Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti í gær ávarp í áramótaboði Flugmálastjórnar Íslands.  Var það haldið í tilefni af því að nú um áramótin breytist skipulag flugmála. Ráðherra lagði áherslu á að þær væru gerðar til að tryggja sem best allt umhverfi fyrir öfluga flugstarfsemi á öllum sviðum og ekki síst framtíðarhagsmuni starfsmanna.

Mér er það mikil ánægja að fá að vera með ykkur hér í kvöld á merkum tímamótum. Í ljósi þeirra mikilvægu kaflaskipta í flugsögu okkar sem nú eiga sér stað vil ég nota tækifærið og  lýsa fyrir ykkur viðhorfi mínu sem samgönguráðherra til þeirra skipulagsbreytinga sem við stöndum frammi fyrir á  starfsemi Flugmálastjórnar Íslands.

Áramótin notum við gjarnan til að líta um öxl og rifja upp liðna tíð um leið og við horfum fram á veg og  reynum  að glöggva okkur á því  sem framundan er án þess þó að að setja okkur í spor spámannsins eða völvunnar.

Flugmálastjórn Íslands varð til  með lögum sem tóku til flugvalla og lendingarstaða en þar var einnig að finna ákvæði um sérstaka stjórn flugmála. Hið formlega upphaf er miðað við opnunardag skrifstofu stofnunarinnar 15. mars 1945 og hefur hún gegnt mikilvægu hlutverki allt frá fyrsta degi.  Þann 1. júlí sama ár var Erling Ellingsen skipaður fyrsti flugmálastjórinn. Saga þessarar virðulegu og grónu stofnunar er um margt merkileg og tilefni til skráningar fyrr en síðar.

Vorið 1946 var aðsetur Flugmálastjórnar flutt á Reykjavíkurflugvöll er Íslendingar tóku við rekstri vallarins af breska hernum og var þeirra tímamóta minnst á liðnu sumri.

Reykjavíkurflugvöllur varð þá strax og er enn mikilvægur. Og – eins og þið vitið – sleppi ég aldrei nokkru tækifæri til að ítreka mikilvægi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri og vil því enn undirstrika þá skoðun mína að þar er hann best kominn með sinni umfangsmiklu og þýðingarmiklu starfsemi.

Fyrir um 40 árum voru áætlunarflugvellir innanlands hátt á fjórða tug en hefur fækkað með breyttu ferðamynstri og kannski líka með betri vegum.

Í dag eru þeir 14 og farþegaaukning um suma en ekki aðra. Það þýðir hins vegar ekki að við getum hætt fjárfestingum á flugvöllum. Við þurfum að reka þessa mikilvægu flugvelli áfram og fyrir þá sem hafa gaman af tölum get ég nefnt að árin 1988 til 2005 var fjárfest fyrir 10,7 milljarða króna á 29 flugvöllum og lendingarstöðum. Þessu þarf öllu að halda gangandi áfram og þar kemur til kasta starfsmanna Flugstoða. Mjög snemma hófu Íslendingar einnig að sinna flugupplýsingaþjónustu, sem náði til flugumferðar um landið og yfir hafinu umhverfis landið.

Þar með var lagður grundvöllur að þeirri alþjóðlegu flugumferðar-þjónustu sem Flugmálastjórn Íslands hefur rekið í meira en fimm áratugi fyrir atbeina Alþjóða flugmálastofnunarinnar og framsýni forráðamanna íslenskra flugmála. Starfsmönnum  Flugmálastjórnar hefur fjölgað hratt eða úr 10 fyrsta starfsárið í 110 árið 1964 og í byrjun síðasta árs, á 60 ára afmæli stofnunarinnar, voru þeir rúmlega 300.

Þessi fjölgun starfsmanna hefur alltaf verið í beinu hlutfalli við umfang flugrekstrar á Íslandi og þjónustu við alþjóðaflugið um íslenska flugstjórnarsvæðið. Íslenskir flugrekendur byggja starf sitt annars vegar á eftirspurn eftir þjónustu og hins vegar á lögum og reglum sem þeim eru settar.

Stjórnvöld og einkaframtakið hafa átt samleið frá upphafi flugsins á Íslandi og ég held því fram að samvinna þessara aðila hafi gengið meira og minna hnökralaust allar götur síðan.

Flugrekstur er í stöðugri þróun. Því þurfa yfirvöld að búa fluginu það umhverfi sem hæfir og ýta undir þróunarmöguleika. Með breytingunni sem nú verður á skipan flugmála, að Flugstoðir ohf. taki við rekstri flugvalla og flugleiðsöguþjónustu en stjórnsýsla og eftirlit verði áfram á könnu Flugmálastjórnar Íslands, er verið að mæta alþjóðlegum kröfum um aðskilnað á stjórnsýslu og þjónustu. Stofnun Flugstoða ohf. eykur sveigjanleika og hagkvæmni og þeirri þörf að bregðast skjótt við nýjum hugmyndum og möguleikum. Með þessari skipan er umfram allt stefnt að því að tryggja sem best framtíðarhagsmuni starfsmanna. 

Breytingar á rekstrarformi frá ríkisstofnun til opinbers hlutafélags er ekki vegna kreddufestu samgöngu-ráðherrans eða andstöðu við ríkisrekstur heldur spurning um að velja það form sem talið er henta best starfseminni.

Þær breytingar sem ég stend fyrir á sviði flugmála eru undirbúnar og framkvæmdar af  mönnum sem best þekkja til og ég treysti  til að vinna af heilindum að þessu mikilvæga verkefni. Og ég fullvissa ykkur jafnframt um að Flugstoðir ohf. er ekki til sölu.

Ég tel að með því skrefi sem við stígum nú tryggjum við sem best áframhaldandi störf og öfluga þjónustu á öllum sviðum flugsins. Flugið verður áfram lífæð okkar Íslendinga bæði um landið og í samskiptum okkar við umheiminn. Þannig hefur það verið í áratugi og þannig verður það áfram.
Hin mikla uppbygging sem við höfum staðið fyrir í íslenskri ferðaþjónustu er öðrum þræði byggð á öflugri starfsemi á vettvangi flugsins. Það er ekki  síst fyrir starf ykkar á vettvangi Flugmálastjórnar sem svo vel hefur tekist til með restur flugfélaganna sem byggja útrás sína á þekkingu og starfi frumkvöðlanna í íslenskum flugmálum.

Ég vil líka á þessum tímamótum sérstaklega fagna þeim starfsmönnum Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli sem eru með okkur hér í kvöld og  verða á næsta ári hluti af þeirri starfsemi og þeirri liðsheild sem fellur undir starfsemi á vegum samgönguráðuneytisins. Ég er fullviss um að þegar þessi góði hópur leggur saman verður vel unnið í þágu flugsins.

Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að móta samfélag okkar. Það verður ekki gert úr hægindastólum þeirra sem engu vilja breyta eða þeirra sem vilja forðast þau átök sem fylgja því að brjóta ný lönd til ræktunar, nýsköpunar og framfara.

Góðir gestir, við fögnum þessum tímamótum. Það gerum við þrátt fyrir að nokkrir hnökrar hafi komið upp í samskiptum við hluta starfsmanna í einni stétt. Ég hef fulla trú á að málin leysist og þess vegna höldum við ótrauð áfram og hefjum nýjan kafla í sögu íslenska flugsins. Við gengum fyrr í dag frá þjónustusamningi milli samgönguráðuneytisins og Flugstoða og þar með er allt til reiðu. Ég óska starfsfólki sem færist til Flugstoða allra heilla og ekki síður þeim sem fylgja inn í hina nýju Flugmálastjórn Íslands sem fær nýtt og ekki síður mikilvægt hlutverk.

Ágætu gestir. Til hamingju með daginn – við skulum strengja þess heit að sækja fram á vettvangi flugsins.