Ráðherra mælti nýlega fyrir þingsályktunartillögu um ferðamál. Ræðan er eftirfarandi:

Hæstvirtur forseti!

Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um ferðamál.

Ferðaþjónustan er mjög vaxandi atvinnugrein hér á landi og því brýnt að henni sé mótuð skýr stefna til framtíðar af hálfu stjórnvalda. Atvinnurekendum og neytendum sé þannig ljóst á hverjum tíma hverjar séu áherslur hins opinbera gagnvart framtíðaruppbyggingu greinarinnar. Og það skiptir miklu fyrir ímynd lands og þjóðar hvaða mynd íslensk ferðaþjónusta skapar með þjónustu sinni.

Árið 1996 kom út stefnumótun samgönguráðuneytisins í ferðamálum til ársins 2005. Síðan þá hefur átt sér stað mikil þróun í greininni. Vöxtur hefur aukist talsvert meiri en ráð var fyrir gert. Fyrirtæki hafa sameinast, önnur hætt rekstri og ný verið sett á laggirnar, auk þess sem hagsmunasamtök ferðaþjónustufyrirtækja voru stofnuð (SAF). Breytingar hafa átt sér stað á sviði farþegaflugs, bæði innan lands og til og frá landinu. Reiknað er með frekari breytingum þar og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Stóraukin notkun internetsins, breytingar í fjarskiptatækni og þróun kauphegðunar ferðamanna kalla á breytingar á þeim innviðum sem ferðaþjónustufyrirtæki treysta á. Þá hafa markaðs- og landkynningarmál verið tekin nýjum tökum sem hefur skilað miklum árangri.

Umhverfismál hafa öðlast hærri sess í allri umræðu um ferðamál, enda hefur mikil þróun átt sér stað og mikil vinna verið lögð í þann málaflokk innan ferðaþjónustunnar og utan. Hið sama má segja um gæðamál. Einnig á þetta við um menntamálin, en þar er talin nauðsynleg frekari samræming á námsframboði í þágu ferðaþjónustunnar. Skilgreina þarf betur menntunarþörfina, samstarf opinberra- og einkaaðila og hlutverk stjórnvalda í fjármögnun, uppbyggingu og vöruþróunarverkefnum.

Þá hefur aukning orðið á framlögum hins opinbera til íslenskrar ferðaþjónustu og nýrra leiða verið leitað til að hámarka árangur greinarinnar.

Einstökum aðgerðum í markaðsmálum hefur verið ýtt úr vör á ýmsum markaðssvæðum sem virðast hafa skilað umtalsverðum árangri, sbr. að ferðamönnum sem sóttu Ísland heim fjölgaði um 69% tímabilið 1995-2004 en sambærileg aukning í heiminum öllum var um 24% samkvæmt WTO (World Tourism Organization).

Samgönguráðuneytið hefur nú látið vinna sérstaka ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006 til 2015 og henni ætlað að taka við af þeirri stefnumörkun sem unnin var á sínum tíma. Þingsályktunartillagan sem hér er lögð fram byggir á þessari ferðamálaáætlun, sem jafnframt er lögð fram hér á Alþingi í dag, en hún er unnin af stýrihópi sem samgönguráðherra skipaði haustið 2003 til að vinna að gerð ferðamálaáætlunar fyrir Ísland fyrir tímabilið 2006-2015. Við undirbúning og gerð þingsályktunartillögunnar var m.a. byggt á skýrslum sem unnar hafa verið um heilsutengda ferðaþjónustu, menningartengda ferðaþjónustu, skýrslu um auðlindina Ísland sem skilgreindi megin segla sem draga til sín ferðamenn, og skýrsla um framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu. Allar þessar skýrslur voru unnar á síðasta kjörtímabili og hafa nýst við stefnumörkun og markaðsaðgerðir stjórnvalda sem unnar hafa verið að í góðu samstarfi við samtök aðila í ferðaþjónustu.

Stýrihópurinn, sem vann að gerð þingsályktunarinnar, hafði samráð við sérstakan vettvang hagsmunaaðila og leitaði þar m.a. sjónarmiða og tillagna varðandi starf hópsins. Við vinnslu áætlunarinnar var byggt að miklu leyti á skýrslum, úttektum og greinargerðum sem gerðar hafa verið á vegum ráðuneytisins og annarra aðila. Þá var og rætt við marga aðila sem vinna að ferðamálum og tengdri starfsemi.

Sett var upp vefsvæði fyrir verkefnið í því augnamiði að auðvelda samskipti, gera grunngögn aðgengileg á einum stað og gera vinnuna við áætlunina gagnsærri. Einnig voru haldin málþing með aðilum hagsmunavettvangsins um starf stýrihópsins.

Í þessari þingsályktunartillögu er áherslan á eftirfarandi meginmarkmið:

1. Náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.
2. Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni.
3. Álagi vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna.
4. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin.

Enn fremur verði unnið að eftirfarandi markmiðum:

1. Ferðaþjónustunni verði sköpuð rekstrarskilyrði sambærileg við rekstrarskilyrði í samkeppnislöndunum.
2. Ísland verði í forystu í umhverfisvænni ferðaþjónustu.
3. Fylgt verði eftir uppbyggingu þjóðgarða með því að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd.
4. Ábyrgð einstaklinga og fyrirtækja í umhverfismálum verði aukin.

Til að ná markmiðum í ferðamálum gerir þingsályktunartillagan ráð fyrir að beitt verði sérstökum aðgerðum sem varða m.a. rekstrarumhverfi greinarinnar, kynningarmál, nýsköpun, menntun, rannsóknir, gæðamál og öryggismál. Í greinargerð með tillögunni er síðan farið ítarlegar út í þau markmið og þær leiðir sem nauðsynlegar teljast til að ná megi þeim meginmarkmiðum sem fram eru sett í tillögunni.

Verði þingsályktunartillagan samþykkt er sérstök aðgerða- og framkvæmdaáætlun til ársins 2010 þegar til reiðu en hún er þó að miklu leyti bundin af þeim fjárveitingum sem fást til verkefnanna, frá Alþingi og hagsmunaaðilum í greininni.

Þingsályktunartillagan, sem hér er mælt fyrir, er lögð fram í þeim tilgangi að varða leið ferðaþjónustunnar, sem er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað mest á Íslandi. Það er von mín að með samþykkt hennar geti Alþingi og opinberir aðilar hlúð að því mikilvæga starfi sem einstaklingar og fyrirtæki standa fyrir.

Ég vil leggja til að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hæstvirtrar samgöngunefndar og síðari umræðu.