stúkurnar Helgafell og Björk, Lúðrasveit Stykkishólms, UMF Snæfell, Kvenfélagið Hringurinn, Skákfélagið, Skógræktarfélagið, Verkalýðsfélagið, Iðnaðarmannafélag Stykkishólms og Rotarýklúbbur Stykkishólms.

Strax í upphafi var samþykkt að félögin í bænum greiddu 20% kostnaðar sem var vissulega há upphæð. Var það að mestu gert að lokum með vinnuframlagi sem var ótrúlega mikið hjá fólkinu í bænum sem var áhugasamt fyrir byggingu félagsheimilis.

Í upphafi var rætt um þann möguleika að sparisjóðurinn og Amtsbókasafnið kæmi að byggingunni en frá því var horfið. Þess í stað var ákveðið að byggja saman félagsheimili, hótel og sal fyrir ráðstefnur og kvikmyndasýningar og var hönnun miðuð við það.

Sparisjóður Stykkishólms sem hér var starfræktur samþykkti að veita styrk til byggingarinnar og tók Búnaðarbankinn við þeim sjóði eftir að sparisjóðurinn hætti starfsemi og bankinn opnaði hér útibú .

Árið 1965 leitaði Félagsheimilisnefndin til Þorsteins Einarssonar íþróttafulltrúa ríkisins sem fór með málefni Félagsheimilasjóðs og veitti hann holl ráð m.a. um ráðningu hönnuða.

Arkitektar voru ráðnir þeir Jósep Reynis og Gísli Halldórsson sem höfðu m.a. teiknað hótel og félagsheimili á Húsavík sem var talið hafa heppnast vel. Verkfræði hönnun var í höndum Karls Ómars Jónssonar verkfræðings og hans samstarfsmanna hjá verkfræðistofunni Fjarhitun.

Á fundi félagsheimilisnefndar 12.nóvember 1965 var samþykkt að leita eftir að fá byggingarlóð austan til á Vatnsásnum og var það samþykkt af hreppsnefnd.

Hönnun byggingarinnar hófst en það varð enn bið á því að framkvæmdir gætu hafist.

Fjórum árum síðar eða í september árið 1969 hófust framkvæmdir eftir að ný framkvæmdanefnd var kjörin. Í þá nefnd voru kjörnir Stefán Siggeirsson umboðsmaður olíufélaganna í Stykkishólmi formaður og með honum, Friðjón Þórðarson sýslumaður og alþingismaður og Leifur Kr. Jóhannesson búnaðarráðunautur.

Stefán Siggeirsson var jafnframt framkvæmdastjóri verksins. Samdi hann við skipasmiðinn Kristján Guðmundsson eða Stjána slipp eins og hann var jafnan nefndur að sjá um framkvæmdir við undirstöður og kjallara byggingarinnar en á hans vegum var það húsasmiðurinn Sigurður Kristjánsson sem stýrði verkinu í fyrstu samkvæmt því sem skráð er í fundargerð félagsins. Var unnið í upphafi fyrir styrk frá sparisjóðnum, framlög frá félögum, söfnunarfé og lánfsfjármagn frá Búnaðarbankanum.

Síðar var samið við Trésmiðjurnar um verkið og var Bjarni Lárentsínusson byggingarmeistari og aðal umsjónarmaður verksins allt til enda.

Vegna fjárskorts gekk verkið hægt.

Árið 1970 samþykkti framkvæmdanefndin að efna til happdrættis til fjáröflunar og lagði bærinn til þá einstöku perlu Hvítabjarnarey sem vinning. Dregið var í happdrættinu 1. ágúst 1971 og kom vinningurinn á óseldan miða og var því eyjan áfram í eigu bæjarins. Tekjur af happdrættinu voru 889 þúsund gamlar krónur eða 9.2 milljónir á núvirði sem náði ekki langt til að greiða byggingarkostnaðinn.

Á þessum tíma var því ljóst að fjármögnun var ekki til staðar og að sveitarfélagið stæði frammi fyrir því að taka verkefnið að sér og var gert hlé á framkvæmdum. Búnaðarbankinn setti fram þá kröfu að stofnað yrði sérstakt félag um byggingu og rekstur hótelsins. Það ríkti því óvissa um framkvæmdir um tíma.

Í mars árið 1974 var efnt til stofnfundar hlutafélags sem tæki að sér eignarhald og rekstur hótels ins og bæri ábyrgð á byggingunni á móti eigendafélagi félagsheimilis.

Nafn félagsins varð hótelfélagið Þór hf. Fyrsta stjórn þess félags var skipuð þeim Sigurði Ágústssyni frá Vík sem var kjörinn formaður en aðrir í stjórn voru Árni Helgasson og Sveinbjörn Sveinsson.

Það voru því formlega tvö félög sem stóðu að byggingunni sem voru Hótelfélagið Þór hf. sem átti 69% hlut og Eigendafélag félagsheimilis sem átti 31% hlut í byggingunni.

Þegar ný hreppsnefnd tók við eftir kosningarnar í júní 1974 var ákveðið að stokka upp spilin og leita leiða til þess að fjármagna þetta risa stóra vekefni áður en framkvæmdir gætu hafist að nýju.

Þegar hér var komið hafði ég verið ráðinn sveitarstjóri og þekki því feril verksins vel frá þeim tíma.

Í nóvember árið 1974 var kjörin ný framkvæmdanefnd vegna byggingar félagsheimilis og hótels. Nefndina skipuðu Ellert Kristinsson framkvæmdastjóri Trésmiðju Stykkishólms sem formaður, Sigurður Ágústsson frá Vík starfsmaður Vegagerðarinnar og Finnur Jónsson framkvæmdastjóri Trésmiðjunnar Aspar.

Framkvæmdanefndin leitaði til menntamálaráðuneytis vegna Félagsheimilasjóðs og samgönguráðuneytis sem fór með ferðamálin í landinu en ferðamálastjóri Lúðvík Hjálmtýsson veitti okkur góðan stuðning. Mér eru þessi fundarhöld mjög minnisstæð enda voru þetta fyrstu fundirnir sem ég sat í fundarsölum ráðuneytis fyrir hönd bæjarins .

Niðurstaða þeirra viðræðna var að Félagsheimilasjóður samþykkti að veita styrki sem komu að vísu seint og um síðir, Ferðamálasjóður og Byggðasjóður samþykktu að veita lán til verksins sem og Búnaðarbankinn.

Á þessum tíma munaði miklu um að fá ráðuneytissjórann í samgönguráðuneytinu Ólaf Steinar Valdimarsson til samstarfs sem og Benedikt Antonsson starfsmann Framkvæmdasjóðs en báðir þessir ágætu menn urðu miklir vinir okkar Hólmara sem áttum í samskiptum við ráðuneytið og Framkvæmdastofnun ríkisins.

Ólafur Steinar Valdimarsson sat í stjórn hótelsins með mér um tíma og sýndi þar í verki hug sinn til þessa verkefnis. Þá áttum við gott samstarf við Lúðvíg Hjálmtýsson ferðamálastjóra.

Ellert Kristinsson formaður framkvæmdanefndar hafði mikinn áhuga á þessari framkvæmd og gaf sér mikinn tíma til að sinna formenskunni og ganga erinda félagsheimilis og hótels með sveitarstjóranum samhliða því að stýra Trésmiðjunni. Samstarf okkar var því strax mjög náið vegna þessara einstöku verkefna sem vörðuðu byggingarframkvæmdirnar og fjármögnun þeirra.

Hreppsnefndin var mjög samstíga en í henni sátu Ágúst Bjartmars oddviti, Einar Sigfússon, Hörður Kristjánsson, Ellert Kristinsson, Leifur Kr Jóhannesson, Ólafur Kristjánsson og Einar Karlsson.

Sem sveitarstjóri átti ég í miklu og nánu samstarfi við hrepssnefnd og framkvæmdanefnd og minnist margra ferða sem farnar voru til höfuðborgarinnar veturna 1975-1976 og 1977.

Til þess að unnt væri að halda áfram með bygginguna varð bærinn að endurskipuleggja allar sínar fjárfestingar. Eitt af fyrstu verkum okkar var að leita samninga við menntamálaráðuneytið um að fresta framkvæmdum við skólabyggingu sem til stóð að byggja og leigja hluta hótelsins fyrir skóla yfir vetrartímann og setja þar upp kennslustofur og vinnuaðstöðu í matsal og fundarherbergjum. Leigan sem ríkið greiddi vegna þessa húsnæðis grunnskólans tryggði tekjur sem mikil þörf var á svo mögulegt væri að ljúka hótelbyggingunni.

Samningur var gerður milli bæjarins og menntamálaráðuneytis um að leiga væri greidd fyrirfram en þessi samningur stóð til ársins 1985 þegar lokið var við nýtt skólahús við Borgarbraut. Má segja að þessi samningur hafi lagt grunn að því að mögulegt væri fyrir sveitarfélagið að standa að byggingu hótels og félagasheimilis sem og skólahúss og annarra verkefna.

Þegar samningar lágu fyrir voru framkvæmdir settar af stað af miklu afli en flestir iðnaðarmenn í bænum komu með einhverjum hætti að framkvæmdinni auk sjálfboðaliða sem unnu á kvöldinn og um helgar á vegum sinna félaga.

Árið 1975 sem var fyrsta heila árið mitt í stöðu sveitarstjóra var ár endurskipulagningar fjármála og framkvæmda á vegum bæjarins en auk framkvæmda við hótelið og félagsheimilið var unnið við að leggja vatnsveitu til bæjarins, miklar gatnagerðarframkvæmdir og Dvalarheimili aldraðra var innréttað og tekið í notkun 1978. Þessi ár voru einnig mikill reynslu og lærdómstími fyrir mig í samskiptum við banka og stofnanir ríkisins.

Félagsheimilið var tekið í notkun fullbúið 28. febrúar 1976 en þann dag var haldinn Hjónafagnaður og þorrablót. Og rúmu ári síðar var hótelið tekið í notkun eða vorið 1977.

Eins og fyrr var getið þá hafði verið erfitt með fjármögnun þessa stóra verkefnis. Miklar skuldir höfðu safnast upp í Búnaðarbankanum. Búist var við því að Félagsheimilasjóður veitti styrki í samræmi við þær reglur sem kynntar voru í upphafi en svo varð ekki fyrr en seint og um síðir. Hlutafé í Þór hf var lítið nema það sem bærinn lagði til og varð að fjármagna af sínum tekjum. En það sem mér er eftirminnilegast úr atinu við að fjármagna verkið var þegar fengið var lán hjá Seðlabankanum. Það lán var tekið með milligöngu Búnaðarbankans og eftir viðræður við Seðlabankastjórana. Þeir höfðu skilning á stöðu bæjarins og voru jákvæðir fyrir því að efla ferðaþjónustuna við Breiðafjörð.

Og allt gekk þetta upp og hótelið hóf rekstur og félagsheimilið nýttist vel fyrir félagsstarfsemina í bænum og fyrir hótelið vegna fundarhalda.

Fyrsti hótelstjórinn sem var ráðinn til Hótel Stykkishólms var Hörður Sigurjónsson sem hafði áður stýrt Sumarhótelinu í eitt sumar en það var rekið í húsnæði heimavistar Miðskólans. Guðrún Þorsteinsdóttir tók síðan við af Herði í byrjun ársins 1978 og gegndi starfinu í tæp fjögur ár uns Sigurður Skúli Bárðarson tók við.

Sigurður Skúli var hótelstjóri í rúm 15 ár en Gunnar Kristjánsson var í tæp tvö ár á meðan Sigurður Skúli var í leyfi og starfaði á Hótel Holti.

Fyrsta rekstrarár hótelsins var Ólafur Kristjánsson framkvæmdastjóri Skipavíkur stjórnarformaður hótelfélagsins. Gissur Tryggvason athafnamaður tók við af Ólafi og var formaður næstu tíu árin uns ég tók við formennsku hlutafélagsins Þór hf. Árið 1988 og sinnti því verkefni til ársins 1995 að Gissur Tryggvason tók við því verkefni aftur. Árið 1996 var Rúnar Gíslason bæjarfulltrúi formaður, árið 1997 var Ólafur Hilmar Sverrisson bæjarstjóri formaður og árið 2000 tók Óli Jón Gunnarsson bæjarstjóri við formennsku og var formaður þegar félagið var selt og hótelstarfsemin fór í hendur nýrra eigenda.

Þegar Stykkishólmsbær gerðist meirihlutaeigandi að félaginu Þór hf. árið 1974 var gert ráð fyrir því að bærinn gæti selt hlut sinn til þeirra sem vildu fjárfesta í rekstir hótela. Eftir að hótelið hóf rekstur og ferðaþjónastan fór að eflast í landinu voru nokkrir aðilar sem sýndu því áhuga að eignast félagið. Það var hinsvegar ekki fyrr en í árslok árið 2004 að bæði Hótel Stykkishólmur og Félagsheimili Stykkishólms var selt og bærinn hætti þeirri starfsemi. Kaupendur var félag í meirihluta eigu Péturs Geirssonar og Jóns Péturssonar hótelhaldara í Borgarnesi. Eftir sem áður höfðu félögin í bænum nokkra aðkomu að félagsheimilinu svo sem Kvenfélagið Hringurinn, Leikfélagið Grímnir og UMF Snæfell auk þess sem Hjónafagnaðurinn hefur átt skjól í Félagsheimilinu þegar efnt hefur verið til Þorrablóts. Þegar eigendur Fosshótels efna til hátíðar í tilefni verkloka er það undirstrikað að félögin eiga skjól fyrir starfsemi sína í Félagsheimilinu. Ber að fagna því.

Að jafnaði voru miklar umræður í bænum um það sem gert var á vegum hótelsins. Þess má geta að rétt fyrir jólin 1977 var samþykkt vínveitingaleyfi fyrir hótelið svo sem tíðkaðist á hótelum. Vínveitingaleyfið var umdeilt og bindindismenn voru ekki ánægðir.

Á aðalfundi félagsins 1983 kastaði bindindisfrömuðurinn Árni Helgason ritari fundarins fram svohljóðandi vísu:

Það selst allt best ef salan er fráls

Sigurður Skúli tekur til máls.

Á barnum er flest sem amar að

Ég er ekkert feiminn að tala um það.

Það er mikið lán að eigendur Íslands Hótela skuli vera með sína starfsemi hér í Stykkishólmi. Ég tel að það séu miklir möguleikar til þess að efla ferðaþjónustuna eins og frumkvöðlarnir héldu fram fyrir fimmtíu árum.

Ég læt þessari upprifjun hér lokið og vona að starfsemi hótelsins verði áfram farsæl og í anda þess sem til var stofnað. Megi eigendum og starfsfólki Fosshótel Stykkishólmi vegna vel.