Sturla Böðvarsson svarar Björgvini G. Sigurðssyni

Það er með nokkrum eindæmum hversu langt Björgvin G. Sigurðsson gengur í upphrópunum sínum og rangfærslum. Það á við málflutning hans í Morgunblaðinu 21. febrúar þar sem hann telur að ekkert hafi verið gert í samgöngumálum síðustu árin.

Ég get verið sama sinnis og Björgvin G. Sigurðsson um sögu Sigurðar Nordals, Ferðin sem aldrei var farin, þetta er frábær saga. En það er líka það eina sem ég er sammála honum í efni greinar hans og tenginguna við umrædda sögu. Ég held nefnilega að Björgvin hafi ekki komið auga á aðalatriði sögunnar: Undirbúninginn.

Samgönguáætlun snýst um undirbúning og stefnumörkun. Þar eru lagðar línur til framtíðar í þeim tilgangi að framkvæma – ekki aðeins að tala um hlutina. Til að leggja megi upp í þá löngu ferð sem gerð samgöngumannvirkja er þarf margháttaðan undirbúning. Í fyrsta lagi að marka stefnu, í öðru lagi leggja niður fyrir sér ákveðin verkefni, í þriðja lagi að huga að gerð þeirra og áhrifum, í fjórða lagi að tímasetja þau og í fimmta lagi að fjármagna. Um þetta snýst samgönguáætlunin sem nú er til meðferðar á Alþingi, annars vegar fjögurra ára áætlunin 2007 til 2010 og hins vegar tólf ára áætlun áranna 2007 til 2018.

Mín vegna má alveg kalla samgönguáætlun óskalista eða pöntunarlista en eðlilegra væri að kalla hana faglega áætlun og metnaðarfulla um þarfir þjóðarinnar í samgöngumálum, lýsingu á þeirri stefnu sem mörkuð er og hvernig við getum náð markmiðunum.

Nær að tala um ferðalok
Annar grundvallarmisskilningur Björgvins er að ferðin hafi ekki verið farin. Hér hefur þingmaðurinn ekki fylgst með og mér þykir leitt að hann skuli með svo augljósum hætti upplýsa að hann hafi alls ekki verið með á nótunum. Undanfarin átta ár, einmitt í tíð Sjálfstæðisflokksins með samgönguráðuneytið undir minni stjórn, hefur verið hrundið í framkvæmd fjölmörgum og umfangsmiklum verkefnum á sviði samgangna. Mér kemur helst í hug að þingmaðurinn hafi lítið farið út fyrir miðborg Reykjavíkur. Þá hefði hann væntanlega séð að eitt og annað hefur verið gert í öllum landshlutum.

Víst er vegferðinni ekki lokið og ýmislegt hefði mátt ganga hraðar undanfarin ár. En nú stendur sem hæst undirbúningur fyrir næsta áfanga. Má í raun segja að nú þegar haldið verður áfram samkvæmt samgönguáætlun væri nær að tala um ferðalok. Þjóðin vill umbætur og hún vill framkvæmdir. Hún er að leggja af stað í ferðina með núverandi yfirvöldum sem hún þekkir að má treysta til þess að framkvæma hlutina – og hefur ekki áhyggjur af því hvort Björgvin G. Sigurðsson er með eða ekki.

———————-
Höfundur er samgönguráðherra