Þann 26. ágúst flutti samgönguráðherra eftirfarandi ræðu á fundi Sambands sveitarfélaga á Norðvesturlandi.
Fundarstjóri, góðir fundarmenn!
Það er mér bæði heiður og ánægja að ávarpa aðalfund Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hér á Siglufirði. Kjördæmabreytingin var og hefur verið umdeild og af því tilefni verð ég að segja að það hefur verið mikil reynsla, en ánægjuleg, að starfa í stækkuðu kjördæmi síðastliðin tvö ár. Norðvesturkjördæmið er víðfeðmt og gerir miklar kröfur til þingmanna og ráðherra.
Að sjálfsögðu horfði ég hingað með augum samgönguráðherrans á kjörtímabilinu þar á undan og hef átt gott samstarf við sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra. Þó að fundurinn sé haldinn hér á Siglufirði er það nú þannig að meginhluti Norðurlands vestra er í hinu nýja NV-kjördæmi. Og fyrir ykkur sem fylgist vel með fréttum þá hef ég auðvitað tengst ákvörðun um mjög svo umtöluð jarðgöng sem vonandi verður einn daginn mikil sátt um. Það má því segja að ég hafi verið beintengdur öllu þessu svæði hér um kring og þá ekki síst Siglufirði.
Siglfirðingar og aðrir fylgjendur Héðinsfjarðarganga hafa stundum skammað mig ótæpilega fyrir það að Héðinsfjarðargöngin eru ekki orðin að veruleika og andstæðingar þeirra hafa á móti skammað mig heiftarlega fyrir það að fallast á tillögur um að grafa þessi umdeildu jarðgöng, sem munu bylta mannlífi á Siglufirði og þá ekki síður Ólafsfirði ef rétt er á spilunum haldið.
Ágætu fundarmenn,
yfirskrift fundarins; ,,Samgöngur og atvinnumál“ verður rauði þráðurinn í því sem ég ætla að fara yfir hér í dag.
Í svo dreifbýlu landi sem Ísland er skipta samgöngur miklu máli fyrir allar atvinnugreinar og hafa afgerandi áhrif á búsetuskilyrði. Því er mikilvægt að velta fyrir sér hvernig við getum sem best tengt saman atvinnuuppbyggingu og bættar samgöngur.
Það er staðreynd að óvíða eru hagsmunir svæða og sveitarfélaga jafn ólíkir og í Norðurlandi vestra frá atvinnulegu sjónarhorni séð.
Að þessu leiti er verkefnið, að búa fyrirtækjum og þar með íbúum svæðisins haganlegt starfsumhverfi, erfitt en um leið ögrandi. Við höfum fyrir okkur ríka landbúnaðarhagsmuni í Húnavatnssýslunum meðan á Skagaströnd er það fyrst og fremst sjávarútvegurinn sem stendur undir atvinnulífi svæðisins. Í Skagafirði eru áherslurnar fjölþættari og síðan horfum við á hina miklu hagsmuni Siglfirðinga í sjávarútvegi og hins vegar ferðaþjónustu, sem fyrirsjáanlega á eftir að verða enn ríkari þáttur með Síldarminjasafnið, og svo jafnvel vetraríþróttir sem meginsegul.
Þegar við metum stöðuna eins og hún er í dag þá er atvinnuleysi ekki vandamál hér á Norðurlandi vestra frekar en á öðrum landssvæðum. Oft er talað um að 2% atvinnuleysi sé náttúrulegt atvinnuleysi. Það skýrist fyrst og fremst af fólki sem er á milli starfa eða án vinnu tímabundið að eigin vali.
Það má segja að viðfangsefnið hvað varðar Norðurland vestra, sem og aðra landshluta, sé að auka fjölbreytni atvinnulífsins og skapa ný og vel launuð störf svo snúið verði við þeirri óheillavænlegu íbúaþróun sem verið hefur.
Staða hins hefðbundna landbúnaðar hefur auðvitað verið áhyggjuefni og á það sérstaklega við um sauðfjárræktina sem er jafn mikilvæg og raun ber vitni, þá sérstaklega í Húnavatnssýslunum. Aðrar greinar landbúnaðar hafa í megindráttum verið að styrkjast síðustu árin. Með fréttum af því að kjötfjallið sé horfið, góðum árangri á Bandaríkjamarkaði, útflutningi mjólkurvara og nýjum búvörusamningi er það von mín að hagur sauðfjárræktarinnar batni. Hrossarækt og hestamennska gefur góðar vonir, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna sem nýtir sér áhuga ferðamanna til að njóta landsins í spennandi hestaferðum.
Sjávarútvegurinn sveiflast auðvitað en stendur bærilega þrátt fyrir hátt gengi krónunnar og hefur sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni við erfiðar aðstæður.
Breytingar í atvinnuháttum eru staðreynd sem við stjórnmálamennirnir verðum alltaf að vera vakandi fyrir. Það er hlutverk okkar að bregðast við með því að skapa aðstæður til að ný starfsemi geti vaxið upp á svæðum þar sem önnur rótgróin hefur gefið eftir. Í því samhengi skipta góðar samgöngur miklu máli. Í byggðaáætlun leitast stjórnvöld við að kortleggja mikilvægar aðgerði í þágu byggðanna. Ég tel það fullvíst að horft verður til þeirra svæða, sem mest eiga undir högg að sækja hér á Norðurlandi vestra, í nýrri byggðaáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi á haustþinginu. Tel ég nauðsynlegt að huga að gerð vaxtarsamnings sem næði yfir svæðið allt úr Skagafirði um Húnavatnsýslur, Dali og Snæfellsnes á sama hátt og gerður hefur verið vaxtarsamningur fyrir Vestfirði. Með slíkum markvissum aðgerðum gæti kjördæmið staðið saman innbyrðis og svæðin stutt hvert annað.
Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein á öllu svæðinu. Þó að ég hafi nefnt ferðaþjónustu og Siglufjörð sérstaklega hér í upphafi, þá eru laxveiðimennirnir, sem heimsækja Húnavatnssýslurnar, sennilega þeir sem skilja eftir mesta peninga í héraði dag hvern sem þeir dvelja, af öllum þeim ferðamönnum sem til landsins koma. Í Skagafirðinum höfum við hins vegar einhverja eftirsóttustu fljótasiglingaá landsins og svo auðvitað allt sem viðkemur hestamennskunni. Uppbygging á Hólum skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustuna og Vesturfarasetrið á Hofsósi er mikilvægur segull á svæðinu sem hefur borið hróður menningartengdrar ferðaþjónustu á Íslandi víða. Hér á Siglufirði höfum við síðan söguna tengda síldveiðunum og hið kynngimagnað umhverfi sem laðar að ferðafólk og mun gera enn frekar þegar göngin verða opnuð.
Ferðaþjónustan er talin stærsti atvinnuvegur veraldar. Íbúar úr öllum heimshlutum sækjast eftir ævintýrum sem tengjast ferðum um heiminn. Það er því ekki óeðlilegt að við Íslendingar leitum leiða til þess að nýta okkur og virkja þá auðlind sem landið, sagan og góð þjónusta við ferðamenn er.
Ef það er einhver einn samnefnari, einhver ein atvinnugrein, sem er svæðinu öllu mikilvæg, þá er það ferðaþjónustan. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein um allt land og Norðurland vestra er þar engin undantekning. Ég vil nota tækifærið og minnast á það heillaspor sem sveitarfélög á Norðurlandi öllu tóku með því að efna til samstarfs um markaðssetningu Norðurlands sem einnar heildar. Ég hef mikla sannfæringu fyrir því að það komi öllum þeim aðilum sem starfa við ferðaþjónustu á svæðinu til góða. Það er úrelt hugsun að ferðaþjónustuaðilar innan svæðis séu að bítast um kúnnann í kynningarstarfi á stærstu mörkuðum veraldar. Það eru hagsmunir allra að vinna að því að fjölga ferðamönnum á svæðinu og leggja sérstaka áherslu á að fá inn á það ferðamenn sem eiga viðskipti sem skapa verðmæti.
Það orð fer af ferðaþjónustunni að hún sé gefandi starf og skemmtilegt.
Það má hins vegar ekki vera aðalhvati þess að menn starfa við ferðaþjónustuna – eingöngu vegna þess að það er svo gaman – sem það væntanlega og vonandi er. Ferðaþjónustan eru mikilvæg atvinnugrein og viðskipti sem menn eiga að gera kröfu um að skili arðsemi.
Undanfarið hefur þróunin verið sú að landshlutarnir hafa aukið samvinnu sína á sviði ferðaþjónustu, með það í huga að gera markaðsstarfið einbeittara, bæta upplýsingagjöf og nýtingu fjármuna, sem varið er í kynningu á hverjum landshluta. Samgönguráðuneytið hefur með beinum hætti styrkt þetta starf og hefur þeim hluta af byggðaáætlun, sem samgönguráðuneytið fékk til ráðstöfunar, öllum verið varið til uppbyggingar ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Þar á meðal má nefna styrki til ferðamáladeildar Hólaskóla, Markaðsstofu Norðurlands og upplýsingamiðstöðvarinnar í Varmahlíð. Mörg verkefni koma eðlilega inn á borð ráðuneytisins og fær t.d. Véla- og samgönguminjasafnið í Stóragerði fjórar milljónir á þessu ári auk þess sem mörg minni verkefni eru styrkt; til að mynda mun ráðuneytið styrkja staðarvörslu við Þingeyrarkirkju næstu þrjú árin með svipuðum hætti og gert hefur verið.
Ég talaði hér áðan um að ef einhver einn samnefnari væri fyrir svæðið í atvinnulegu tilliti þá væri það ferðaþjónustan. Ef það er einhver einn mikilvægur samnefnari fyrir allar atvinnugreinar á svæðinu þá eru það samgöngurnar. Ferðaþjónustan, sjávarútvegur með öllum þeim flutningum sem honum tengjast, iðnaður og hverslags þjónustustarfsemi munu alltaf eiga undir högg að sækja ef samgöngurnar eru ekki góðar.
Ég hef átt því láni að fagna, sem samgönguráðherra, að hafa fengið samþykkta á Alþingi jarðgangaáætlun og samgönguáætlanir sem fela í sér meiri fjárfestingar í vegagerð, hafnagerð og flugvallagerð en áður hefur verið. Í síðustu samgönguáætlun, sem samþykkt var fyrir tímabilið 2005 – 2008 er að finna umferðaröryggisáætlun sem þegar er farið að vinna eftir. Sú áætlun miðar að betri nýtingu fjármuna en áður í samstarfi Umferðarstofu, Vegagerðar og lögreglu, um leið og heildarframlög til umferðaröryggismála eru aukin stórlega. Í henni eru metnaðarfull áform í umferðaröryggismálum sem skipta þetta svæði miklu máli.
Sama má segja um framlög til ferðamála. Þar hafa framlög verið hærri en áður var og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Vel og skipulega hefur verið unnið að landkynningu og markaðsmálum innanlands og erlendis í samstarfi við greinina. Allt eru það fjárfestingar sem skipta landsbyggðina miklu máli.
Það vart hægt að halda því fram með sanngirni að Húnavatnssýslur og Skagafjörður hafi á síðustu árum liðið fyrir slæmar samgöngur sé vegakerfið borið saman við það sem gerist t.d. á Vestfjörðum. Engu að síður heyri ég að íbúarnir leggja mikla áherslu á vegabætur.
Það má með sanni segja að margt sé í gangi á sviði vegamála, sem bætir skilyrði þessa svæðis til öflugrar uppbyggingar.
Ef við hefjum yfirreiðina austast þá eru það Héðinsfjarðargöngin, sem munu gjörbylta stöðu Siglfirðinga og íbúa við utanverðan Eyjafjörð, og í reynd við Eyjafjörð allan hvað svo sem menn segja um þau jarðgöng.
Fjárveitingar til næsta áfanga endurbyggingar Þverárfjallsvegar liggja fyrir og er þess að vænta að því verki verði lokið innan tíðar. Með þeirri vegagerð verður komin á tenging milli Skagafjarðar, Skagastrandar og Blönduóss svæðisins, sem á eftir að reynast mjög mikilvæg í atvinnu- og þjónustulegu tilliti. Fjármunir til endurbyggingar vegarins um Norðurárdal í Skagafirði hafa verið tryggðir og hefur einungis verið beðið eftir heimildum sveitarstjórnar og landeigenda svo unnt væri að setja hönnun og framkvæmdir af stað. Verður að viðurkennast að ég er mjög órólegur vegna þess dráttar sem hefur orðið á því verki. Vonandi sér fyrir endann á þeim langa aðdraganda sem þar hefur orðið. Með endurbyggingu hringvegarins á þeim kafla verður mikil breyting þegar af leggjast m.a. fjórar stórhættulegar einbreiðar brýr. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir fjármunum til þess að endurbyggja veginn í Hrútafirði og færa hann vestur fyrir Staðarskála. Þannig mun hringvegurinn ekki lengur liggja um einbreiða Sýkárbrúnna og vinkilbeygjan inn á brúnna yfir Hrútu detta út.
Þrátt fyrir að Stafholtstungur í Borgarfirði séu utan Norðurlands vestra þá mun endurbygging vegarins um Stafholtstungur verða mikil samgöngubót fyrir íbúa og fyrirtæki hér á Norðurlandi sem þurfa að sækja höfuðborgarsvæðið heim, eða koma vörum á milli svæðanna. Og svo að öllu sé til haga haldið þá verður Sundabrautin ekki síður mikilvæg framkvæmd fyrir þetta svæði, rétt eins og Hvalfjarðargöngin voru á sínum tíma.
Að þessu sögðu vil ég undirstrika þann ríka vilja minn og skilning ríkisstjórnarinnar á þeirri frumforsendu fyrir því að byggð á landsbyggðinni haldist blómleg, að samgöngurnar séu góðar og eins og þið heyrið á þessari upptalningu minni á stærstu framkvæmdunum sem koma Norðurlandi vestra til góða, þá er af mörgu að taka.
Til viðbótar við sífelldar endurbætur á vegakerfinu þá þarf einnig að tryggja að fólk komist inn og út af svæðinu.
Í kjölfar hins jákvæða ástands í efnahagsmálum þjóðarinnar – fyrst og fremst – en einnig vegna þess að hefðbundnar strandsiglingar hafa dregist saman, hefur flutningur á vegum aukist mjög undanfarin misseri. Ákvað ég seint á síðasta ári að veita verulega meiri fjármunum til vetrarþjónustu en hingað til hefur verið gert í ljósi þessa. Með þessari ákvörðun var ætlun mín að auka umferðaröryggi vegfarenda á þjóðvegum landsins, um leið og rekstrarskilyrði fyrirtækja bötnuðu með bættum vetrarsamgöngum.
Vetrarþjónusta á vegum hefur í auknum mæli verið að færast til einkaaðila á liðnum árum, með góðum árangri. Ég hef nú ákveðið að beina því til vegagerðarinnar að bjóða út vetrarþjónustu á leiðinni frá Holtavörðuheiði að Blönduósi. Þessari þjónustu hefur hingað til verið sinnt af vinnuflokkum Vegagerðarinnar og réttilega með miklum sóma. Með breyttum tímum og auknum kröfum tel ég hins vegar rétt að veita vegagerðarmönnum á svæðinu aukið svigrúm til að þjónusta sveitirnar og sinna öðrum verkefnum og fela þjónustu á hringveginum í hendur einkaaðila með útboði.
Nú er nýlokið útboði á flugþjónustu til þeirra svæða þar sem flug er ekki talið standa undir sér á markaðslegum forsendum. Boðið var út flug til fimm staða á landinu og er einn þeirra Sauðárkrókur.
Flugið til Sauðárkróks hefur ekki síst verið styrkt til þess að koma til móts við Siglfirðinga sem eiga um langan veg að fara. Gera verður hins vegar ráð fyrir að fallið verði frá því að styrkja flugið til Sauðárkróksflugvallar um leið og Héðinsfjarðargöngin verða tekin í notkun.
Nú er verið að bjóða út rútusérleyfin á landinu öllu. Þetta er tímamótaútboð og ætlað til þess að bæta þjónustu og draga úr kostnaði í kerfinu öllu. Útboð sem þetta hefur ekki verið framkvæmt áður. Leitast er við að stækka þjónustusvæði og ná fram samlegð með því. Það er mikilvægt að menn geti gengið að öruggum almenningssamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgar og á milli svæða úti á landi. Er nýtt og breytt skipulag sérleyfa og útboð þeirra í samræmi við Samgönguáætlun. Það er von mín að þetta útboð skili miklum árangri og bæti stöðu landsbyggðarinnar.
Á síðasta þingi var samþykkt mjög metnaðarfull þingsályktunartillaga um fjarskiptaáætlun. Þessi áætlun var unnin í samgönguráðuneytinu og er tímamótaverk. Með henni eru lagðar línur um hvernig við viljum sjá fjarskiptin þróast í landinu í þágu heimila, skóla og atvinnulífsins. Samþykkt fjarskiptaáætlunar tengist sölu á hlutabréfum ríkisins í Símanum en salan gekk mjög vel eins og þekkt er. Þessi sala á Símanum sýnir svo ekki verður á móti mælt að það var hárrétt ákvörðun að fresta sölunni árið 2001 en selja núna þegar markaðsaðstæður hafa batnað.
Í fjarskiptaáætlun er kortlögð aðkoma ríkisins að framtíðaruppbyggingu fjarskipta í landinu. Því er ekki að neita að greinilegar áhyggjur voru víða, þá sérstaklega á landsbyggðinni, yfir því að verulega gæti dregið úr þjónustu eftir að einkavæðing Símans væri um garð gengin. Fjarskiptaáætlun var meðal annars ætlað að kortleggja næstu skref hins opinbera í því ljósi.
Ef dregin eru út aðalatriðin, sem snerta okkar daglega líf, þá eru það uppbygging GSM þjónustu á hringveginum, helstu stofnvegum og á fjölförnum ferðamannastöðum og stafrænt sjónvarp um gervitungl til skipa á miðunum við landið með stóraukna þjónustu fyrir sjófarendur í huga.
Þessi atriði og önnur í fjarskiptaáætlun munu setja okkur Íslendinga í fremstu röð. Um leið og við verðum komin í fremstu röð í heiminum hvað varðar fjarskipti, þá skiptir aðgerð eins og uppbygging GSM sambanda á þjóðvegum ekki litlu máli í öryggislegu tilliti. Í öllum þessum aðgerðum verður farin útboðsleið, þar sem skilgreind verður þjónustan sem óskað er eftir og það svæði sem á að þjóna. Síðan munu markaðsaðilar taka slaginn um að bjóða upp á þessa þjónustu með sem lægstum tilkostnaði. Svo við tökum nokkur svæði þar sem GSM símasamband mun stórbatna má nefna Holtavörðuheiðina, hringveginn um Húnavatnssýslurnar sömu leiðis og Þverárfjallsvegurinn kemst í samband. Ef við lítum til austurs þá verður umferð um Öxnadalsheiði þjónað með bættu GSM sambandi og ýmis önnur svæði þar sem vegfarendur eiga þess ekki kost í dag, að komast í GSM samband.
Þrátt fyrir að við séum í fremstu röð í heiminum hvað varðar háhraðatengingar þá ætlum við okkur enn lengra og má segja að samkeppnin milli símafyrirtækjanna hafi nú þegar leitt til hraðari uppbyggingar ADSL sambanda og sjónvarpssendinga um símalínur en við höfðum búist við.
Uppbygging háhraðatenginga er gríðarmikilvæg fyrir atvinnulíf á svæðinu og alla opinbera þjónustu sömuleiðis. Við eigum réttilega að gera þær kröfur að börnin okkar hafi sömu tækifæri til að alast upp í upplýsingasamfélagi og jafnaldrar þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Við íbúarnir þurfum að hafa sömu tækifæri til að stunda vinnu okkar hvaðan sem er og sækja þá opinberu þjónustu sem stendur til boða á netinu, rétt eins og þeir sem búa í mesta þéttbýlinu. Í því ljósi er háhraðavæðing landsbyggðarinnar eitthvert mesta byggðamál okkar tíma. Því má ekki gleyma í þessu samhengi að öflug fjarskiptauppbygging er sterkasta vopnið ásamt góðum samgöngum til að stuðla að flutningi starfa út á land. Með samþykkt Fjarskiptaáætlunar hefur ríkisstjórnin mótað þá stefnu að upplýsingabyltingin verði í allra þágu.
Að þessu sögðu er ljóst að mikilvægi góðra samgangna og fjarskipta verður ekki ofmetið í atvinnulegu tilliti fyrir svæði eins og Norðurland vestra. Það er eðlileg krafa ykkar, sem búið hér og starfið, að samgöngurnar batni jafnt og þétt og það er skylda okkar þingmannanna að tryggja að svo verði.
Að teknu tilliti til þeirra uppbyggingar í samgöngum og fjarskiptum, sem ég hef hér lýst, ætti Norðurland vestra að geta verið vel samkeppnishæft um alla hluti til þess að taka við orkufrekum iðnaði til nýtingar á orku þeirra fallvatna sem í héraðinu má virkja. Með slíkri nýsköpun, í góðri sátt við umhverfið og aðrar atvinnugreinar svo sem ferðaþjónustuna, mætti snúa byggðaþróuninni til betri vegar. Ég vil lýsa ríkum vilja mínum til þess að vinna að því máli með ykkur sveitarstjórnarmönnum, sem eigið auðvitað að hafa þar forystu í þágu íbúa svæðisins. Kostirnir eru augljósir og það er ekki í þágu hagsmuna svæðisins að standa gegn atvinnuuppbyggingu og skýla sér á bak við umhverfisvernd. Við höfum búið svo um hnútana í löggjöf að mat á umhverfisáhrifum er með því sem mest og best gerist í veröldinni til að tryggja náttúruvernd og góða umgengni um landið.
Að lokum vil ég þakka fyrir það tækifæri að fá að vera með ykkur í dag og vona að þið eigið eftir að eiga ánægjulegan og árangursríkan aðalfund hér í þessu fallega umhverfi á Siglufirði.