Grein þessi um framkvæmdir fjarskiptasjóðs birtist í Bændablaðinu 14. mars sl.

Í tengslum við sölu  Símans voru samþykkt lög um Fjarskiptasjóð í desember árið 2005. Jafnframt voru gerðar umfangsmiklar breytingar á fjarskiptalögum sem m.a. gera ráð fyrir að Alþingi samþykki sérstaka stefnu í fjarskiptamálum, Fjarskiptaáætlun, fyrir tímabilið 2005-2010. Framlög til Fjarskiptasjóðs voru ákveðin 2.500 milljónir af söluandvirði Símans og þeir fjármunir ætlaðir til þess að byggja upp fjarskiptakerfið á þeim landssvæðum þar sem ekki væri gert ráð fyrir  að fjarskiptafyrirtækin byggðu upp kerfi á viðskiptalegum forsendum.

Í fyrstu grein laganna um Fjarskiptasjóð segir: „Stofna skal sérstakan sjóð, fjarskiptasjóð, sem hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á svið fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Sjóðurinn er eign ríkisins. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir samgönguráðuneytið“.

Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að fjarskiptaáætlun verði endurskoðuð á þriggja ára fresti. Ekkert bólar á þeirri endurskoðun en verkefni hennar hafa raskast verulega og útboðum seinkað án þess að Alþingi hafi verið gefin skýring á þeirri framvindu eða lögð fram ný áætlun.

Fjarskiptaáætlun var tímamóta verkefni þegar hún var unnin í Samgönguráðuneytinu og samþykkt á Alþingi 11. maí árið 2005 eins og fyrr er getið. Markmiðin voru skýr. Þar má helst nefna það markmið að allir landsmenn sem þess óski geti tengst háhraða neti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu fyrir árslok 2007, að allir skólar landsins og ríkisstofnanir verði tengdar öflugu  háhraða neti, að allir landamenn hafi aðgang að stafrænum sjónvarpssendingum, að landið tengist umheiminum með öflugum fjarskiptum um sæstrengi, að þeir sem búa í mesta dreifbýlinu og sjófarendur hafi aðgang að stafrænum sjónvarpssendingum frá gervihnetti, að öryggi vegfarenda verði tryggt með bættri farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og helstu ferðamannastöðum.

Verulegur hluti þessara verkefna var settur af stað fyrir stjórnarskiptin vorið 2007 og hafði ég tryggt fjármuni til þeirra.

Markmiðið var að Ísland væri altengt eins og sagði í kynningarriti Samgönguráðuneytisins sem var sent inn á öll heimili í landinu og vakti mikla athygli. Bændur og aðrir sem í dreifbýlinu búa hafa bundið mikla vonir við þá fjarskiptabyltingu sem átti að fylgja þessari áætlun. Um það hefur mikið verið skrifað í Bændablaðið undanfarin ár og á Búnaðarþingi því sem nýlega var haldið var ályktað um nettengingu. Eins og  búast mátti við hafa marskonar vandamál komið upp við undirbúning og framkvæmd verkefna Fjarskiptasjóðs. Engu að síður hafa verkefnin dregist óhóflega í höndum núverandi samgönguráðherra  og mest það verkefni sem átti að ljúka fyrir árslok 2007 að koma háhraða tengingum í dreifbýlið. Þegar fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2009 var lagt fram s.l. haust gerði samgönguráðherra ráð fyrir því í ramma ráðuneytisins að skera niður framlagið til fjarskiptasjóðs. Alþingi tók af skarið hafnaði tillögu ráðherrans og samþykkti  framlag til sjóðsins. Þannig var komið í veg fyrir að framkvæmdir Fjarskiptasjóðs stöðvuðust sem þá þegar voru langt á eftir áætlun. Það væri gagnlegt fyrir þá sem fara núna með fjarskiptamálin og fjármálin  á vettvangi ríkisstjórnarinnar að rifja upp þær umræður sem áttu sér stað á Alþingi í aðdraganda þess að Fjarskiptasjóður var stofnaður. Þá töluðu stjórnarandstæðingar úr röðum Samfylkingar og Vinstri grænna á þann veg að allt ætti að gerast í gær og mikið var fárast yfir sölu Símans sem var samt grundvöllur þeirrar fjarskiptabyltingar sem orðið hefur á grundvelli Fjarskiptaáætlunar. Hún átti að leggja grunn að stefnunni um altengt Ísland sem vonandi verður að veruleika innan tíðar.