Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur gefið út yfirlýsingu vegna umræðna um meðferð stjórnar Símans á skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi mál tengd fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins. Yfirlýsing Sturlu birtist birtist í Morgunblaðinu í dag og er eftirfarandi:

„Þeim sem til þekkja er ljóst að fráleitt er að ráðherra hafi afskipti af þeirri ákvörðun stjórnar Símans að birta ekki opinberlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárhagslegan viðskilnað fyrrverandi forstjóra.

Engum dylst heldur að ný stjórn og forstjóri Símans tengjast á engan hátt þessum málum og hafa því ennþá síður en ella nokkuð að fela.
Engu að síður er moldviðri þyrlað upp. Mikill þrýstingur er settur á ráðherra að grípa í taumana og skikka stjórn hlutafélagsins til þess að breyta afstöðu sinni.

Bæði innan veggja alþingis og í umfjöllun fjölmiðla er af miklum þunga farið fram á afhendingu skýrslu til opinberrar umfjöllunar sem engu að síður er vitað að er trúnaðarskjal á milli stjórnar og endurskoðanda hlutafélags. Að auki er búið að upplýsa að fullu um það sem skiptir máli í innihaldi hennar og greina opinberlega frá því eina atriði þar sem endurskoðandi félagsins sætti sig ekki við framkomnar skýringar.

Krafan um afskipti ráðherra af þessu máli er að mínu viti fráleit. Stjórn Símans hefur upplýst um efni skýrslunnar en telur að með því að standa á rétti sínum samkvæmt hlutafélagalögum og halda skýrslunni innan veggja félagsins sé hagsmuna Símans best gætt.

Ný stjórn Símans og nýr forstjóri voru einmitt fengin til liðs við félagið til að snúa vörn í sókn, horfa fram á veginn og reyna sem fyrst að koma fyrirtækinu undan því kastljósi sem mánuðum saman var haldið að málefnum fyrrverandi stjórnenda þess.

Ég fékk nýtt fólk í stjórn Símans til starfa á grundvelli hlutafélagalaga í landinu og hét því að verja félagið óþörfum afskiptum ríkisins eins og frekast væri unnt. Við það mun ég standa.“