Sturla Böðvarsson mælti fyrir samgönguáætlun áranna 2007 til 2018 á Alþingi síðastliðinn fimmtudag. Í kjölfarið tóku fjölmargir þingmenn til máls og stóðu umræður í hátt í tólf tíma. Ræðan fer hér á eftir:
Hæstvirtur forseti!
Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018.

Aðdragandi
Nú sem fyrr eru gerðar miklar og vaxandi kröfur um hraðari uppbyggingu samgöngukerfisins eins og fjölmargar ályktanir frá sveitarstjórnum, almenningi og öðrum hagsmunaaðilum bera vott um.  Í þingsályktunartillögunni sem hér er lögð fram er í annað sinn lögð fram heildstæð áætlun um rekstur og uppbyggingu samgangna sem tekur til allra samgöngugreina en aðalmarkmið hennar er aukin hagkvæmni.  Áætlunin tekur mið af þeim kröfum sem komið hafa á síðustu áum um bætt öryggi í þjóðvegakerfinu.

Breytt vinnubrögð
Með lögum um samgönguáætlun, sem sett voru árið 2002, var öllu vinnulagi gjörbreytt. Í þessari samgönguáætlun 2007 – 2018 er það nýmæli að nú fylgir umhverfismat áætlunarinnar. Er það í samræmi við lög sem Alþingi samþykkti vorið 2006 um að umhverfismat skuli framvegis fylgja tilteknum skipulags- og framkvæmdaáætlunum. Matið var auglýst síðastliðið haust og almenningi, sveitarstjórnum og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma á framfæri athugsemdum sem farið var yfir áður en þingsályktunartillagan um samgönguáætlun var lögð fram. Athygli er vakin á því að athugasemdir og svör vegna umhverfismatsskýrslunnar fylgja  með í greinargerð.  Með þessu er Ísland meðal fyrstu Evrópulanda til að leggja áherslu á umhverfismat með gerð sérstakrar umhverfismatsskýrslu vegna samgönguáætlunar. Áætlunin nær jafnframt til rekstrarútgjalda Vegagerðarinnar, Flugmálastjórnar, Flugstoða samkvæmt þjónustusamningi og Siglingastofnunar sem ekki var fjallað um í fyrri áætlunum.  Mörkuð er stefna til framtíðar í samgöngumálum þ.m.t. í öryggismálum og tekið tillit til   umhverfismála og byggðamála.
Áætluninni er ætlað að stuðla að víðtæku samstarfi stofnana í samgönguráði, m.a. á sviði rannsókna. 


Stefnumótun samgönguáætlunar
Í samgönguáætlun er sett fram stefna í samgöngumálum til næstu 12 ára auk þess sem gerð er grein fyrir almennum forsendum og spáð fyrir um þróun ýmissa lykilstærða. 

Í þingsályktunartillögunni sem hér er mælt fyrir eru eftirfarandi fimm megin-markmið: Greiðari samgöngur,hagkvæmni við uppbyggingu og rekstur samgangna, umhverfislega sjálfbærar samgöngur, öryggi í samgöngum og jákvæð byggðaþróun.

·        Undir greiðari samgöngur falla flestallar framkvæmdir við uppbyggingu og endurbætur samgöngukerfisins. Lögð er áhersla á að sköpuð verði skilyrði fyrir flesta landsmenn til að komast til eða frá höfuðborgarsvæðinu hvert á land sem er innan þriggja klukkustunda í stað þriggjaoghálfs í fyrri áætlun sem er breyting á sambærilegu markmiði í samgönguáætlun 2003-2014. Sett eru sérstök markmið um  almenningssamgöngur í lofti, á sjó og á landi. Lögð er áhersla á, að vegir verði með nægjanlegt burðarþol allt árið á svokölluðum flutninga-brautum í grunnkerfinu, breidd þeirra verði nægjanleg og með bundnu slitlagi.

Ennfremur verði lokið endurbyggingu allra helstu stofnleiða á landi og allar byggðir með meira en 100 íbúa verði tengdar vegakerfi með slitlagi og viðunandi burðarþoli.

·        Meðal leiða til að ná fram hagkvæmni við uppbyggingu og rekstur samgangna er að nýta í auknum mæli kosti einkaframkvæmdar þar sem hún á við. Þannig yrðu markaðsöflin nýtt til viðbótar við það sem nú er gert með útboðum á flestum sviðum framkvæmda og rekstrar ef það er hagstæðara.

·        Varðandi umhverfislega sjálfbærar samgöngur er lögð áhersla á skattalegar aðgerðir til að hvetja til notkunar sparneytinna bíla og framtíðarsýnin er þróun samfélags, sem notar eingöngu endurnýjanlega orkugjafa.

·        Ástæða er til þess að vekja sérstaka athygli á áherslum á öryggi í samgöngum. Má nefna ríka áherslu á breikkun vega og aðskilnað akstursstefna á umferðarþyngstu þjóðvegunum. Ennfremur skal nefnt að umferðaröryggisáætlun og áætlun um öryggi sjófarenda eru hluti samgönguáætlunar.

·        Fimmta síðasta markmiðið er nýtt og snýr að jákvæðri byggðaþróun en ljóst er að flest eða öll verkefni samgönguáætlunar á landsbyggðinni styðja markmiðið.

Í samgönguáætlun þessari er áhersla fyrst og fremst lögð á uppbyggingu vegakerfisins.  Þetta er í beinu framhaldi af stefnubreytingu sem gerð var með síðustu 12 ára samgönguáætlun þar sem litið var svo á að byggingu nýrra flugvalla og nýrra hafna væri lokið að mestu nema sérstakar aðstæður kalli á annað.  Framkvæmdir í höfnum og flugvöllum miðast við að bæta aðstöðu og bregðast við auknum kröfum og þróun á sviði flugs og siglinga.

Í hinni nýju langtímaáætlun er sem fyrr skilgreint grunnnet eða  burðarnet samgangna sem nær til samgöngugreinanna þriggja. Með grunnneti er átt við mannvirki sem mynda eðlilegt, samfellt samgöngukerfi um landið allt.  Umferðin er mest í grunnkerfinu og því er mikilvægt að það njóti forgangs.

Í áætlun þessari er einnig unnið að því að bæta samgöngur fyrir ferðaþjónustuna með ýmsum aðgerðum og verður fjallað um sumar þeirra hér á eftir.

Fjármál
Heildarfjármagn til samgöngumála hefur stóraukist á undanförnum árum.  Í samgönguáætlun 2007 – 2018 heldur þessi þróun áfram því enn eykst fjármagn til vegamála.  Tillagan gerir ráð fyrir að rúmlega 381 milljarði króna verði varið til  samgöngumála næstu tólf árin. Þrátt fyrir þessa miklu fjármuni er ekki nægt fjármagn fyrir hendi til þess að uppfylla öll markmiðin í uppbyggingu vega fyrstu 12 árin. Það liggur fyrir að enn vantar fé til vegagerðar sem nemur framkvæmdafé um tveggja fjögurra ára tímabila eða um 80 milljörðum til þess að markmiðin náist. Eru það verkefni jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á landsbyggðinni sem bíða verða seinni tíma.

Heildartekjur og framlög til samgönguáætlunar árin 2007-2018 verða 381,4 milljarðar kr. skv. tillögunni eins og áður segir, en þar af renna 324,0 milljarðar kr. eða 85,0% til vegamála. Til samanburðar voru tekjur og gjöld í samgönguáætlun 2003-2014 samtals 237,4 milljarðar kr. en þar af renna 173,3 milljarðar kr. eða 73,0% til vegamála. Miðað við hækkun vísitölu vegagerðar á milli áætlana er um að ræða um 26% raunhækkun áætlunarinnar.

Samanlagðar heildartekjur og gjöld samgönguáætlunar 2003 – 2014 voru 28,6% af vergri þjóðarframleiðslu ársins 2003. Sambærileg tala fyrir samgönguáætlun 2007 – 2018 er 29,5% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu ársins 2007. Ljóst er að framlög til vegagerðar eru nálægt því að aukast í takti við aukna þjóðarframleiðslu sem verður að teljast eðlilegt miðað við mikilvægi málaflokksins.

Hluti fjármagns til vegagerðar kemur frá söluandvirði Símans eða 15 milljarðar á fyrsta tímabili. Í áætluninni er gert ráð fyrir því að nokkrar framkvæmdir og verkefni á sviði flugmála, siglingamála og vegamála verði fjármagnaðar með sérstakri fjáröflun á áætlunartímabilinu. Um er að ræða viðamikla útgjaldaliði sem ekki verður ráðist í innan heildarramma samgönguáætlunar 2007-2018.

Til vegagerðar er þannig gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun samtals að upphæð 45,3 milljarðar, mest á öðru tímabili áætlunarinnar. Til flugmála er gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun að upphæð 4,3 milljarðar og til siglingamála 1,6 milljarðar.

Þau mikilvægu verkefni, sem um ræðir, eru bygging og rekstur samgöngumið-stöðvar í Reykjavík, sem hefur verið talin falla vel að einkaframkvæmd, bygging og rekstur Bakkafjöruferju, sem einnig er talin ákjósanleg einkaframkvæmd svo og sérstakt átaksverkefni í uppbyggingu vel skilgreindra flutningabrauta milli Reykjavíkur og Akureyrar annars vegar og milli Reykjavíkur og Markarfljóts hins vegar. Hér er ekki tekin bein afstaða til þess með hvaða hætti hið sérstaka átaks-verkefni í vegagerð verði boðið út, en þess í stað er vísað til álits nefndar sem ég skipaði um einkaframkvæmd í samgöngum. Með einkaframkvæmd er hér átt við, að einkaaðilum verði falið samkvæmt samningi hönnun, framkvæmd, rekstur og fjármögnun tiltekinna verkefna, sem almennt samkomulag er um að opinberir aðilar sinni í þágu almennings.

Sérstök fjáröflun eins og það hugtak er sett fram í þessari áætlun getur verið með ýmsum hætti. Þar getur verið um að ræða einkaframkvæmd, sem byggist á fjáröflun með notendagjöldum eða samblandi af notendagjöldum, ríkisframlagi og framlagi einkaaðila. Þar getur einnig verið um að ræða hefðbundnar framkvæmdir, sem byggðar eru á hefðbundnum útboðum, en í þeim tilvikum byggist sérstök fjáröflun þá alfarið á sérstöku ríkisframlagi eða lántöku, sem felur í sér að ríkið greiðir framkvæmdina á lengri tíma en nú er venjan.

Fáar þjóðir  verja jafn stórum hluta útgjalda sinna til vegamála og Íslendingar. Þessi staðreynd undirstrikar hina miklu þörf fyrir bættar vegasamgöngur. Meiri hluti fjárins fer til stofnkostnaðar, þ.e. til nýrra mannvirkja og undirstrikar enn hve margt er ógert á vegakerfinu. Aldrei má þó gleyma þeirri staðreynd að nauðsynlegt er að veita nægjanlegu fé til viðhalds þeirra eigna sem felast í vegakerfinu.
Því til viðbótar eru sívaxandi óskir um þjónustu við vegfarendur eins og t.d. vetrar- og upplýsinga-þjónustu, en sífellt fleiri íbúar landsins aka á milli búsetusvæða til vinnu sinnar.

Flugmál
Útgjöld til flugmála hafa aukist á undanförnum árum sem skýrist af auknum umsvifum Alþjóðaflugþjónustunnar og er búist við áframhaldandi vexti hennar. Umsvif þjónustunnar eru m.a. fjármögnuð af yfirflugsgjöldum.  Nýmæli í áætluninni er að Flugstoðum ohf. er falið með samningi að annast rekstur flugvalla og flugöryggisþjónustu auk framkvæmda við flugvelli.

Framkvæmdum í flugmálum hefur verið forgangsraðað þannig að á fyrsta tímabili verður lögð áhersla á að flugvellir í flokki I uppfylli kröfur um aðflugsbúnað, flugvernd og öryggissvæði þar sem það er mögulegt. Á öðru og þriðja tímabili er stefnt að því að flugvellir í flokki I uppfylli kröfur til bygginga og flughlaða, að flugvellir í flokki II uppfylli kröfur til bygginga, flugbrauta og hlaða þar sem því verður við komið. Einnig verður lögð áhersla á endurnýjun aðflugs‑ og flugleiðsögubúnaðar.

Stærstu verkefni í flugmálum á áætlunartímabilinu eru auk byggingar samgöngumiðstöðvar í Reykjavík lenging Akureyrarflugvallar. Á öðru og þriðja tímabili verður metin þörfin fyrir lengingu Egilsstaðaflugvallar


Siglingamál

Mestu útgjöldin í siglingamálum eru til framkvæmda í höfnum.  Áætlunin miðar við gildandi hafnalög.


·        Í áætluninni er miðað við að ríkið taki þátt í endurnýjun hafnarmannvirkja í fiskihöfnum á landsbyggðinni til að uppfylla þarfir sjávarútvegsins og mæta nýjum þörfum atvinnugreinarinnar.  Reynslan hefur sýnt að kröfur til íslenskra hafna eru síbreytilegar og að þróun þeirra verður að haldast í hendur við þróun fiskiskipaflotans.
·        Langtímaáætlun um öryggi sjófarenda er fest í sessi og eru framlög til hennar aukin í 22 milljónir króna á ári.
·        Gert er ráð fyrir að rannsóknir verði efldar með það að markmiði að auka öryggi sjófarenda og hámarka nýtingu fjármagns sem varið er til hafnarmannvirkja og sjóvarnargarða.
·        Miðað er við að Siglingastofnun taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um öryggismál.  Mikilvægt er að gæta hagsmuna Íslands þegar verið er að semja alþjóðlegar reglur og sjá til þess að reglurnar tryggi sem best öryggi sjófarenda og hæfi sem best íslenskum aðstæðum.
·        Áætlunin gerir ráð fyrir auknu eftirliti með umferð skipa, siglingavernd og hafnaríkiseftirliti, þar sem ætlað er að flutningar um hafnir nær tvöfaldist á tímabilinu og umferð stórra skipa umhverfis landið muni að sama skapi stóraukast.
·        Gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum við nýja höfn í Bakkafjöru og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju sem boðin verði út sem einkaframkvæmd.

Á síðasta áratug hefur landað sjávarfang aukist  um 15%. Ekki er gert ráð fyrir að landaður afli aukist frekar á áætlunartímabilinu.  Vöruflutningar á milli landa hafa á sama tímabili aukist um 30% og má rekja 75% af þeirri aukningu til flutninga vegna stóriðju. Sjóflutningar milli hafna innan lands jukust jafnt og þétt fram á miðjan síðasta áratug en hafa dregist saman að undanförnu og strandsiglingar eru að mestu aflagðar nema olíuflutningar og annar sértækur varningur. Gert er ráð fyrir að flutningar um hafnir landsins aukist um 90% næstu 12 árin og má rekja það að stærstum hluta til fyrirsjáanlegra aukinna flutninga vegna stóriðju.

Á næstu 12 árum verða helstu framkvæmdir í höfnum endurbygging hafnarmannvirkja, stofndýpkanir og gerð viðlegukanta með meira dýpi.

Styrkir til hafnargerðar eru fyrst og fremst til að endurbæta og byggja ný viðlegumannvirki til að mæta þörfum fiskiskipaflotans.

Vegamál


Útgjöld til vegamála  hafa hækkað á undanförnum árum, og heldur sú þróun áfram.  Valda þar mestu sívaxandi kröfur um aukna þjónustu, en  Íslendingar eiga fleiri bíla að hlutfalli en flestar aðrar þjóðir. Er bílaeignin nú nálægt 640 bílum á hverja 1000 íbúa. Viðhaldsþörf vega vex í hlutfalli við verðmæti vega svo og í hlutfalli við aukna umferð.  Reynt er að mæta þessari auknu þörf í samgönguáætlun.

Meirihluti vegafjár fer til stofnkostnaðar og þá helst til framkvæmda í grunnneti en í því eru 13 flugvellir, 40 hafnir og um 5.200 km vegakerfi og þar af er fjárfestingaþörfin langmest í vegunum.

Grunnnet vega fær þannig stóra sneið af kökunni, en dugir þó ekki til.  Engu að síður nást margir góðir áfangar á áætlunartímabilinu, og verða nefndir nokkrir þeirra síðar.

Framkvæmdamarkmið vegamála eru m.a.:
§     Byggja upp grunnnet stofn- og tengivega, sem skilgreint er í samgönguáætlun með fullu burðarþoli og bundnu slitlagi.
§     Endurbyggja/breikka einbreiða kafla með bundnu slitlagi með umferð yfir 400 ÁDU (ÁrDagsUmferð-meðalumferð á dag yfir árið) þar sem bundið slitlag var lagt á gamla vegakafla án endurbóta og reynst hafa hættulegir, svo og kafla þar sem vegferill er ónothæfur.
§     Breikka vegi þar sem umferð er svo mikil að flutningsgeta og umferðaröryggi verða vandamál.
§     Grafa jarðgöng í samræmi við jarðgangaáætlun.
§     Útrýma einbreiðum brúm á vegum með umferð yfir 200 ÁDU.
§     Lagfæra vegi á hættulegum stöðum í samræmi við sérstaka áætlun.

§     Hefja endurbætur á helstu landsvegum. Markmið endurbótanna sé að koma þessum vegum í „gott horf“ samkvæmt nánari skilgreiningu.
§     Girða meðfram vegum með umferð yfir 300 ÁDU þannig að þar verði unnt að banna lausagöngu búfjár.
§     Byggja/endurbæta vegi og brýr á höfuðborgarsvæðinu í þeim mæli að umferðarástand verði sem best.

Hér verða nefndir stærstu áfangar sem nást í vegagerð á áætlunartímabilinu:

Lokið verður við veg um Hornafjarðarfljót, Lyngdalsheiði og Bræðratungu milli Reykholts og Flúða í Árnessýslu á fyrsta tímabili. Suðurlandsvegur milli Selfoss og Reykjavíkur verður breikkaður og akstursstefnur aðskildar á fyrsta tímabili. Lokið verður við tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar. Vesturlandsvegur milli Reykjavíkur og Borgarness verður breikkaður og akstursstefnur aðskildar á fyrsta og öðru tímabili. Á áætlunartímanum verða byggðakjarnarnir á Vestfjörðum tengdir við Hringveginn með bundnu slitlagi.  Hér er um gríðarlega stórt verkefni að ræða. Gerð verður brú á Djúpveg yfir Mjóafjörð og gerður verður vegur um Arnkötludal milli Króksfjarðar og Steingrímsfjarðar á fyrsta tímabili. Á  þriðja tímabili verður lokið við gerð nýs vegar yfir Dynjandisheiði.

Unnið verður við breikkun brúa í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi á áætlunartímabilinu. Þá verður byggð ný brú á Jökulsá á Fjöllum á öðru tímabili.  Unnið verður að tengingu byggðakjarnanna á Norðausturlandi við Hringveginn allt tímabilið, og í lok tímans verður kominn vegur með bundnu slitlagi til þéttbýlisstaðanna í Norður–Þingeyjarsýslu, en nokkru fyrr til Vopnafjarðar eða á fyrsta tímabili. Gerð verður ný brú yfir Lagarfljót á öðru tímabili.
Hér hefur aðeins verið minnst á nokkra stóra áfanga. Þess ber að geta að áætlaður kostnaður við sum þessara verkefna hefur aukist mikið frá því að langtímaáætlun í vegagerð var sett fram. Þessu valda einkum meiri kröfur til þessara vega og einnig  val á betri og dýrari lausnum en áður.  Breidd þessara vega er aukin frá 6,5 m í 7,5 m og 8,5 m vegna aukins umferðarhraða á bundnu slitlagi.

Af öðrum stórum áföngum ber að nefna jarðgöng. Hér verður sú megin áherslubreyting að unnið verður samtímis að gerð tvennra jarðganga á hverju áætlunartímabili í stað einna. Þannig verður unnið að gerð jarðganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar annars vegar og um Óshlíð milli Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar hins vegar á fyrsta tímabili. Samtímis verður unnið að rannsóknum, hönnun og öðrum undirbúningi vegna jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og Eskifjarðar og Norðfjarðar. Norðfjarðargöng verða boðin út 2009 og Arnarfjarðargöng verða boðin út þannig að hefja megi framkvæmdir strax að loknum framkvæmdum við Óshlíðargöng. Á öðru og þriðja tímabili eru fyrirhuguð jarðgöng um Lónsheiði og önnur göng sem ekki hafa verið ákveðin. Í samgönguáætlun er ennfremur gert ráð fyrir jarðgöngum undir Vaðlaheiði sem einkaframkvæmd. Er í því sambandi miðað við þær heimildir sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til nýrra vegalaga, sbr. 17. gr. þess. Vegna hugmynda um önnur jarðgöng er á áætlunartímabilinu gert ráð fyrir að unnið verði að frumrannsóknum og áætlunum vegna jarðganga á höfuðborgarsvæðinu, til Vopnafjarðar og á Miðausturlandi.

Á höfuðborgarsvæðinu verður unnið að gerð Sundabrautar, mislægra gatnamóta, svo sem við Kringlumýrarbraut/Miklubraut og mislægra gatnamóta á Reykjanesbraut í Kópavogi, Garðabæ og í Hafnarfirði. Því er ljóst að lokið verður við mörg brýn verkefni, er öll miða að því að greiða fyrir hinni miklu og sívaxandi umferð á höfuðborgarsvæðinu og jafnframt að draga úr slysum.

Það er von mín að með þessum áföngum og öðrum sem nást á tímabilinu munu samgöngur stórbatna víða um land.  Í sumum tilvikum er um byltingu að ræða og  veldur þar straumhvörfum aukin áhersla á jarðgangaframkvæmdir, en auk þess má ætla að umferðaröryggi aukist mjög verulega á umferðarþyngstu vegunum út frá Reykjavík.

Hálendisvegir
Hálendisvegir, sem eru í umsjá Vegagerðarinnar, teljast til landsvega og hefur þeim verið sinnt eftir því sem fjármagn hefur leyft á hverjum tíma.  Í  fyrstu samgönguáætlun 2003 – 14 var það nýmæli að fjórir hálendisvegir; Kaldidalur, Kjölur, Sprengisandur og Fjallabaksleið nyrðri, voru flokkaðir með vegum í grunnneti og  þannig settir í forgang.   Nú sett það markmið að þessum vegum verði komið í allgott horf  og þeir síðan lagðir bundnu slitlagi eftir atvikum. Ljóst er að ekki er sjálfgefið að allir þessir vegir verði eins úr garði gerðir en lengd þeirra er um 500 km og kostnaður við að fullnægja markmiðunum hefur verið metinn lauslega á 12 – 13 milljarða króna.

Við mat á umhverfisáhrifum samgönguáætlunar var það niðurstaða sérfræðihóps að víðtæk almenn umræða þurfi að fara fram í þjóðfélaginu um nýtingu hálendisins áður en endanleg afstaða verður tekin um gerð hálendisveganna. Helstu fyrirvarar umhverfisskýrslunnar voru einmitt við hálendisvegina.  Tryggð  er lágmarksfjárveiting til að vinna þetta verkefni sem skiptir ferðaþjónustuna miklu máli.

Verkefnumutan grunnnetsins verður sinnt áfram og reyndar mun betur en verið hefur. Í því sambandi skal nefna að frá og með öðru ári fyrsta tímabils eru fjárveitingar til tengivega hartnær tvöfaldaðar í áætluninni og mun það leiða til verulegs átaks við endurbyggingu tengivega.

Samantekt
Hæstvirtur forseti.
Tillögur þessar til þingsályktunar sem ég hef hér mælt fyrir, á grundvelli laga um samgönguáætlun, fela í sér mörg nýmæli en eru til marks um að með þeim fram-kvæmdum sem í þeim felast munu margir stórir áfangar nást.  Í hnotskurn má segja þetta:
·        Sett er fram heildstæð stefna og skýr markmið til næstu 12 ára í öllum greinum samgangna.
·        Sett er fram metnaðarfull áætlun um ráðstöfun fjármuna til samgöngumála næstu 12 árin í þremur fjögurra ára tímabilum.
·        Áætlunin gefur skýra og heildstæða sýn á samgöngumál og setur flugmál, siglingamál og vegamál í samhengi m.a. með því að skilgreina grunnnet samgangna.
·        Vinnubrögð við áætlanagerð þessa hafa þegar stuðlað að stóraukinni samvinnu þeirra sem að samgöngumálum koma, og þá ekki síst með samvinnu við notendur með samgönguþingi sem og með meiri og nánari samvinnu á milli stofnana samgöngumála.

Með þeim áætlunum sem hér liggja fyrir Alþingi til afgreiðslu, er hugsað stórt, og það er hugsað til framtíðar. Gert er ráð fyrir meiri og dýrari framkvæmdum en nokkru sinni fyrr og við gerum ráð fyrir því að í lok áætlunartímabilsins fullnægi samgöngukerfi þjóðarinnar í öllum meginatriðum þegnum þessa lands. Með samgönguáætlun þessari er sannarlega stefnt að því að lyfta Grettistaki í samgöngumálum þjóðarinnar.

Hæstvirtur forseti.  Ég hef nú mælt fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2007 – 2018.  Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og til háttvirtrar samgöngunefndar.